- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Verðlaun & viðurkenningar
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Kærandi: Ingimar Heiðar Georgsson
Kærði: Ágúst Borgþór Sverrisson, blaðamaður DV
Kæruefni: Þrjár fréttir á DV.is sem fjalla hæfi lögreglustjórans í Vestmannaeyjum til að rannsaka kærumál, sem beinist að starfsmönnum bæjarins, m.a. manni sem tengdur er lögreglustjóra fjölskylduböndum.
Málsmeðferð:
Kæran barst skrifstofu Blaðamannafélags Íslands 3. september 2025. Siðanefnd tók málið fyrir á fundi 4. september og samþykkti að óska eftir andsvörum kærða. Andsvör bárust nefndinni 23. september. Nefndin fjallaði aftur um málið á fundi 30. september og afgreiddi málið á fundi 7. október.
Málavextir:
Í frétt á DV 28. júní 2025 var greint frá kæru sem barst héraðssaksóknara og varðaði meðal annars vinnubrögð starfsmanna Vestmannaeyjabæjar. Héraðssaksóknari fól lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum að rannsaka málið, enda málið i umdæmi hans. Í fréttinni er fjallað um hæfi lögreglustjórans til að rannsaka málið í ljósi fjölskyldutengsla við einn hinna kærðu. Frétt DV 15. júlí fjallar um að lögreglustjórinn hafi sagt sig frá málinu vegna vanhæfis og 29. ágúst greindi DV frá því að héraðssaksóknara hefði verið falin rannsóknin.
Í kærunni til Siðanefndar kemur fram að kærandi telur að kærði hafi brotið gegn 2. grein siðareglna með því að hafa ekki samband við sig eða vinnuveitanda sinn og leita eftir andstæðum sjónarmiðum, áður en fréttin var birt. Jafnframt hafi kærði ekki gengið nægjanlega vel úr skugga um áreiðanleika upplýsinga sinna, eins og kveðið sé um í 6.grein siðareglnanna. Kæran sem fréttirnar fjölluðu um hafi beinst að starfsmönnum Vestmannaeyjabæjar, en kærandi sérstaklega tekin fyrir og nánast nafngreindur. Kærandi telur að vegið hafi verið harkalega að mannorði sínu og starfsheiðri að ósekju.
Í andsvörum kærða er tekið fram að fréttirnar hafi fyrst og fremst fjallað um hæfi lögreglustjórans í Vestmannaeyjum til að rannsaka mál þar sem skyldmenni hennar var á meðal þeirra sem kærðir höfðu verið. Það varði réttafar í landinu og því málefni sem almenningur ætti ríkan rétt á að fá upplýsingar um. Ekki hafi verið viðeigandi að spyrja kæranda um hæfi lögreglustjóra, heldur lögreglustjóra sjálfan og reynt hafi verið að fá sjónarmið hennar. Ávirðingarnar í kærunni sem sagt sé frá séu tæpast slíkar að vegi harkalega að mannorði eins eða neins. Að mati kærða var fréttaflutningurinn nauðsynlegur og eðlilegur og í kærunni til Siðanefndar sé ekki bent á neinar rangfærslur.
Umfjöllun nefndarinnar:
Kæra í málinu uppfyllir öll skilyrði málsmeðferðarreglna Siðanefndar Blaðamannafélagsins, nema þeirrar að fyrst skuli leiðréttingar hjá viðkomandi fjölmiðli. Fram kemur í kærunni að kærandi mat það svo að ekki hafi verið „unnt að leita eftir því að fréttirnar verði leiðréttar“. Siðanefnd getur samkvæmt málsmeðferðarreglum úrskurðað um undanþágu frá leiðréttingarkröfunni og var það gert og málið tekið efnislega fyrir.
Að mati Siðanefndar er ljóst að meginviðfangsefni fréttanna er hæfi lögreglustjóra til að rannsaka mál, sem varðar mann tengdum henni fjölskylduböndum. Fréttaflutningurinn snerist ekki um meint brot skyldmennis lögreglustjórans eða annarra starfsmanna Vestmannaeyjabæjar og efni kærunnar var aðeins rakið til að gera grein fyrir samhengi umfjöllunar um hæfi lögreglustjórans. Siðanefnd tekur undir með kærða að því hafi ekki verið tilefni til að leita viðbragða kæranda eða vinnuveitanda hans. Lögreglustjóra var gefin kostur á að svara spurningum blaðamanns um hæfi sitt. Í kærunni til Siðanefndar er heldur ekki bent á neinar rangfærslur í fréttunum. Í samræmi við framangreint getur nefndin ekki fallist á það með kæranda að kærði hafi gerst brotlegur við siðareglur Blaðamannafélagsins með umfjöllun sinni.
Úrskurðarorð:
Kærði, Ágúst Borgþór Sverrisson, telst ekki hafa brotið siðareglur Blaðamannafélags Íslands.
Reykjavík 07. 10 2025
Pálmi Jónasson, formaður
Ásgeir Þór Árnason
Emma Björg Eyjólfsdóttir
Valgerður Anna Jóhannsdóttir
Jóhann Óli Eiðsson