- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Verðlaun & viðurkenningar
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Sagan hefur sýnt að sannleikurinn er oft fyrsta fórnarlambið í stríðsátökum. Mikil spenna skapast og skautun enda hagsmunir fólks og líf í húfi. Það er aldrei auðvelt að fjalla hlutlægt um átök. Daglegar sviðsmyndir af dauða og eyðileggingu hafa mikil áhrif á blaðamenn, eins og aðra. Hlutverk blaðamanna í stríðsátökum skiptir sköpum og það skiptir almenning máli að þeir séu hlutlægir í umfjöllun sinni og leiti sannleikans í óreiðunni.
Stjórnvöld í Ísrael hafa staðið í vegi fyrir aðgengi alþjóðlegra fjölmiðla að Gaza, reynt að standa í vegi fyrir sannleikanum. Það hefur því fallið í skaut palestínskra blaðamanna að flytja heimsbyggðinni fréttir af vettvangi. Þeir hafa lagt líf sitt og limi í stórhættu við að flytja fréttir af svæðinu. Þeir hafa varpað ljósi á stríðsglæpi og mannréttindabrot Ísraelsmanna, á hungursneyð og þjóðarmorð. Ísraelsk stjórnvöld hafa gert þessa blaðamenn að skotmörkum og hundruð hafa verið drepnir í viðvarandi og skipulögðum árásum. Minnst 189 blaðamenn hafa verið drepnir á Gaza frá því í október 2023 skv. samtökunum Committee to Protect Journalists (CPJ).
Blaðamenn á Íslandi hafa reitt sig á fréttaflutning palestínskra kollega þeirra frá því að stríðið hófst og lagt sig fram við að upplýsa almenning um hörmungarnar á Gaza. Þeir hafa einnig fjallað um viðbrögð og aðgerðir alþjóðasamfélagsins, um skýrslur og álit mannréttindastofnana, samtaka og sérfræðinga um brot á alþjóðalögum, hungursneyð og þjóðarmorð. Þeir hafa enn fremur fjallað um íslenskt samhengi átakanna, mótmæli og samstöðufundi hér á landi og krafið íslenska ráðamenn svara við þeim spurningum sem brenna á almenningi.
Blaðamannafélag Íslands sendi 11. ágúst sl. ákall til íslenskra stjórnvalda um að beita sér af alefli á alþjóðavettvangi fyrir því að gripið verði til tafarlausra aðgerða til að stöðva skipulögð morð á blaðamönnum og þjóðarmorð á Gaza. BÍ hvatti stjórnvöld jafnframt til að fordæma opinberlega morð á blaðamönnum og krefjast óháðrar, alþjóðlegrar rannsóknar á öllum drápum Ísraelshers á blaðamönnum.
Á morgun hefur verið blásið til fjöldafundar gegn þjóðarmorði á Austurvelli sem mikill fjöldi samtaka stendur á bak við. Slíkur fjöldafundur hefur ekki verið haldinn áður vegna átakanna og ljóst að verður fjallað um hann og eftirmála hans í íslenskum fjölmiðlum. Sú umfjöllun skiptir máli. Bein þátttaka Blaðamannafélags Íslands í viðburðinum gæti haft neikvæð áhrif á traust almennings til hlutlægni blaðamanna sem fjalla um málið og því verður nafn félagsins ekki á lista aðstandenda. Það er í samræmi við stefnu annarra blaðamannafélaga á Norðurlöndunum. Blaðamannafélag Íslands mun áfram vera afdráttarlaust í afstöðu sinni gagnvart drápum á almennum borgurum og blaðamönnum á Gaza og blaðamenn munu áfram sinna mikilvægu lýðræðislegu hlutverki sínu með því að upplýsa almenning og veita stjórnvöldum aðhald.
Stjórn Blaðamannafélags Íslands: