Mál nr. 4/2025-2026

Kærandi:

Ásthildur Lóa Þórsdóttir

Kærði:

Ríkisútvarpið (RÚV), Ari Páll Karlsson, Sunna Karen Sigurþórsdóttir og fréttastofa
RÚV

Kæruefni:

Umfjöllun um málefni kæranda, sem hófst þann 20. mars 2025, er varðar son hennar
og samskipti við barnsföður

Málsmeðferð:

Kæra barst skrifstofu BÍ miðvikudaginn 18. maí sl. Nefndin tók málið fyrir á fundi tveimur
dögum síðar og samþykkti að senda kærða kæruna til andmæla. Andmæli bárust nefndinni 6.
júní. Nefndin fundaði á ný um málið þann 10. júní og aftur 20. júní og kvað í kjölfarið upp
úrskurð.

Málavextir:

Kærandi máls þessa er alþingismaður og fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra. Þann 20.
mars sl., skömmu fyrir klukkan sex síðdegis, birtist á vef RÚV frétt með fyrirsögninni
„Barnamálaráðherra átti barn með unglingspilti sem hún leiðbeindi“, en síðar var fyrirsögn
hennar breytt í „Barnamálaráðherra átti barn með unglingspilti sem hún kynntist í trúarsöfnuði“.

Í umræddri frétt var greint frá því að kærandi málsins hefði fyrir rúmum þremur áratugum, þegar
hún var 22 ára gömul, átt í ástarsambandi með fimmtán ára dreng. Þess var getið að þau hefðu
kynnst þegar kærandi leiddi unglingastarf í trúarsöfnuði, hvar drengurinn hefði leitað haldreipis
vegna aðstæðna heima fyrir. Eftir samneyti þeirra varð kærandi þunguð og eignaðist son en í
fréttinni segir að þá hafi móðirin verið orðin 23 ára en faðirinn sextán ára. Enn fremur var sagt
frá því að umgengni föður við barnið hefði verið takmörkuð og að faðirinn hafi upplifað
framkomu kæranda sem tálmun. Í fréttinni er þess getið að faðirinn hafi ekki viljað veita
fréttastofu viðtal en staðfest framangreindar upplýsingar.

Í fréttinni er að sama skapi reifað efni almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (hér eftir
„hegningarlög“), n.t.t. 198. gr. þeirra, og bent á að samkvæmt þeim sé óheimilt að eiga samneyti
með einstaklingi undir átján ára aldri sé „viðkomandi til dæmis kennari eða leiðbeinandi“ og hið
sama gildi eigi maður samræði við einstakling undir átján ára aldri sem sé „háður viðkomandi
fjárhagslega, í atvinnu sinni eða skjólstæðingur í trúnaðarsambandi.“ Slíkt brot geti varðað allt
að þriggja ára fangelsi. Efnislega sambærilegar fréttir birtust að auki í útvarpsfréttum RÚV kl.
18.00 og sjónvarpsfréttum kl. 19.00 þennan sama dag.

Í kjölfar útvarpsfréttatímans kl. 18.00 var fjallað um málið í fréttaskýringaþættinum Speglinum.
Þar var fullyrt að kærandi hefði verið 22 ára og barnsfaðir hennar fimmtán ára þegar barn þeirra
kom í heiminn. Síðar, þann 28. mars, birti RÚV leiðréttingu þar sem fram kom að hið rétta væri
að þau hefðu bæði verið árinu eldri, auk þess að hlutaðeigandi voru beðnir velvirðingar.

Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar, þá þeirri sem birtist á vef RÚV skömmu fyrir kl. 18.00 þann 20.
mars, var ekki rætt við kæranda málsins en viðtal kærðu Sunnu Karenar við kæranda var birt á
vef RÚV kl. 18.35 og sjónvarpsfréttatíma kl. 19.00. Auk viðbragða kæranda við málinu kom þar
fram að hún hefði ákveðið að segja af sér sem barna- og menntamálaráðherra, enda ætti 35 ára
gamalt mál ekki að varpa skugga á góð störf ríkisstjórnarinnar.

Samhliða miðlun fregna hér innanlands sendi RÚV fréttaskeyti af málinu til Sambands evrópskra
sjónvarpsstöðva (EBU). Frekari umfjöllun var um málið næstu daga og vikur. Vísað verður til
síðari frétta eftir því sem tilefni gefst til.

Með bréfi til RÚV, dags. 10. maí sl., fór kærandi þess á leit að RÚV myndi leiðrétta ýmsar
rangfærslur, þ.á m. „aðdróttanir um refsivert athæfi“, sem kærandi taldi birtast í umfjöllun
fréttastofunnar um málið. Enn fremur var þess farið á leit að RÚV myndi leiðrétta fréttir sem
miðlað var til sjónvarpsstöðva sem aðilda eiga að EBU. Í svarbréfi RÚV, dags. 15. maí, kom
fram að RÚV teldi ekki tilefni til frekari leiðréttinga. Þá þegar hefði verið búið að leiðrétta og
biðjast afsökunar á inngangi í Speglinum þann 20. mars sl. Ekki var talið tilefni til að senda
sérstakar leiðréttingar vegna fréttaskeytanna til EBU, enda hefðu erlendir miðlar sótt sínar
heimildir til fleiri aðila en RÚV og þá hefðu sömu mistök ekki verið gerðar í þeim skeytum. Þá
var þess getið að tilvísanir í lög hefðu þjónað „þeim tilgangi að setja málið í samhengi við
gildandi regluverk“. Beiðni kæranda var því hafnað.

Sjónarmið kæranda:

Kærandi telur víða pott brotinn í vinnubrögðum RÚV við fréttaflutning af máli sínu. Í kæru sinni
til nefndarinnar eru einkum tiltekin fimm atriði sem kærandi telur að feli í sér brot á „2., 3. og 6.
gr. siðareglna lögmanna. [sic]“

Í fyrsta og öðru lagi telur kærandi að kærðu hafi brotið gegn 2. og 6. gr. siðareglna með því að
segja að hún hafi átt í ástarsambandi við fimmtán ára pilt þegar hún hafi leitt unglingastarf í
trúarsöfnuði á níunda áratug síðustu aldar, enda sé þar rangt farið með staðreyndir. Fyrir það
fyrsta hafi samband þeirra hafist þegar drengurinn var sextán ára og því sjálfráða í skilningi
þágildandi laga. Þess er getið að samskipti þeirra hafi hafist þegar hann var fimmtán ára en stutt
samband ekki fyrr en hann var fullra sextán ára. Enn fremur sé rangt með farið að hún hafi leitt
trúarstarf í söfnuðinum. Hið rétta er að þau hafi verið jafnsett innan hans.

Að mati kæranda hefðu fréttamenn RÚV getað, út frá fæðingardegi sonar kæranda, reiknað út
hvenær umrædd samskipti áttu sér stað, enda hefur kærandi greint svo frá að samneyti þeirra hafi
ekki hafist fyrr en getnaður átti sér stað. Með „einföldum hugarreikningi, og öflun upplýsinga um
venjubundinn meðgöngutíma mannfólks, hefðu fréttamenn RÚV getað fundið út að barnsfaðir
[kæranda] var 16 ára þegar barn hans og [kæranda] var getið.“ Framsetning RÚV hafi hvorki
verið heiðarleg né sanngjörn, líkt og 2. gr. siðareglna áskilur, heldur hafi allt verið gert til að villa
um fyrir áheyrendum, áhorfendum og lesendum.

Í þriðja lagi telur kærandi að kærðu hafi brotið gegn 2. og 3. gr. siðareglna með því að gefa
kæranda ekki kost á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en fyrsta frétt af málinu fór
í loftið. Að mati kæranda liggur ljóst fyrir að umfjöllun um málið hefði verið með öðrum og
réttari hætti hefði henni gefist kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri fyrir fram. Þess í
stað hafi kærðu afráðið að taka einhliða upp orð tengdamóður barnsföður kæranda sem aðeins
þekkti málið af afspurn. Kærandi tekur fram að á engum tímapunkti hafi kærandi látið í ljós að
hún ætlaði ekki að veita fréttamönnum viðtal heldur aðeins óskað eftir upplýsingum um tilefni
þess áður en það yrði veitt. Ljóst sé að fréttaflutningur hefði verið með allt öðrum hætti hefði
kæranda staðið til boða að tjá sig samhliða fyrstu frétt „í stað þess að hóta því að fréttir af
málinu yrðu sagðar strax kl 18:00 og kl 19:00 sama dag, hvort sem kærandi veitti viðtal þá
vegna málsins eða ekki.“ Með vísan til stærðargráðu málsins, þá með hliðsjón af stöðu kæranda
sem ráðherra, hefði verið eðlilegt að gefa henni ríkara ráðrúm til að bregðast við þeim
„ásökunum sem fram voru reiddar.“ Slíkt hefði leitt í ljós staðreyndir máls, útskýringar kæranda
og sonar hennar, svo og frásögn þáverandi forstöðumanns trúfélagsins.

Í fjórða lagi byggir kærandi á því að kærðu hafi brotið gegn 3. gr. siðareglna með því að leiðrétta
ekki efnislega rangar fréttir sem miðlað hefði verið áfram til EBU. Hið sama gildir um
staðhæfingar í hinni kærðu umfjöllun.

Í fimmta lagi, og að endingu, byggir kærandi á því að með vísan til gildandi lagaákvæða um
sjálfræðisaldur og nánar tilgreindra ákvæða hegningarlaganna hafi kærðu brotið gegn 2. og 6. gr.
siðareglna, en með því hafi verið ályktað um refsivert athæfi kæranda. Einföld gagnaöflun hefði
hins vegar leitt í ljós að tilvitnuðu ákvæði hegningarlaga var breytt í núverandi horf árið 1992,
auk þess að sjálfræðis- og samræðisaldur hafi tekið breytingum á tíunda áratug síðustu aldar.
Umrædd framsetning hafi því hvorki getað talist heiðarleg né sanngjörn.

Sjónarmið kærðu:
Sameiginleg andsvör kærðu hefjast á því að bent er á að kærði Ari Páll Karlsson hafi enga
aðkomu, hvorki beina né óbeina, haft af kæruefni málsins og með öllu sé óljóst hvers vegna
málinu sé beint að honum. Af hans hálfu er þess því krafist að málinu verði vísað frá hvað hann
varðar. Verði ekki á það fallist gerir hann sömu kröfur og aðrir kærðu um að kröfum kæranda
verði hafnað.

Í andsvörunum eru efni kæru kæranda og fyrstu frétta málsins reifuð. Þess er getið, líkt og fram
hefur komið í umfjöllun RÚV, að umfjöllunin hafi m.a. byggst á frásögn barnsföður kæranda.
Ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til þess að frásögn hans sé röng, né að fréttastofa og
þeir fréttamenn sem komu að vinnslu frétta hafi haft nokkra ástæðu til að ætla að hann hafi
hallað röngu máli. Kærðu hafi því verið í góðri trú um sannleiksgildi umfjöllunarinnar. Er meðal
annars vísað til þess að ekki liggi fyrir nein staðfesting þess efnis að kærandi hafi ekki gegnt
einhverskonar hlutverki innan safnaðarins og þá gildi það einu hvort sonur kæranda hafi komið
undir fyrir eða eftir sextán ára afmælisdag blóðföður síns.

Þá sé þess að geta að áður en umfjöllunin fór í loftið hafi kærða Sunna Karen ítrekað óskað eftir
viðbrögðum kæranda vegna umfjöllunarinnar. Fyrir hádegi 20. mars, sama dag og fréttin birtist,
hafi hún sett sig í samband við aðstoðarmann kæranda, sem og aðstoðarmann forsætisráðherra til
að falast eftir viðbrögðum. Sama dag hafi framkvæmdastjóri þingflokks kæranda, sem jafnframt
er upplýsingafulltrúi flokksins, haft samband við kærðu Sunnu Karen.

Í andsvörum kærðu er bent á það að skömmu eftir að fyrstu fréttir voru sagðar hafi kærandi mætt
til viðtals á RÚV. Í því viðtali hafi hún sagt að hún hefði þá þegar tilkynnt forsætisráðherra að
hún hygðist segja af sér ráðherraembætti. Engum blöðum væri því að fletta um að kærandi hafi
verið fullmeðvituð um efni og innihald umfjöllunarinnar. Þá er á það bent að aldrei hafi þess
verið óskað af hálfu kæranda að beðið yrði með fréttaflutning fram að viðtali.

Hvað varðar tilvísanir í umfjölluninni til skilgreininga laga á samræðisaldri og hugtakinu barn,
þá hafi markmiðið verið að bregða ljósi á hvernig umfjöllunarefnið horfði við gagnvart gildandi
lagaumhverfi. Enn fremur eru í andsvörunum reifuð sjónarmið um vernd tjáningarfrelsisins, sbr.
73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, svo
og dómaframkvæmd þar um. Almennt gildi að fjölmiðlum sé ætlað rúmt svigrúm til umfjöllunar
um málefni sem eiga erindi við almenning og eru framlag til samfélagslegrar umræðu. Ekki sé
unnt að gera þá kröfu að fjölmiðlamenn geti sýnt fram á fulla sönnun hverrar og einnar
staðhæfingar sem sett sé fram, enda myndi slíkt skerða svigrúm þeirra um of. Þess í stað nægi
almennt að fréttir séu settar fram í góðri trú, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 26. mars 2025 í máli nr.
34/2024.

Í andsvörunum er enn fremur á það bent að ekki var aðeins um ríflega þriggja áratuga gamalt mál
að ræða, enda hafði kærandi sett sig í samband og mætt óboðin á heimili konu þeirrar sem hafði
samband við forsætisráðuneytið vegna málsins. Hvergi verið sýnt fram á að rangt hafi verið farið
með staðreyndir, auk þess að umfjöllunin hafi byggst á því sem barnsfaðir kæranda hafi staðhæft
sjálfur. Ítrekað hafi verið leitað eftir viðbrögðum kæranda um efni umfjöllunarinnar áður en hún
birtist og þá hafi verið tryggt í einu og öllu að sjónarmið hennar birtust eftir því sem á leið.
Að endingu er ítrekað að kærðu hafi verið í góðri trú við flutning frétta af málinu og því fari
fjarri að þau hafi gerst brotleg við siðareglur. Þvert á móti hafi þau í störfum sínum uppfyllt þær
skyldur sem gera má til blaðamanna og vel rúmlega það.

Umfjöllun nefndarinnar:

Kæra málsins barst innan tveggja mánaða kærufrests og þá leitaði kærandi leiðréttingar hjá
kærðu áður en til kæru kom. Kæran er því tæk til efnismeðferðar.

I.

Í kæru er tilgreint að kærð séu RÚV, fréttastofa RÚV og fréttamennirnir Sunna Karen
Sigurþórsdóttir og Ari Páll Karlsson. Í andsvörum Ara Páls er þess getið að hann hafi engin
afskipti haft af umfjölluninni og því gerð krafa um að málinu sé vísað frá hvað hann varðar.
Siðanefnd fær ekki séð að kærði Ari Páll hafi nokkur afskipti haft af umfjölluninni, þá önnur en
þau að ljósmynd af kæranda, sem fylgdi fyrstu frétt sem birtist á vef RÚV, virðist vera
höfundarmerkt honum. Sökum þess fellst nefndin á kröfu hans um frávísun málsins hvað hann
varðar.

Löng hefð er hins vegar fyrir því að höfundur fréttar, eftir atvikum ábyrgðarmaður miðils, og
fjölmiðill geti átt samtímis aðild til varnar fyrir siðanefndinni. Hér háttar hins vegar svo til að
auki er málinu beint að fréttastofu RÚV í heild sinni. Þótt sennilegt sé að nokkur fjöldi
starfsmanna fréttastofunnar hafi komið að umfjöllun um málið, bæði við upphaf hennar og eftir
því sem henni fram fleytti, telur nefndin ekki unnt að fullyrða að svo hátti til um hana alla. Ótækt
væri að blaðamenn sem hvorki komu að gerð umfjöllunar né eru ábyrgðarmenn hennar geti talist
hafa brotið gegn siðareglum með því einu að starfa á sama vinnustað. Kröfum kæranda gegn
fréttastofu RÚV er því vísað frá.

II.

Í kæru er byggt á því að umfjöllunin hafi brotið gegn 2., 3. og 6. gr. siðareglna Blaðamannafélags
Íslands.

Fyrstnefnd 2. gr. siðareglnanna mælir fyrir um að blaðamaður skuli setja upplýsingar fram á
heiðarlegan og sanngjarnan hátt samkvæmt bestu vitund hverju sinni, meðal annars með því að
leita andstæðra sjónarmiða þegar við á. Enn fremur skal blaðamaður hvorki hagræða
staðreyndum né setja fram órökstuddar ásakanir. Í 3. gr. er kveðið á um að blaðamaður leiðrétti
rangfærslur sé þess þörf og samkvæmt 6. gr. ber blaðamanni að gera greinarmun á skoðunum og
staðreyndum, gangar úr skugga um áreiðanleika upplýsinga og gæta þess að umfjöllun sé
hlutlæg.

III.

Kærandi byggir á því að kærðu hafi hallað röngu máli í hinni kærðu umfjöllun, annars vegar með
því að segja að barnsfaðir kæranda hafi verið fimmtán ára þegar samband þeirra hófst og hins
vegar með því að fullyrða að kærandi hafi gegnt stöðu leiðbeinanda í söfnuðinum hvar þau
kynntust. Með því hafi kærðu brotið gegn 2. og 6. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands.

Kærðu benda hins vegar á að ekkert hafi komið fram sem hrakið hafi fullyrðingar í
umfjölluninni, auk þess að hún hafi verið sett fram í góðri trú um sannleiksgildi hennar enda m.a.
byggt á upplýsingum frá barnsföður kæranda.

Um bæði kæruefnin háttar svo til að takmörkuðum sýnilegum sönnunargögnum er til að dreifa
um atvik máls. Títtnefndur söfnuður var t.a.m. aldrei skráður opinberri skráningu sem slíkur og
samtímaumfjöllun um hann gefur litla vísbendingu um formfestu starfsins. Kærandi staðhæfir að
hún hafi aldrei gegnt neinskonar formlegri stöðu innan safnaðarins. Sú fullyrðing fær nokkra stoð
í umfjöllun annarra miðla um eðli og sögu hans en fyrrverandi forsprakki hreyfingarinnar hefur
m.a. látið hafa eftir sér að hann kannist ekki við að sérstakir leiðbeinendur hafi starfað á hennar
vegum. Þó má fylgja sögunni að forsprakkinn hefur enn fremur sagt að hann hafi að mestu horfið
til annarra verka um svipað leyti og atvik máls áttu sér stað. Kærðu hafa á móti sagst hafa byggt
umfjöllunina á orðum og upplifun barnsföður kæranda.

Þegar kemur að upphafi sambands og samneytis kæranda og barnsföður stangast frásögn þeirra á
um hvort það hafi hafist fyrir eða eftir sextán ára afmælisdag hans. Í kæru byggir kærandi á því
að samskipti þeirra hafi hafist fyrir sextán ára aldur barnsföðurins en ekki hafi komið til samlífis
þeirra áður en getnaður varð og því sé ljóst, miðað við hefðbundna meðalmeðgöngulengd, að
barnsfaðirinn hafi verið orðinn fullra sextán ára á þeim tíma.

Um þetta er það að segja að nefndin telur sig ekki hafa gögn eða forsendur til að leggja mat á það
hvenær samband kæranda og barnsföður hennar hófst, hvernig það þróaðist eða hve oft þau nutu
samvista hvors annars. Sömu sjónarmið gilda að breyttu breytanda um stöðu kæranda í
söfnuðinum og sögu hvors um sig innan hans.

Að mati nefndarinnar er unnt að fallast á þau sjónarmið kærðu að þau hafi verið í góðri trú um
sannleiksgildi fullyrðinga barnsföður kæranda á þeim tíma er hin kærða umfjöllun birtist. Að
sama skapi hefur kæranda ekki tekist að hrekja hana með óvéfengjanlegum hætti heldur stendur
orð hennar og upplifun gegn orðum og upplifun barnsföðurins.

Með vísan til þess hefur ekki komið fram í málinu sem gefur tilefni til að ætla að kærðu hafi
hagrætt staðreyndum eða mistekist að setja upplýsingarnar í umfjölluninni fram í samræmi við
bestu vitund hverju sinni. Að sama skapi er það mat nefndarinnar, með vísan til takmarða gagna
um starf safnaðarins, svo og vegna eðlis málsins, að kærðu hafi auðnast, eftir því sem unnt var,
að ganga úr skugga um áreiðanleika upplýsinga í hinni kærðu umfjöllun. Ekki er því fallist á að
kærðu hafi gerst brotleg hvað þennan þátt málsins varðar.

IV.

Kærandi byggir enn fremur á því að kærðu hafi ekki leitað sjónarmiða hennar, sbr. 2. gr.
siðareglna Blaðamannafélags Íslands, með því að gefa sér færi á að tjá sig um efni
umfjöllunarinnar fyrir birtingu. Það hafi leitt til þess að umfjöllunin hafi ekki verið hlutlæg og
heldur ekki byggst á áreiðanlegum upplýsingum, sbr. 6. gr. siðareglna. Kærðu byggja á móti á
því að kæranda hafi verið gefinn kostur á að tjá sig og krefjast þess að kröfum kæranda verði
hafnað.

Efni 2. gr. siðareglnanna hefur áður verið rakið en þar segir m.a. að blaðamaður skuli leita
andstæðra sjónarmiða eftir því sem við á. Ákvæðið mælir ekki fyrir um fortakslausa skyldu
blaðamanns til að leita andstæðra sjónarmiða hvert sinn heldur ræðst það af efni og eðli
umfjöllunar hverju sinni. Ljóst er að ríkari skylda hvílir á blaðamanni til slíks ef um viðkvæm
málefni eða alvarlegar ásakanir er að ræða.

Af 2. gr. siðareglnanna má að auki leiða vissan rétt viðfangsefnis umfjöllunar til að koma
sjónarmiðum sínum á framfæri. Viðkomandi hefur val um hvort hann nýtir þann rétt eður ei. Í
því felst hins vegar ekki réttur til að stöðva birtingu umfjöllunar eða fresta henni. Ákvörðun um
birtingu er blaðamanns enda ber hann ábyrgð á orðum og efni umfjöllunar, bæði eftir siðareglum
og samkvæmt landslögum. Þá liggur fyrir úrskurðarframkvæmd úr tíð eldri siðareglna um að
ekki er gerð krafa um að gera verði andstæðum sjónarmiðum skil í sömu frétt eða útsendingu,
sbr. úrskurði siðanefndar í málum nr. 8/2016-2017 og nr. 2/2021-2022.

Meðal gagna málsins eru smáskilaboð sem kærða Sunna Karen sendi kæranda og þáverandi
aðstoðarmanni hennar sama dag og fyrsta frétt var birt. Fyrstu skilaboðin voru send kæranda
skömmu fyrir hádegi og önnur kl. 13.23. Þau bera ekki með sér að þeim hafi verið svarað.

Fyrstu skilaboðin frá aðstoðarmanni eru ótímastimpluð í gögnum nefndarinnar en í þeim segir að
ráðherra, þ.e. kærandi, muni hringja innan skamms. Óljóst er hvort þau varða kæruefni málsins.
Næstu skilaboð, kl. 13.16, bera með sér að vera viðbragð við símtali en í þeim er beðist
afsökunar á því að hún sé vant við látin á fundi. Kærða Sunna Karen svarar um hæl og spyr hvort
aðstoðarmaðurinn hafi látið ráðherra vita af erindi sínu þar sem hún sé með frétt í vinnslu og
brýnt sé að ná á ráðherra. Aðstoðarmaðurinn svarar kl. 13.20 að hún sé á fundi og verði að svara
síðar. Skömmu síðar, kl. 13.58, segir aðstoðarmaðurinn að þau muni ná að heyra í kærðu
„seinnipartinn fyrir útsendingu frétta“ og að hún verði í sambandi með nánari tíma. Í andsvörum
kærðu er þess enn fremur getið að framkvæmdastjóri þingflokks kæranda hafi verið í sambandi
við kærðu Sunnu Karen vegna málsins um hádegisbil 20. mars sl. vegna málsins.

Að mati nefndarinnar var eðli og efni hinnar kærðu umfjöllunar slíkt að það gaf kærðu tilefni til
að veita kæranda kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en hin kærða umfjöllun
birtist. Enn fremur er það mat nefndarinnar að framangreind samskipti beri það með sér að kærðu
hafi fullnægt þeirri skyldu sinni og veitt kæranda kost á að tjá sig um málið. Vísast í þeim efnum
m.a. til úrskurðar siðanefndar í máli nr. 12/2021-2022.

Enn fremur liggur fyrir að kærandi veitti kærðu sjónvarpsviðtal sem birtist þegar tæp
klukkustund var liðin frá því að fyrsta frétt var birt, auk þess að sjónarmiðum kæranda voru gerð
skil að miðlum kærðu dagana sem fylgdu. Nefndin hafnar því kröfum kæranda um að með því
hafi kærðu brotið gegn 2. gr. siðareglna. Af því leiðir, svo af því sem áður hefur verið rakið í III.
kafla, að kærðu teljast ekki hafa brotið gegn 6. gr. vegna þessa.

V.

Kærandi byggir á því að kærðu hafi brotið gegn 3. gr. siðareglna með því að vanrækja að
leiðrétta þær rangfærslur sem hún telur að hafi falist í hinni kærðu umfjöllun. Á það bæði við um
rangfærslur sem birtust á miðlum kærða RÚV, svo og rangfærslur sem birtust í fréttaskeytum til
EBU. Ætlaðar rangfærslur hafa þegar verið raktar í úrskurðinum og vísast til umfjöllunar þar um.

Með vísan til þess sem áður hefur komið fram fellst nefndin á þau sjónarmið kærðu að engin
óvéfengjanleg gögn eða upplýsingar hafi komið fram sem gefa tilefni til leiðréttingar hinnar
kærðu umfjöllunar. Kærðu teljast því ekki hafa brotið gegn 3. gr. siðareglna af þeim sökum.

VI.

Að endingu telur kærandi að kærðu hafi brotið gegn 2. og 6. gr. siðareglna með því að vísa til
gildandi laga um sjálfræðisaldur og tiltekinna ákvæða hegningarlaga í hinni kærðu umfjöllun.
Ákvæðin hafi verið færð í núverandi horf eftir að atvik máls áttu sér stað og þágildandi réttur því
allt annar. Sú framsetning geti hvorki talist heiðarleg né sanngjörn og því í andstöðu við nefndar
greinar siðareglnanna.

Kærðu byggja hins vegar á því að með því hafi eingöngu verið að varpa ljósi á það hvernig atvik
máls litu út í ljósi núgildandi réttar.

Upphaf hinnar kærðu umfjöllunar var frétt á vef RÚV þann 20. mars sl. undir fyrirsögninni
„Barnamálaráðherra átti barn með unglingspilti sem hún leiðbeindi“, en síðar var fyrirsögn
hennar breytt í „Barnamálaráðherra átti barn með unglingspilti sem hún kynntist í trúarsöfnuði“.
Í þeirri frétt segir m.a. eftirfarandi:

Einstaklingar yngri en átján ára teljast börn, í skilningi laganna. Samræðisaldur er
hins vegar 15 ár, en var áður 14 ár. Þetta er þó ekki algilt því óheimilt er að hafa
samræði við manneskju undir 18 ára ef viðkomandi er til dæmis kennari hennar eða
leiðbeinandi. Þá er líka óheimilt að hafa samræði við manneskju ef hún er undir 18,
er háður viðkomandi fjárhagslega, í atvinnu sinni, eða sem skjólstæðingur í
trúnaðarsambandi. Þetta getur varðað allt að þriggja ára fangelsi.

Hin tilvitnuðu ummæli var einnig orðrétt að finna í sjónvarpsfrétt um sama efni sem birtist í
kvöldfréttum RÚV það kvöld. Þar sést kærða Sunna Karen standa við hús Alþingis og þylja þau í
myndavélina. Samtímis er efni 198. gr. hegningarlaga varpað á skjáinn.

VII.

Til að unnt sé að leggja mat á hvort kærðu teljist hafa gerst brotleg við siðareglur
Blaðamannafélags Íslands telur nefndin nauðsynlegt að fjalla um þágildandi lagaákvæði og
réttarástand.

Í kæru er m.a. vikið að því að barnsfaðir kæranda hafi verið fullra sextán ára þegar atvik urðu.
Þar með hafi hann verið sjálfráða samkvæmt rétti þess dag og því ekki barn að lögum. Af því
leiði að kærðu hafi brotið gegn 2. og 6. gr. siðareglna með framsetningu frétta af málinu.
Á þeim tíma sem atvik umfjöllunarefnisins urðu var hugtakið „barn“ ekki skilgreint berum
orðum. Samkvæmt þágildandi lögræðislögum nr. 68/1984 urðu börn sjálfráða við sextán ára
aldur en lögráða, þ.e. sjálfráða og fjárráða, við átján ára aldur. Þágildandi lög um vernd barna og
ungmenna nr. 53/1966 gerðu ráð fyrir því að einstaklingur teldist barn til sextán ára aldurs og að
einstaklingur á aldursbilinu sextán til átján ára teldist ungmenni, en nokkur munur gat verið á
réttarstöðu barns og ungmennis. Þágildandi barnalög nr. 9/1981 gerðu aftur á móti ráð fyrir því
að einstaklingur gæti talist barn til átján ára aldur en við það tímamark féll framfærsluskylda
foreldris niður. Með öðrum orðum, það fór eftir lagabálki hverju sinni hvort sextán ára
einstaklingur teldist barn að lögum eður ei.

Til þess að líta að í hinni kærðu umfjöllun er almennt vísað til barnsföður kæranda sem „pilts“
eða „unglingspilts“, að tilvitnuðum ummælum undanskildum. Að mati nefndarinnar hefur ekki
úrslitaáhrif þótt sjálfræðisaldurs þess tíma hafi ekki verið getið eða að vísað hafi verið til þess að
einstaklingur innan átján ára teljist barn en ekki ungmenni, enda laut hin kærða umfjöllun öðrum
þræði að aldursmun kæranda og barnsföður hennar og ætluðum aðstöðumun. Í samræmi við það
telur nefndin ekki unnt að úrskurða að kærðu hafi brotið gegn siðareglum með því að fullyrða í
hinni kærðu umfjöllun að einstaklingur yngri en átján ára sé barn í skilningi laga, enda gat það
oltið á lagabálki hverju sinni hvort.

VIII.

Á þeim tíma sem samband kæranda og barnsföður hennar stóð bar XXII. kafli hegningarlaga
heitið „Skírlífisbrot“ og 198. gr. þeirra hljóðaði svo:

Hver, sem kemst yfir kvenmann utan hjónabands með því að misnota freklega þá
aðstöðu sína að kvenmaðurinn er háður honum fjárhagslega eða í atvinnu sinni, þá
varðar það fangelsi allt að 1 ári, eða sé kvenmaðurinn yngri en 21 árs, allt að þremur
árum.

201. gr. þeirra, sem einnig var vísað til í hinni kærðu umfjöllun, hljóðaði svo:

Ef maður hefir samræði við stúlku, yngri en 18 ára, sem er kjördóttir hans eða
fósturdóttir, eða honum hefir verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis, þá varðar það
varðhaldi eða fangelsi allt að 4 árum.

Báðum þessum ákvæðum, svo og heiti XXII. kafla, var breytt árið 1992. Frá þeim tíma hefur
kaflinn borið heitið „Kynferðisbrot“ og tilvitnaðar greinar færðar í núverandi horf. Frumvarp til
breytingalaganna var lagt fram árið 1991 og byggði á vinnu svokallaðrar nauðgunarmálanefndar,
sem skipuð var árið 1984, en þess er vert að geta að það var fjórða atrenna að samþykkt þess, þ.e.
það var lagt fram árin 1988, 1989 og 1990 án þess að verða að lögum.

Breytingin á báðum ákvæðum fólst að mestu í því að kyn brotaþola er ekki sérstaklega tilgreint
en í 198. gr. má að auki finna viðbót, sem rekja má til breytingar þingnefndar, þess efnis að
samræði með einstaklingi sem er „skjólstæðingur hans í trúnaðarsambandi“ teljist refsivert. Þá er
þess að geta að í umfjöllun kærðu er ranghermt að slíkt brot gegn einstaklingi undir átján ára
varði allt að þriggja ára fangelsi. Hið rétta er að það varðar allt að sex ára fangelsi ef það beinist
að brotaþola sem er barn.

Nefndin fellst á þau sjónarmið kærðu að með vísun til 198. og 201. gr. hegningarlaga hafi verið
stefnt að því marki að varpa ljósi á það hvernig atvik málsins litu út gagnvart gildandi
réttarástandi. Aftur á móti telur nefndin það eitt og sér ekki nægilegt, heldur verður framsetning
umfjöllunar að rúmast innan ramma siðareglnanna. Afar einfalt hefði verið fyrir kærðu að vísa til
þess að umrædd lagaákvæði hefðu tekið breytingum frá því að atvik máls urðu, líkt og gert var
með umfjöllun um svonefndan „samræðisaldur“, en það var ekki gert. Í hinni kærðu umfjöllun
var fyrrgreindra breytinga á hegningarlögunum ekki getið en samkvæmt bókstaflegri
textaskýringu hefði samneyti kæranda og barnsföður hennar ekki getað fallið undir þágildandi
198. eða 201. gr. hegningarlaga. Enn fremur var refsirammi 198. gr., þótt rangur hafi verið,
dreginn fram og auðvelt fyrir neytanda fréttarinnar, sér í lagi þá sem á horfðu í sjónvarpi, að
draga þá ályktun að kærandi hefði gerst sekur um kynferðisbrot.

Að mati nefndarinnar telst sú framsetning, sem áður hefur verið vitnað til, ekki sanngjörn í
skilningi 2. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands. Aftur á móti er ekki unnt að finna því stað
að með þessu hafi kærðu brotið hafi verið gegn 6. gr. siðareglnanna, líkt og kærandi gerir kröfu
um, enda voru upplýsingar um efni núgildandi 198. og 201. gr. hegningarlaga, sem kærðu vísuðu
til, réttar.

IX.

Að framan hefur nefndin komist að þeirri niðurstöðu að kærðu RÚV og Sunna Karen
Sigurþórsdóttir hafi í einu tilfelli brotið gegn 2. gr. siðareglnanna. Eftir stendur því að leggja mat
á alvarleika brotsins.

Samkvæmt málsmeðferðarreglum siðanefndar ber siðanefnd að greina brot í flokka eftir eðli
þeirra. Vægasta brot teljast ámælisverð, því næst koma alvarleg brot og að endingu mjög
alvarleg.

Að mati nefndarinnar kemur ekki til álita að um mjög alvarlegt brot sé að ræða. Við mat á því
hvort um ámælisvert eða alvarlegt brot sé að ræða ber annars vegar að líta til þess að með
tilvitnuðum ummælum, sbr. VI. hluta úrskurðarins, voru atvik málsins sett í samhengi við tvær
greinar kynferðisbrotakafla hegningarlaganna, en þar fer brotaflokkur sem er með þeim
svívirðilegustu í flestra augum.

Á hinn bóginn er til þess að líta að nefndin hefur að mestu leyti hafnað kröfum kæranda og
aðeins komist að þeirri niðurstöðu að framsetning fyrirvaralausrar tilvísunar til gildandi
lagaákvæða hafi brotið gegn sanngirnisreglu 2. gr. siðareglna.

Í samræmi við það er það mat nefndarinnar að brot kærðu teljist ámælisvert, sbr. til hliðsjónar
úrskurð siðanefndar í málum nr. 2/2009-2010 og nr. 7/2024-2025.

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda á hendur Ara Páli Karlssyni og fréttastofu RÚV er vísað frá siðanefnd.
Kærðu RÚV og Sunna Karen Sigurþórsdóttir brutu gegn 2. gr. siðareglna með fyrirvaralausum
tilvísunum til núgildandi ákvæða almennra hegningarlaga. Brotið telst ámælisvert.
Öðrum kröfum kæranda er hafnað.

 

Reykjavík 23.06.2025

Pálmi Jónasson, formaður

Ásgeir Þór Árnason

Emma Björg Eyjólfsdóttir

Valgerður Anna Jóhannsdóttir

Jóhann Óli Eiðsson

PDF útgáfa