- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Endurmenntunar- og háskólasjóður Blaðamannafélags Íslands styrkir endurmenntun blaðamanna með margvíslegum hætti.
Allir félagsmenn, sem greitt hafa iðgjald í sjóðinn næstliðna sex mánuði, geta fengið endurgreiddan allt að helming kostnaðar vegna námskeiða, að ákveðnu hámarki ár hvert. Þá geta félagar í lausamannadeild einnig sótt um styrk til félagsins til endurmenntunar, enda hafi þeir greitt iðgjald í sjóðinn, jafnhátt því sem BÍ semur um í kjarasamningum, næstliðna sex mánuði. Rétturinn til styrks fellur niður sex mánuðum eftir að iðgjaldagreiðslur til sjóðsins hætta að berast.
Styrkir vegna styttri námskeiða hér heima eru greiddir á skrifstofu BÍ að námi loknu gegn framvísun reiknings fyrir þátttökugjaldi og staðfestingu á þátttöku.
Nægilegt er að sækja um rafrænt og þurfa öll viðeigandi gögn að fylgja með, svo sem staðfesting á innritun og greiðslu námskeiðsgjalda og upplýsingar um efni, eðli, lengd náms og námskeiða.
Hver félagsmaður getur aldrei fengið meira úthlutað úr Endurmenntunar- og háskólasjóði en samtals 760 þúsund krónur á fjögurra ára tímabili.
Úthlutunarreglur og upphæðir styrkja eru endurskoðaðar árlega.
Námsstyrkir vegna námskeiða:
Endurgreiddur er allt að helmingur kostnaðar vegna styttri námskeiða, þriggja mánaða eða styttri, að ákveðnu hámarki ár hvert.
Árið 2024 er hámarkið 200 þúsund krónur.
Námsstyrkir vegna háskólanáms:
Veittir eru styrkir vegna lengra náms hérlendis og erlendis, eins og nánar greinir hér á eftir, samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins. Miðað er við að námið sé lengra en þrír mánuðir og tengist faginu að mati stjórnar sjóðsins.
Nám við háskóla á Íslandi:
Endurgreitt er allt að helmingur af skráningar- eða innritunargjöldum. Árið 2024 er hámarkið 60 þúsund krónur.
Nám við erlenda háskóla:
Hægt er að sækja sérstaklega um styrki til náms erlendis og skulu umsóknirnar berast stjórn til umsagnar. Miðað er við að námið sé lengra en þrír mánuðir og tengist faginu að mati stjórnar sjóðsins.
Árið 2024 er hámarkið 200 þúsund krónur.
Félagsmenn geta sótt um nám við Norrænu blaðamannamiðstöðina NJC í Árósum í Danmörku en það nám er greitt að fullu en þó aldrei meira en hámarksgreiðslur sjóðsins gera ráð fyrir.
Ferðastyrkir:
Hægt er að sækja um ferðastyrki vegna ferðalaga í þágu menntunar eða endurmenntunar. Sjóðurinn veitir þó aldrei styrk fyrir meira en 80% af fargjaldi og gistikostnaði . Hámark er 100 þúsund krónur árlega. Styrkir samkvæmt þessu ákvæði eru greiddir samkvæmt framvísun reikninga.