Mál nr. 2 2025/2026

Kærandi:
Björn B Björnsson

Kærðu:
Ritstjórn visis.is, Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri Vísis og Erla Björg Gunnarsdóttir, ritstjóri Vísis

Kæruefni:
Synjun á birtingu og ítrekuð afturköllun skoðanagreina kæranda á visi.is. Kærandi telur þetta brot á ýmsum greinum siðareglna Blaðamannafélags Íslands en tiltekur aðeins 1. grein reglnanna.

Málsmeðferð:
Kæra barst skrifstofu Blaðamannafélags Íslands 11. apríl 2025 og var send Siðanefnd samdægurs. Siðanefnd samþykkti á fundi 29. apríl 2025 að óska andmæla frá kærðu. Andmæli bárust 8. maí 2025. Nefndin fundaði um málið á ný þann 13. maí og kvað í kjölfarið upp úrskurð.

Málavextir:
Kærandi sendi í byrjun mars 2025 skoðanagrein til birtingar á visi.is, þar sem hann fjallaði um ísraelska fjártæknifyrirtækið Rapyd í tengslum við álit Alþjóðadómstólsins á hernámi Ísraels á landsvæði Palestínumanna. Greinin var birt 4. mars, en tekin niður daginn eftir að tilmælum fréttastjóra, sem taldi tilteknar staðhæfingar í greininni ósannaðar. Í samráði við ritstjórn gerði kærandi breytingar á orðalagi og fyrirsögn greinarinnar. Greinin var birt á ný 6. mars. Þann 8. mars óskaði fréttastjóri eftir skýringum frá kæranda á fimm atriðum sem hann taldi ósannaðar eða ekki nægilega rökstuddar staðhæfingar í greininni. Kærandi svaraði fyrir tiltekinn frest og greinin hélst í birtingu. Þann 11. mars var greinin tekin úr birtingu í annað sinn, með vísan til fullyrðingar um beina þátttöku Rapyd í hernaði Ísraels á Gaza. Kærandi lagfærði greinina enn frekar og setti fram þau sjónarmið sem skoðun fremur en staðhæfingu. Þrátt fyrir það var greinin ekki birt að nýju og kærandi fékk ekki svör við fyrirspurnum um ástæður synjunar. Í framhaldi af því sendi kærandi ritstjórn visi.is grein þar sem hann lýsti samskiptum sínum við miðilinn og birtingarstefnu hans í þessu máli. Sú grein var hvorki birt né var kæranda svarað. Hann telur að meðferð ritstjórnarinnar í öllum fjórum tilvikum hafi verið andstæð 1. grein siðareglnanna, þar sem segir m.a. að blaðamaður skuli standa vörð um tjáningarfrelsi, frjálsa fjölmiðlun og rétt almennings til upplýsinga. Af hálfu kærðu er á því byggt að kæran varði ekki umfjöllun blaðamanna heldur aðsendar skoðanagreinar. Kæran standist ekki málsmeðferðarreglur Siðanefndar BÍ, þar sem kveðið sé á um að afrit kærðrar umfjöllunar skuli fylgja kæru. Því hafi ekki verið til að dreifa, enda varði málið greinar kæranda sjálfs en ekki efni unnið á ritstjórn Vísis. Kærðu vísa einnig til þess að umræddar greinar hafi ekki uppfyllt kröfu birtingarskilmála skoðanagreina á Vísi um sannleiksgildi staðhæfinga. Jafnframt er bent á að samkvæmt skilmálunum áskilji miðilillinn sér rétt til hafna birtingu greina þar sem skoðun á sama málefni sé síendurtekið komið á framfæri, eins og hér hafi verið um að ræða. Að mati kærðu var ákvörðun ritstjórnar um meðferð greinanna bæði málefnaleg og í samræmi við skilmála um birtingu skoðanagreina. Kærðu vísa til þess að fjölmiðlum beri engin skylda til að birta allt efni sem þeim berist. Ritstjórn Visis hafi fullan rétt á að hafna greinum eða fjarlægja þær eftir birtingu. Kærðu telja það ekki vera á valdsviði Siðanefndar Bí að endurskoða mat ritstjórnar, enda „myndi slíkt vega að ritstjórnarlegu sjálfstæði fréttastofunnar“ eins og segir orðrétt í andmælum. Er þess krafist að kærunni verði af þessum sökum vísað frá.

Umfjöllun nefndarinnar:
Í kæru er byggt á því að fjögur tilvik tengd birtingu og synjun ritstjórnar Vísis á skoðanagreinum kæranda brjóti gegn ýmsum greinum siðareglna BÍ, en aðeins 1. grein reglnanna er tilgreind. Þar segir að blaðamaður hafi sannleikann að leiðarljósi og standi vörð um tjáningarfrelsið og rétt almennings til upplýsinga. Í þessu máli eru ekki kærð vinnubrögð blaðamanna við fréttaskrif eða annað efni sem miðillinn sjálfur hefur birt sem eigið ritstjórnarefni. Kæran lýtur að meðferð ritstjórnar á greinum utanaðkomandi höfundar. Nefndin tekur undir það sjónarmið kærðu að í slíkum tilvikum verði að meta ritstjórnarfrelsi sem hluta af sjálfstæði fjölmiðils. Kærðu telja að vísa eigi málinu frá þar sem afrit af „kærðri umfjöllun prentmiðils eða eftirrit kærðs efnis (eða virk vefslóð) í útvarpi, sjónvarpi eða vefmiðli“, fylgi ekki kærunni eins og áskilið er í málsmeðferðarreglum Siðanefndar. Þar er ekki við kæranda að sakast því visir.is tók greinina úr birtingu. Málinu verður ekki vísað frá á þeirri forsendu. Nefndin telur að hins vegar að efni kærunnar falli ekki undir valdsvið sitt. Það er ekki hlutverk Siðanefndar að endurskoða ritstjórnarlegt mat fjölmiðla á því hvort birta eigi aðsendar greinar, breyta þeim eða taka úr birtingu. Siðanefndin tekur fyrir mál er varða ritstjórnarlegar afurðir blaðamanna.

Úrskurðarorð:
Málinu er vísað frá siðanefnd Blaðamannafélags Íslands.

Reykjavík 13.05.2025
Pálmi Jónasson, formaður
Emma Björg Eyjólfsdóttir
Jóhann Óli Eiðsson
Auðunn Arnórsson
Valgerður Anna Jóhannsdóttir