Félagar geta verið öll þau sem hafa frétta- eða blaðamennsku að aðalstarfi, það er að miðla upplýsingum, skoðunum og hugmyndum til almennings í gegnum fjölmiðla, óháð því hvort um er að ræða dagblöð, vikublöð, sértímarit, landshlutablöð, vefmiðla, útvarps- eða sjónvarpsstöðvar eða aðra fjölmiðla, svo fremi sem staðið er skil á tilskildum gjöldum til félagsins og sjóða þess.
Á meðal þeirra sem samkvæmt þessu geta verið félagar eru blaðamenn, fréttamenn, útlitsteiknarar, prófarkalesarar, handritalesarar, ljósmyndarar, ritstjórar, ritstjórnarfulltrúar, fréttastjórar, dagskrárgerðarfólk, hljóð- og tökumenn, tækni- og aðstoðarfólk í frétta- eða blaðamennsku og hvert það annað starfsfólk fjölmiðla sem sinna upplýsingamiðlun og störfum sem tengjast frétta- eða blaðamennsku. Upptalning þessi er sett fram í dæmaskyni, en er ekki tæmandi. Háskólanemar í blaðamennsku geta einnig verið félagar.
Fulla aðild geta einnig átt öll þau sem starfa að fjölmiðlun, upplýsingaöflun og miðlun, óháð miðlunarleið.
Full aðild
Félagar sem hafa blaðamennsku að aðalstarfi þar sem tiltekið hlutfall er greitt af launum í sjóði félagsins skv. kjarasamningi.
Fagaðild
Félagar geta einnig verið þau sem starfa sjálfstætt að frétta- eða blaðamennsku. Slík aðild telst vera fagaðild og skulu slíkir félagar njóta félagsréttinda, en ekki eiga rétt á greiðslum úr sjóðum félagsins.
Lífeyrisaðild
Félagsmaður, sem kominn er á eftirlaun og er ekki lengur í fullu starfi eða býr við örorku, getur óskað eftir áframhaldandi aðild að félaginu og nýtur þá áfram félagsréttinda, en á ekki rétt á greiðslum úr sjóðum félagsins eða kosningarétt um kjaratengd málefni.
Nemaaðild
Félagar geta einnig verið þau sem leggja stund á nám á háskólastigi í blaðamennsku. Slík aðild telst vera nemaaðild og skulu slíkir félagar njóta félagsréttinda, en ekki eiga rétt á greiðslum úr sjóðum félagsins eða hafa kosningarétt um kjaratengd málefni.
Frekari upplýsingar um mánaðarlegar greiðslur og réttindi er að finna hér. Lífeyrisþegar, öryrkjar og nemar eru undanskildir greiðslu félags- og iðgjalda og eiga þar af leiðandi ekki rétt á styrkjum úr sjóðum félagsins.