Ályktun stjórnar BÍ vegna niðurskurðar hjá Sýn

Mynd: Anton Brink
Mynd: Anton Brink

Blaðamannafélag Íslands lýsir þungum áhyggjum af því að stjórn Sýnar hafi fundið sig tilneydda til að skera niður í rekstri fréttastofu og hætta útsendingum sjónvarpsfrétta um helgar og á hátíðardögum og lýst því jafnframt að forsendur fyrir rekstri fréttastofu geti alfarið brostið vegna síversnandi rekstrarumhverfis einkarekinna fjölmiðla.

Þrátt fyrir nýtilkomna fjölmiðlastyrki að norrænni fyrirmynd, sem þó eru umtalsvert lægri hér en víðast annars staðar, fara rekstrarskilyrði íslenskra fréttamiðla sífellt versnandi vegna smæðar markaðarins, hruns í auglýsingatekjum og yfirburða alþjóðlegra tæknirisa. Um leið eru íslenskir miðlar bundnir af lögum og reglum um auglýsingar sem erlendir miðlar sæta ekki.

Sjálfstæðir, öflugir, fjölbreyttir fjölmiðlar eru grundvallarforsenda lýðræðisins. Blaðamannafélagið hefur ítrekað kallað eftir aðgerðum stjórnvalda og átt í stöðugu samtali við þau um mögulegar lausnir. Fjölmiðlar eru mikilvægur hluti af innviðum lýðræðisríkja og það þarf að endurspeglast í nálgun stjórnvalda.

Stjórn BÍ skorar á ríkisstjórn og Alþingi að grípa tafarlaust til aðgerða sem stuðli að því að hér fái þrifist sterkir, sjálfstæðir fréttamiðlar í þágu almennings.