- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Verðlaun & viðurkenningar
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Umfangsmiklum endurbótum á orlofshúsum Blaðamannafélags Íslands í Brekkuskógi er nú lokið eftir framkvæmdir sem staðið hafa yfir í vetur. Opnað hefur verið fyrir bókanir frá og með 1. febrúar. Í hönnunar- og framkvæmdarferlinu var lögð áhersla á hagkvæmni, hlýlegt og endingargott yfirbragð og skýra tengingu við einkenni félagsins. Markmiðið var að bjóða félagsmönnum upp á glæsileg og vel búin orlofshús þar sem öll aðstaða er til fyrirmyndar.
Blaðamannafélagið á og rekur fjögur orlofshús á þremur stöðum á landinu - á Akureyri, í Stykkishólmi og í Brekkuskógi. Hús félagsins í Brekkuskógi, Stóra-Brekka og Litla-Brekka, voru orðin verulega lúin og höfðu því verið lítið nýtt undanfarin ár. Í ljósi þess var ákveðið að ráðast í gagngerar endurbætur, bæði að innan og utan, og hófust framkvæmdir haustið 2025.

Stóra-Brekka fyrir og eftir framkvæmdir
Bæði húsin voru innréttuð á smekklegan og hlýlegan hátt, með þarfir ólíkra hópa félagsmanna að leiðarljósi. Litla-Brekka var stækkuð með viðbyggingu til að bæta við einu svefnherbergi með þremur svefnplássum og aðgengi að heitum pottum var bætt til muna. Heitu pottarnir voru endurnýjaðir og nýtt kerfi sett upp til að bæta virkni þeirra, einfalda notkun og flýta fyrir áfyllingu.
Smíðaðir voru nýir gaflar á bæði hús með stærri gluggum, því báðir gaflar voru metnir ónýtir, og einnig var bætt við glugga í borðkrók. Allar innréttingar og húsgögn voru endurnýjuð. Gólf voru einangruð, skipt um gólfefni og hitaveita lögð inn í húsin, meðal annars til að gera kleift að hafa gólfhita og draga úr rafmagnskostnaði. Við það var hægt að fjarlægja kyndikompu og stækka alrýmið. Þá voru skólplagnir endurnýjaðar og einnig var skipt um þakjárn á Litlu-Brekku.

Byggt var við Litlu-Brekku og þremur svefnplássum bætt húsið við í nýju herbergi.
Baðherbergi beggja húsa voru endurnýjuð að fullu og hurðum bætt út á nýjan pall sem tengist stóra pallinum, svo unnt sé að ganga beint úr baðherbergi í heita potta og gólfi í stofu þannig hlíft við bleytu. Veggir milli herbergja voru einangraðir, veggir og loft máluð, rafkerfi endurnýjað með nýjum rafmagnstöflum og öll lýsing tekin í gegn. Jafnframt voru flóttaleiðir tryggðar í öllum svefnrýmum í samræmi við öryggiskröfur. Þá var kyndikompa fjarlægð í báðum húsum og stofan stækkuð sem því nemur. Í Litlu-Brekku var geymsluskúrnum skipt í tvennt og í öðrum hlutanum gerð geymsla en þvottahús í hinum, en ekki var þvottavél áður í Litlu-Brekku.
Í Stóru-Brekku eru áfram níu svefnpláss, fjögur í gestahúsi og fimm í aðalrými. Eftir viðbyggingu Litlu-Brekku eru þar nú sjö svefnpláss, þar af tvö tvíbreið rúm.
Í maí stendur einnig til að mála húsin að utan og snyrta aðkomu þeirra, þannig að heildarásýnd svæðisins verði í samræmi við þá miklu endurnýjun sem þegar hefur átt sér stað.