- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Um aðgengi blaðamanna að hættusvæðum
Fjölmiðlar hafa mikilvægu hlutverki að gegna á hamfaratímum við upplýsingaöflun og miðlun upplýsinga. Blaðamannafélagið og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum gerðu með sér samkomulag þann 8. mars, eftir að félagið höfðaði mál gegn ríkinu, sem tryggir aðgengi blaðamanna að hættusvæðinu við Grindavík að ákveðnum öryggissjónarmiðum uppfylltum.
Samkvæmt samkomulaginu við Lögreglustjórann hefur BÍ gefið út 50 númeraða passa. 39 eru stílaðir á fimm íslenska fréttamiðla og 11 passar eru til annarra íslenskra fréttamiðla og sjálfstætt starfandi blaðamanna sem starfa við fréttaöflun fyrir fréttamiðla.
Blaðamannafélagið gefur því út aðgangspassa til blaðamanna að neðangreindum skilyrðum uppfylltum sem greiðir aðgang þeirra inn á hættusvæðið og við Grindavík.
Skilyrði sem þarf að uppfylla til að fá samþykkta umsókn um aðgangspassa BÍ að hættusvæðum:
Öryggissjónarmið sem þarf að uppfylla skv. tilmælum Lögreglustjórans á Suðurnesjum:
Blaðamenn hafi meðferðis gasmæla (fjórgasmæla).
Blaðamenn hafi meðferðis gasgrímur.
Blaðamenn hafi meðferðis öryggishjálma.
Blaðamenn hafi meðferðis tetra talstöðvar. Talrás SST gulur.
Blaðamenn klæðist gulum vestum sem eru merkt PRESS á framhlið og bakhlið.
Blaðamenn hafi meðferðis blaðamannaskírteini sín.
Ökutæki verði merkt með skýrum hætti viðkomandi fjölmiðli.
Athugið að blaðamenn starfa ávallt á eigin ábyrgð inn á skilgreindum hættusvæðum og geta þurft að sæta leiðsögn áður en farið er inn fyrir lokunarpósta. Eins getur þurft sérstakt leyfi þegar farið er inn á hættuleg vinnusvæði, sbr. vinnusvæði þungavinnuvéla við gerð varnargarða.
Samkomulag við íslenska ríkið um aðgengi blaðamanna
Í kjölfar samkomulagsins við Lögreglustjórann á Suðurnesjum gerðu Blaðamannafélag Íslands og dómsmálaráðuneytið víðtækara samkomulag byggt á ofangreindu. Nær það til aðgengi blaðamanna að svæðum í hættuástandi..
Samkomulagið er eftirfarandi: Eftir fund milli forsvarsmanna Blaðamannafélags Íslands og dómsmálaráðuneytisins er ljóst að samhugur er milli aðila málsins um að blaðamenn gegna veigamiklu eftirlits- og upplýsingahlutverki og að ríkar ástæður þurfi til að takmarka tjáningarfrelsi þeirra. Á grundvelli laga um almannavarnir hafa stjórnvöld tilteknar valdheimildir til þess að bregðast við með skjótum og markvissum hætti þegar hættuástand kemur upp, s.s. að takmarka aðgengi að tilteknum svæðum. Þær takmarkanir sem stjórnvöld kunna að þurfa að setja blaðamönnum í hættuástandi skulu að jafnaði ekki vera meiri en settar eru öðrum viðbragðsaðilum af öryggissjónarmiðum og skulu ennfremur taka mið af sértækum réttindum blaðamanna og hlutverki fjölmiðla. Hinn 8. mars sl. komust Blaðamannafélag Íslands og lögreglustjórinn á Suðurnesjum að samkomulagi um bætt aðgengi fjölmiðla að hamfarasvæðum á Reykjanesi sem tekur mið af þessu.