Heimir Hannesson(1936-)

 Heimir fæddist á Akureyri 10. júlí. Foreldrar hans voru Hannes J. Magnússon skólastjóri og Sólveig Einarsdóttir. Heimir varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1955, lögfræðingur frá Háskóla Íslands 1962 og héraðsdómslögmaður ári síðar. Hann var blaðamaður á Tímanum 1955-1960, en annaðist þætti í útvarpi samhliða blaðamennsku, svo sem þáttinn Efst á baugi um erlend málefni. Hann var ritstjóri og annar útgefenda tímaritsins Iceland Review frá upphafi, eða 1963-1975. Heimir rak eigin lögfræðistofu 1968-1976, en hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum þótt hann sé væntanlega kunnastur fyrir afskipti sín af ferðamálum, m.a. sem formaður Ferðamálaráðs um árabil. Þá var hann varaþingmaður fyrir Framsóknarflokkinn í Norðurlandskjördæmi eystra 1971-1978.