Samtök blaðamanna skora á utanríkisráðherra Norðurlandanna vegna takmarkana á fjölmiðlafrelsi

EPA-EFE/HAITHAM IMAD
EPA-EFE/HAITHAM IMAD

Norræna blaðamannasambandið (NJF), samstarfsvettvangur samtaka blaðamanna á Norðurlöndunum, sendi í morgun bréf á alla utanríkisráðherra Norðurlandanna vegna takmarkana Ísraels á fjölmiðlafrelsi og banns við aðgengi blaðamanna að Gaza-ströndinni. 

Í meira en tvö ár frá upphafi átaka hefur blaðamönnum frá öðrum ríkjum verið alfarið meinaður sjálfstæður aðgangur inn á Gaza-svæðið af ísraelskum yfirvöldum. Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir frá samtökum sem berjast fyrir fjölmiðlafrelsi og alþjóðlegum fjölmiðlum um opna og óháða umfjöllun, heldur Ísrael áfram að synja fjölmiðlum um frjálsan og fylgdarlausan aðgang að svæðinu.

Skortur á óháðri umfjöllun frá Gaza auðveldar útbreiðslu rangfærslna og sviptir alþjóðasamfélagið sannreyndum, áreiðanlegum upplýsingum um mannúðaraðstæður og aðgerðir allra aðila.

Í bréfi Norræna blaðamannasambandsins er kallað eftir því að að utanríkisráðherrar Norðurlandanna taki skýra afstöðu og beiti sér fyrir því að ísraelsk stjórnvöld aflétti takmörkunum og heimili aðgengi blaðamanna að Gaza-ströndinni. Norðurlöndin séu ríki sem hafi lengi verið leiðandi í baráttu fyrir fjölmiðlafrelsi, mannréttindum og opnu lýðræði og hafi sem slík nægt siðferðislegt og diplómatískt vægi til að hafa áhrif.

Í bréfinu er kallað eftir því að utanríkisráðherrar Norðurlandanna beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi að:

  1. Styðja og vernda alþjóðlega og palestínska blaðamenn og aðra starfsmenn fjölmiðla á Gaza-svæðinu og viðurkenna mikilvægt hlutverk þeirra við að skrásetja og bera vitni um atburði á vettvangi.

  2. Beita Ísrael opinberum þrýstingi um að veita alþjóðlegum blaðamönnum öruggan, óháðan og óhindraðan aðgang að Gaza-svæðinu í samræmi við alþjóðleg mannúðar- og mannréttindalög.

  3. Starfa af festu innan Evrópusambandsins, Sameinuðu þjóðanna og annarra viðeigandi alþjóðastofnana til að efla alþjóðlega vernd fjölmiðlafrelsis og réttarins til upplýsinga á og af átakasvæðum.

  4. Krefjast óháðrar rannsóknar á öllum morðum á blaðamönnum á Gaza og að þeir sem bera ábyrgð verði leiddir fyrir dóm.

Hér má lesa bréfið í heild sinni.

Undir bréfið rituðu:

Blaðamannafélag Íslands,
Dansk Journalistforbund,
Norsk Journalistlag,
Svenska Journalistförbundet,
Journalistiliitto