Deild miðlunar og samskipta

Deild miðlunar og samskipta innan BÍ tók til starfa á formlegum stofnfundi þann 14. maí. Lög félagsins voru samþykkt og stjórn kjörin ásamt formanni. Stjórnarformaður deildarinnar er Aðalbjörn Sigurðsson, aðrir aðalmenn í stjórn eru Lára Ómarsdóttir og Jón Aðalsteinn Bergsveinsson og varamenn eru Karen Kjartansdóttir, Guðrún Óla Jónsdóttir og Ari Brynjólfsson.

Í nýsamþykktum lögum deildarinnar segir að tilgangur hennar sé að vera faglegur vettvangur fólks sem starfar við hvers kyns miðlun, upplýsingagjöf og samskipti og einnig að vinna að fræðslumálum í þágu félaga deildarinnar. Deildin er opin öllum félögum í BÍ sem starfa við hvers konar samskipti eða miðlun upplýsinga, aðra en blaðamennsku, til að mynda sem samskiptastjórar, upplýsingafulltrúar eða almannatenglar fyrir fyrirtæki, stofnanir eða félagasamtök. Einnig er deildin opin sjálfstætt starfandi ráðgjöfum á sama sviði.

Fundarmenn voru sammála um að mikilvægt væri að koma á fót virkum vettvangi fyrir starfandi í faginu og efla þannig samskipti, fræðslu, endurmenntun og faglega umræðu meðal fólks sem starfar við samskipti og miðlun.

Blaðamannafélag Íslands telur yfir 600 félaga, þar af flestir starfandi sem blaðamenn eða ljósmyndarar á fjölmiðlum eða sjálfstætt. Um 90 félagar hafa snúið sér að störfum við samskipti, miðlun og almannatengsl, ýmist sem sjálfstæðir sérfræðingar, ráðgjafar eða upplýsingafulltrúar fyrirtækja og stofnana, og því hefur skapast þörf á að auka þjónustu félagsins við þann hóp félagsmanna, svo sem með sérsniðum námskeiðum, umræðukvöldum, málþingum o.fl.