Úrsögn úr stjórn BÍ

Þorsteinn Ásgrímsson, blaðamaður á mbl.is, hefur tilkynnt Blaðamannafélagi Íslands um úrsögn sína úr stjórn. 

Tilkynningin er birt í heild með samþykki Þorsteins hér að neðan:

Ég tilkynni hér með um afsögn mína úr stjórn Blaðamannafélags Íslands.

Ég tel mikilvægt að haldinn sé umræðufundur eins og stefnt er að á fimmtudaginn vegna háttsemi Samherja í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um fyrirtækið og að sú umræða sé tekin á víðum grundvelli. Slíkt er nauðsynlegt faginu þegar stórfyrirtæki fer gegn ákveðnum fréttamönnum.

Ákvörðunarferli eftir stjórnarfund BÍ síðasta föstudag og yfirlýsing í kjölfarið var aftur á móti ekki í takt við þá samvinnu innan stjórnar og stéttarinnar í heild sem ég tel mikilvæga á þessum tíma þvert á alla miðla og þykir mér í því ljósi rétt að segja mig úr stjórninni.

Ég þakka samstarfið á liðnu ári.
Þorsteinn Ásgrímsson