Viðskiptablaðið sýknað í meiðyrðamáli

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Trausta Hafliðason ritstjóra Viðskiptablaðsins af meiðyrðakæru Lúðvíks Bergvinssonar vegna umfjöllunar dálkahöfundarins Óðins í Viðskiptablaðiinu og á vb.is í fyrra.

Pistill Óðins fjallaði um kostnað Samkeppniseftirlitsins vegna greiðslna til Lúðvíks vegna sérfræðistarfa hans.  Gerði Lúðvík m.a. kröfu um að tiltekin ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk, auk þess að fá 3 milljónir í miskabætur og fyrir kostnaði við að birta dómsniðurstöðuna í blöðum.

Í niðurstöðu dómarans, Hólmfríðar Grímsdóttur, segir m.a. : „Að þessu sögðu og með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum tekur dómurinn fram að ljóst megi vera af efni þeirrar umfjöllunar sem um er deilt í málinu að hún hafi varðað málefni sem alla jafnan verður að telja að varði almenning, þ.e. starfsemi eftirlitsstofnana og kostnað við eftirlit og framkvæmd þess og hafi þannig verið hluti af sjálfsagðri og hefðbundinni þjóðfélagsumræðu.“  Síðar segir svo varðandi kröfu um ómerkingu einstakra ummæla að  á það verði að fallast með með stefnda, Trausta, „að þau feli í sér gildisdóma og þá verður stefnanda ekki gert að sanna eins og alkunna er. Er við þetta horft til framsetningar og orðalags ummælanna, blæbrigða þeirra, þess samhengis sem þau eru sett fram í og efnisumfjöllunarinnar í heild. Verður að telja ljóst að í ummælunum sé sá er ritar að setja fram sína skoðun og huglægt mat eða upplifun á málefninu.“

Dómsorð hljóða því þannig að stefndu, Trausti Hafliðason og Myllusetur ehf., „eru sýkn af öllum kröfum stefnanda, Lúðvíks Bergvinssonar.   Stefnandi greiði stefndu 1.500.000 krónur í málskostnað.“

Sjá dóminn í heild hér