Félögum í BÍ boðið í útgáfuhóf ljósmyndabókar GVA

Gunnar V. Andrésson (GVA) ljósmyndari býður félögum í Blaðamannafélagi Íslands í samkvæmi í tilefni af útgáfu bókarinnar Spegill þjóðar - Fréttamyndir í fimmtíu ár og sagan á bak við þær, sem Sigmundur Ernir Rúnarsson skráði. Verkefnið hlaut styrk frá Menningarsjóði Blaðamannafélags Íslands.

Útgáfuhófið verður haldið í Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Grófinni, Tryggvagötu 15, 6 hæð, fimmtudaginn 23. október kl. 17. 

Um Spegil þjóðar segir í upplýsingum frá útgefanda, Vöku-Helgafelli:

Gunnar V. Andrésson er einn áhrifamesti fréttaljósmyndari okkar í hálfa öld og margar mynda hans eru táknmyndir í þjóðarsögunni. Gunnar velur hér á annað hundrað minnisstæðustu mynda sinna og Sigmundur Ernir Rúnarsson skráir söguna á bakvið hverja þeirra – úr verður einstakt og áhrifamikið sjónarspil.