Úrskurður gegn Assange aðför að tjáningarfrelsinu

Stjórn Blaðamannafélags Íslands lýsir vonbrigðum og áhyggjum af úrskurði áfrýjunardómstóls í Bretlandi sem komst að þeirri niðurstöðu í morgun að heimilt yrði að framselja blaðamanninn Julian Assange, stofnanda Wikileaks, til Bandaríkjanna.

Með úrskurðinum er vegið að tjáningarfrelsinu því með honum er samþykkt að Julian Assange verði framseldur til Bandaríkjanna þess að svara til saka fyrir samskipti við heimildarmann og að hafa stuðlað að því að upplýsa um glæpsamlegt athæfi. Verði hann framseldur, líkt og úrskurðurinn í dag segir til um, bíður hans hámarksrefsing fyrir 18 ákæruliði, sem byggja á fornri, bandarískri njósnalöggjöf frá árinu 1917, sem nemur 175 ára fangelsi. Þetta er í fyrsta sinn í bandarískri sögu sem mál er rekið gegn blaðamanni á grunni þessarar löggjafar.

Niðurstaða áfrýjunardómstólsins er því áfall fyrir tjáningarfrelsið og ekki aðeins aðför að einum blaðamenni heldur árás á fjölmiðlafrelsi um allan heim. Fordæmið sem þarna er gefið – ef ekki er spornað við fótum, þýðir að allir blaðamenn, hvar sem er í heiminum, geta átt yfir höfði sér ákæru og framsalskröfu ef þeir birta eitthvað sem bandarískum stjórnvöldum hugnast að skilgreina sem ógn við sína hagsmuni. Það eru því vonbrigði að breskir dómstólar skuli ekki virða tjáningarfrelsið meira en sem úrskurður þeirra gefur til kynna.