- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
„Alls staðar þar sem að vegið er að fjölmiðlum er lýðræði skert og lífsgæði fara dvínandi í þeim löndum. Þannig að fjölmiðlafrelsi og blaðamennska, þetta eru grundvallarþættir í okkar lýðræðisríki,” segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, ræddi við hann í kjölfar þess að honum var afhent áskorun stjórnar félagsins til eflingar blaðamennsku og fjölmiðla.
Aðspurður hvernig Sjálfstæðisflokkurinn ætli að efla blaðamennsku og styrkja fjölmiðla á Íslandi segir Bjarni mikilvægt að tryggja að starfsumhverfi frjálsra fjölmiðla sé sanngjarnt og eðlilegt. „Að við til að mynda göngum ekki svo langt í stuðningi við Ríkisútvarpið að það varpi skugga yfir allan fjölmiðlamarkaðinn. Að það verði ekkert eftir til þess að safna í auglýsingafé eða áskriftir eða annað vegna þess að svo mikill sé styrkur Ríkisútvarpsins. Þannig að mér finnst vanta betra jafnvægi á milli starfsemi Ríkisútvarpsins og umsvifa Ríkisútvarpsins og annarra þeirra sem starfa á markaðnum.” Hann segir ríkisstyrki til einkarekinna fjölmiðla hafa verið ákveðna tilraunastarfsemi, m.a. út af COVID, „Á undanförnum árum höfum við verið með svona ákveðna tilraunastarfsemi, við höfum verið með talsvert mikla stuðningsstyrki við einkarekna fjölmiðla, meðal annars út af Covid og hamförum sem við höfum gengið í gegnum í tengslum við það og stöndum núna á ákveðnum tímamótum varðandi það að ákveða til lengri tíma hvernig við ætlum að gera þetta. Ég tel að það verði ekki hægt að bæta rekstrarumhverfi frjálsu fjölmiðlanna án þess að spyrja spurninga varðandi umfang, umsvif Ríkisútvarpsins, þar með talið á auglýsingamarkaði,” segir Bjarni.
„Sumir segja að auglýsingar muni, ef við þrengjum að Ríkisútvarpinu bara fara til Facebook og Youtube og annarra slíkra aðila sem eru reyna að selja auglýsingar á Íslandi. Það kann að vera. En er ekki prinsippið samt sem áður gríðarlega mikilvægt? Að innlendu frjálsu fjölmiðlarnir einkareknu hafi að minnsta kosti jafnt tækifæri og þessir aðilar til þess að sækja það auglýsingafé?“ spyr Bjarni. Aðspurður hvort þurfi að skattleggja erlendu tæknirisana segist hann telja þá eiga að skrá sig hér á landi og skila virðisaukaskatti af þjónustu sem þeir eru að selja hér.
Bjarni segir mikilvægt að tekið sé á þessum málum strax í málefnasamning nýrrar ríkisstjórnar. „Málið er ekkert að fara frá okkur og ríkisstjórn sem að hugar ekki að þessu í upphafi kjörtímabilsins hún mun þurfa að fást við það þegar að komið er inn í kjörtímabilið.”
Hér má horfa á viðtalið í heild sinni
Hér má lesa áskorun Blaðamannafélags Íslands til stjórnmálaflokka 2024