- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Verðlaun & viðurkenningar
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Ársreikningur Blaðamannafélags Íslands var lagður fram til staðfestingar á aðalfundi félagsins þann 8. apríl. Allir sjóðir félagsins voru reknir með rekstrarafgangi að undanskildum orlofsheimilasjóði, (1,6 millj. kr. tap) og varasjóði (29,4 millj. kr. tap), sem lagði styrktarsjóði til 25 millj. kr. og endurgreiddi félagssjóði framlag í styrktarsjóð upp á 10 millj. kr. frá árinu 2023. Styrktarsjóður skilaði 5,9 millj. kr. afgangi (vegna framlags frá Varasjóði). Félagssjóður skilaði 7.2 millj. kr. afgangi á árinu. Menningarsjóður skilaði 4.6 millj. kr. afgangi. Háskólasjóður skilaði 4,3 m. kr. afgangi.
Rekstrarniðurstaða félagsins, sem er samtala úr öllum sjóðum, var því neikvæð um 8,6 millj. kr. á árinu 2024 og skýrist fyrst og fremst af miklum hallarekstri á styrktarsjóði (tæp 21 millj. kr. án framlags úr Varasjóði). Einnig lagðist 15,9 millj. kr. kostnaður á félagssjóð vegna uppgjörs launa vegna uppsagnar framkvæmdastjóra. Til samanburðar var rekstrarafgangur félagsins á árinu 2023 43,8 millj. kr.
Árin 2023 og 2024 voru bæði mjög óvenjuleg rekstrarár hjá félaginu. Árið 2023 einkenndist af því að vegna trúnaðarbrests milli stjórnar og þáverandi framkvæmdastjóra var ákvörðunum stjórnar ekki fylgt eftir og félagið með litla starfsemi umfram grunnþjónustu við félagsmenn. Því var rekstrarafgangur félagsins óvenjumikill árið 2023. Árið 2024 einkenndist hins vegar af miklum kostnaði vegna uppgjörs við fyrrverandi framkvæmdastjóra og tugmilljóna rekstrartapi á styrktarsjóði, sem rekinn hafði verið með tapi í samanlagt tíu ár án þess að gripið hafði verið til nauðsynlegra ráðstafana. Þá var lögfræðikostnaður óvenjulega hár á rekstrarárinu 2024 vegna kjarasamningsgerðar, sem skilaði 30 milljónum aukalega í vasa félagsmanna á ári umfram það sem samið var um á almenna markaðnum, en einnig var töluverður kostnaður vegna skoðunar á fjármálum félagsins og brýnnar endurskipulagningar á þeim samkvæmt ráðleggingum lögmanna og endurskoðenda.
Stjórn hefur auk þess tekið meðvitaða ákvörðun um að leggja áherslu á hagsmunabaráttu sem er eitt hið mikilvægasta í starfsemi félagsins. Það er ekki síst þýðingarmikið á tímum sem þessum, þar sem hart sótt er að blaðamennsku á sama tíma og erlendir tæknirisar grafa undan rekstraröryggi fjölmiðla og þar með starfsöryggi félagsmanna með því að soga til sín auglýsingafé. Talsverður tími, orka og fjármunir fara í þessa hagsmunagæslu en stjórn hefur fengið jákvæða endurgjöf frá félagsmönnum um þessa stefnubreytingu og jafnframt það hve félagið er orðið virkt og sýnilegt út á við.
Ársreikninginn er hægt að skoða á Mínum síðum og einnig skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2024-25.
Helstu stærðir úr ársreikningi 2024:
Rekstrartekjur félagsins námu 208,2 millj. kr. á árinu 2024 og hækkuðu um 12,7 millj. kr. milli ára eða um 6,5%. Eigið fé félagsins í árslok nam 739,5 millj. kr. (2023: 733,3 millj. kr.). Innheimt iðgjöld á árinu námu tæpum 170 m.kr (2023: 165 mkr) og hækkuðu því um um 2,7% milli ára, sem er í takt við breytingu á fjölda félagsmanna og launaþróun.
Aðrar tekjur félagsins hækka á milli ára, voru 38,1 m.kr árið 2024 en 29,9 m.kr. árið 2023. Skýringin er sú að stærsti hluti þessara tekna er vegna höfundarréttargjalda frá Fjölmiðlavaktinni, Fjölís og IHM en greiðslan frá Fjölís á árinu 2024 var hærri en venjulega því hún fól í sér viðbótarúthlutun vegna uppsafnaðra fjármuna.
Rekstrarkostnaður skrifstofu
Kostnaður vegna reksturs skrifstofu og launa á árinu 2024 var 89,7 m.kr samanborið við 65,3 m.kr árið 2024, sem skýrist fyrst og fremst af uppgjöri launa vegna uppsagnar framkvæmdastjóra. Stöðugildi á skrifstofu voru 3 árið 2024, jafnmörg og árið 2023.
Rekstur sjóða
Félagssjóður er rekinn með um 7.2 m.kr afgangi á árinu 2024 sbr. við 9,5 m.kr. árið 2023.
Orlofsheimilasjóður er rekinn með 1,6 m.kr tapi m.v. 6 m.kr afgang árið 2023. Mestu munar um að í samkvæmt ábendingum frá endurskoðanda er ekki heimilt að færa kostnað við rekstur orlofshúsana á Menningarsjóð, sem á helmingshlut í húsunum, því allar tekjur eru færðar á orlofshúsasjóð. Allur kostnaður vegna reksturs orlofshúsanna fellur því á orlofshúsasjóð. Tekjur vegna útleigu hafa dregist lítið eitt saman, voru 6,4 m.kr árið 2024 sbr. 5,8 m.kr. árið 2023.
Menningarsjóður skilar afgangi upp á um 4.6 m.kr m.v. 6,4 m.kr. árið 2023.
Háskólasjóður skilar 4,3 m. kr. afgangi en 5,9 m.kr. árið 2023.
Rekstur Styrktarsjóðs var neikvæður líkt og öll síðustu 10 ár, að undanskildu árinu 2021 en skilaði afgangi vegna 25 millj. kr. framlags úr Varasjóði á árinu 2024. Í kjölfar úttektar á rekstrarhæfi sjóðsins og stöðu var úthlutunarreglum breytt, til þess að koma í veg fyrir að sjóðurinn færi í þrot á árinu. Styrkir úr styrktarsjóði á árinu voru 53,5 millj. kr. samanborið við 44 millj. kr. árið á undan þrátt fyrir breytingar á úthlutunarreglum en áhrif þeirra koma ekki að fullu fram fyrr en á rekstrarárinu 2025. Tap sjóðsins hefði orðið mun meira ef ekki hefði verið gripið til aðgerða.
Í Varasjóði voru 91,9 m.kr. eign árið 2024 sbr. við 121,0 m.kr. eign árið á undan en sjóðurinn hefur þann tilgang að mæta launatapi félagsmanna vegna verkfalla en einnig til annarra verkefna eða ófyrirséðra útgjalda félagsins. Eins og áður segir styrkti Varasjóður Styrktarsjóð um 25 millj. kr. á árinu svo hann færi ekki í þrot.