Mikilvæg viðurkenning á hlutverki fjölmiðla og blaðamennsku

Logi Einarsson menningarmálaráðherra á kynningu á aðgerðaáætluninni í dag. Ljósmynd/Golli
Logi Einarsson menningarmálaráðherra á kynningu á aðgerðaáætluninni í dag. Ljósmynd/Golli

Ný aðgerðaáætlun í málefnum fjölmiðla, sem Logi Einarsson menningarmálaráðherra kynnti í dag, er mikilvæg viðurkenning á hlutverki fjölmiðla í lýðræðissamfélagi og er ætlað að skapa grundvöll fyrir öflugri viðspyrnu einkarekinna miðla í gjörbreyttu rekstrarumhverfi. Alls eru um tuttugu aðgerðir í áætluninni, þar á meðal verður 12% af auglýsingatekjum RÚV veitt beint inn í sjóð til styrktar einkareknum miðlum, sem gæti numið um 300 milljónum á ári. Auk þess munu allar tekjur umfram tiltekna hámarksheildarupphæð renna beint í þann sjóð. RÚV mun þó ekki verða af tekjum við þessa breytingu því sem mótvægisaðgerð verða lífeyrisskuldbindingar RÚV felldar niður, sem segir í aðgerðaáætluninni að sé viðlíka stór upphæð. Þá verður RÚV gert að efla samstarf við einkarekna miðla, til að mynda með greiðara aðgengi að efni úr safni RÚV, nýtingu tæknibúnaðar og auknu samstarfi við staðbundna fréttamiðla. 

Aukið fjármagn verður sett í sjóð til styrktar einkareknum miðlum. Sjóðurinn undanfarin ár hefur verið tæplega 500 milljónir en gert er ráð fyrir að hann verði 800 milljónir með framlagi vegna auglýsingatekna RÚV og mögulega meira með skattlagningu tæknirisa á borð við Facebook og Google, sem er ein aðgerðanna. Ennfremur verða samfélagsmiðlar og gervigreindarfyrirtæki krafin um sanngjarnt endurgjald fyrir afnot af efni fjölmiðla. 

Þá verða strax á næsta ári stofnaðir þrír sjóðir til viðbótar, í fyrsta lagi nýsköpunar- og þróunarsjóður fyrir fréttamiðla, í öðru lagi talsetningar- og textasjóður og loks sérstakur sjóður til úthlutunar til fjölmiðla sem veita almenna fréttaþjónustu, samkvæmt nánari skilgreiningu. 

Jafnframt mun stjórnarráðið innleiða stefnu um áskrifta- og auglýsingakaup af innlendum fjölmiðlum og ráðist verður í herferð til vitundarvakningu um mikilvægi ritstýrðra fjölmiðla.

Stór hluti þeirra aðgerða sem kynntar voru í dag eru þær sömu og settar voru fram á Lausnamóti Blaðamannafélags Íslands sem haldið var í mars. Lausnavísinn, niðurstöður Lausnamótsins, má sjá hér og skýrslu Lausnamótsins hér