Evrópskir blaðamenn sameinast gegn aðför að fjölmiðlafrelsi

Fulltrúar að störfum á aðalþingi EFJ
Fulltrúar að störfum á aðalþingi EFJ

Samstaða gegn aðför að frjálsum fjölmiðlum og ákall eftir aðgerðum til verndar blaðamennsku var leiðarstef á aðalþingi Evrópusamtaka blaðamanna (EFJ), sem haldið var í Búdapest dagana 1.-3. júní 2025. Þingið fór fram á ögurstundu í baráttu fyrir fjölmiðlafrelsi í Ungverjalandi þar sem ungversk stjórnvöld höfðu lagt fram lagafrumvarp sem ætlað er að skerða fjölmiðlafrelsi með afgerandi hætti. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, og Freyja Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri, sóttu EFJ þingið og tóku þátt í stefnumótun evrópusamtakanna og atkvæðagreiðslum fyrir hönd félagsins.

Á þinginu var Maja Sever endurkjörin forseti EFJ til þriggja ára og ný stjórn samtakanna kjörin. Í opnunarávarpi sínu lagði Maja áherslu á að þingið væri skýr yfirlýsing um evrópska samstöðu með blaðamönnum í Ungverjalandi. Árásir á fjölmiðlafrelsi væru ekki einungis staðbundnar heldur hluti af víðtækari þróun sem ógni lýðræðislegum grunngildum í álfunni allri.

Maja varaði við því að frumvarpið, sem ætlað er að takmarka fjármögnun fjölmiðla og auka eftirlit með þeim, gæti orðið fordæmisgefandi fyrir önnur ríki. Hún hvatti til þess að spyrnt væri fast við fótum gegn þessari þróun með samstilltu átaki á vettvangi Evrópu. „Blaðamennska er ekki ógn – hún er undirstaða lýðræðis,“ sagði Sever og minnti á að sameiginlegar aðgerðir væru nauðsynlegar til að verja frelsi fjölmiðla og rétt almennings til upplýsinga.

 
Maja Sever, forseti EFJ, rétt eftir að hún var endurkjörin.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu: Blaðamennska er almannagæði

Jan Braathu, sendiherra Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í málefnum fjölmiðla, sagði í ræðu sinni á þinginu að blaðamennska sé mikilvæg almannagæði og að aukið eftirlit með blaðamönnum og hnignun í fjölbreytni og grósku sjálfstæðra fjölmiðla í Evrópu væru veruleg ógn við öryggi almennings. „Sjálfstæð, fagleg blaðamennska býr til grundvöll fyrir lýðræðislega ákvarðanatöku og ritstýrður fréttaflutningur sem byggir á staðreyndum hefur aldrei verið mikilvægari,” sagði Jan í ræðu sinni. „Blaðamennska er almannagæði. Þið [blaðamenn] eruð að veita almannaþjónustu,“ sagði hann.

Jan lagði einnig áherslu á að þótt stefnumótun á vegum stjórnvalda væri nauðsynleg sé mikilvægt að hið opinbera regluvæði ekki blaðamennsku um of. Mikilvægt sé að eftirlitið sé á höndum blaðamanna sjálfra, þeir setji sér sjálfir siðareglur og hafi jafnframt sjálfir eftirlit með því að þeim sé fylgt.

Þá sagði hann tæknirisa á borð við Google og Meta (Facebook) grafa undan fjárhagslegum stöðugleika fjölmiðla og þar með lýðræðinu. Sanngjarnt endurgjald fyrir notkun á efni frá fjölmiðlum sé nauðsynlegt

Eftir ræðu sína hélt Jan á fund með talsmönnum ungversku ríkisstjórnarinnar til að koma á framfæri gagnrýni ÖSE á aðför hennar gegn fjölmiðlafrelsi í landinu.


Jan Braathu, sendiherra Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í málefnum fjölmiðla

„Verið á vaktinni - standið vörð um fjölmiðlafrelsi“

Á þinginu var einnig fjallað um framkvæmd nýrra fjölmiðlafrelsislaga ESB, EMFA, sem miða að því að verja ritstjórnarlegt sjálfstæði, takmarka pólitísk afskipti og tryggja gagnsæi um eignarhald og fjármögnun. Þá er lögunum ætlað að styrkja stöðu fjölmiðla gagnvart tæknirisum.

Liz Corbin, fréttastjóri EBU, Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva, fór yfir það hve mikilvægt væri að ríki Evrópu spyrntu við fótum gegn atlögu stjórnmálaafla að fjölmiðlafrelsi sem ýmsar þjóðir hafa þurft að glíma við. Það væru þó ekki aðeins augljós ríki á borð við Pólland og Ungverjaland sem það ætti við um, heldur hafi það t.a.m. gerst í Finnlandi nánast á svipstundu eftir að hægri öfgaflokkurinn Sannir Finnar komst í ríkisstjórn að fjárveitingar til ríkisfjölmiðilsins YLE voru stórlega skertar án nokkurs aðlögunartímabils, eingöngu af pólitískum ástæðum. Þá hafi ástandið í Slóveníu umturnast á einungis örfáum árum. „Verið á vaktinni,“ sagði Corbin, „standið vörð um fjölmiðlafrelsi. Þótt staðan í ykkar landi sé í lagi núna getur hún breyst á svipstundu,“ sagði hún.


Liz Corbin, fréttastjóri EBU, í pallborði um EMFA

Fulltrúar ESB og evrópskra fjölmiðlastofnana svo sem EBU bentu á að þótt tilskipunin væri góð í grunninn væri framkvæmd hennar flókin, sérstaklega í löndum þar sem ríkismiðlar eru stjórnmálavæddir. Þó væri ástæða til bjartsýni. Ísland kemur til með að taka upp reglugerðina á næstu árum sem hluti af EES.

Varnarsigur unninn en þörf á áframhaldandi samstöðu

Í gær bárust þær fréttir að ungverska ríkisstjórnin hafi ákveðið að fresta frumvarpinu. Lázló M. Lengyel, formaður ungverska blaðamannafélagsins, sagði þrýsting Evrópusamtaka blaðamanna hafa skipt sköpum í því samhengi. Um varnarsigur væri að ræða en baráttan væri þó ekki unnin. Þörf væri á áframhaldandi samstöðu og aðgerðum.

Blaðamannafélag Íslands fagnar því að frumvarpi ungversku ríkisstjórnarinnar hafi verið frestað en tekur undir áhyggjur EFJ af stöðu fjölmiðlafrelsis í Evrópu. Félagið telur mikilvægt að blaðamenn og samtök þeirra sameinist í aðgerðum gegn þessari þróun og muni áfram leggja sitt af mörkum til slíks samstarfs.