Sjálfsvígsforvarnir: Ráðleggingar til fjölmiðlafólks

Umfjöllun fjölmiðla mikilvæg í forvörnum gegn sjálfsvígum

Rannsóknir sýna að frásögnum og fréttum um andlát af völdum sjálfsvíga geta fylgt fleiri sjálfsvíg, en um leið getur umfjöllun um það hvernig hægt er vinna sig út úr andlegum erfiðleikum dregið úr sjálfsvígum. 

Ábyrg umfjöllun fjölmiðla um sjálfsvíg er því mikilvægur þáttur í forvörnum gegn sjálfsvígum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur nú gefið út fjórðu útgáfu af ritinu Sjálfsvígsforvarnir: Ráðleggingar fyrir fjölmiðlafólk. Uppfærslan er samstarfsverkefni fjölda fólks og hópa þ.á.m. heilbrigðisstarfsfólks, fjölmiðlafólks og félagastofnana. Þverfaglegur hópur vann að íslenskri þýðingu og staðfærslu og er hann gefinn út í víðtæku samstarfi við haghafa. Eyrún Magnúsdóttir, blaðamaður, var fulltrúi Blaðamannafélagsins í þeim hópi en aðrir voru m.a. íslenskir sérfræðingar í sjálfsvígsfræðum, notendur geðþjónustu og fólk sem hefur reynslu af missi í sjálfsvígi.

Í aðdraganda útgáfu íslenska ritsins hélt Blaðamannafélag Íslands pressukvöld í tilefni af gulum september í samstarfi við Embætti landlæknis síðasta haust. Einn helsti sérfræðingur heims í málaflokknum, Dr. Thomas Niederkrotenhaler, prófessor við Háskólann í Vín og sérfræðingur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) í sjálfsvígsforvörnum, var fenginn til landsins til að vera með erindi á viðburðinum. Hér er hægt að horfa á fyrirlesturinn í heild sinni.

Hér er hægt að lesa ritið Sjálfsvígsforvarnir: Ráðleggingar fyrir fjölmiðlafólk