- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Verðlaun & viðurkenningar
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Freyr Gígja Gunnarsson hlaut blaðamannaverðlaun ársins 2024, Eva Björk Benediktsdóttir, RÚV, var verðlaunuð fyrir viðtal ársins, Sunna Ósk Logadóttir og Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson, Heimildinni, hlutu viðurkenningu fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins og Berghildur Erla Bernharðsdóttir hlaut verðlaun fyrir umfjöllun ársins. Verðlaunin voru afhent í Sykursal Grósku í dag að viðstöddu margmenni.
Hér er að finna rökstuðning dómnefndar:
Rannsóknarblaðamennska ársins 2024
Sunna Ósk Logadóttir og Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson, Heimildinni. Fyrir fréttaskýringar um Running Tide. Áhrifamikil umfjöllun sem afhjúpaði skýjaborgir fyrirtækisins Running Tide sem seldi vanhugsaðar lausnir á loftslagsvandanum. Rætt var við fjölda vísindamanna sem gagnrýndu vinnubrögð fyrirtækisins og þá var fjöldamargra gagna aflað við rannsóknina sem vörpuðu ljósi á hvernig bæði stjórnvöld og eftirlitsstofnanir brugðust hlutverki sínu varðandi starfsemi Running Tide. Fyrirtækið hætti starfsemi sinni bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum um það leyti sem umfjöllun Heimildarinnar birtist.
Einnig tilnefnd:
Urður Örlygsdóttir og Arnar Þórisson, RÚV. Fyrir fyrir umfjöllun um mansal á matsölustöðum Quang Le.
Jóhann Bjarni Kolbeinsson og Árni Þór Theodórsson, RÚV. Fyrir umfjöllun um unga, fatlaða einstaklinga sem vistaðir eru á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða því önnur úrræði skortir í heilbrigðiskerfinu.
Viðtal ársins 2024
Eva Björk Benediktsdóttir, RÚV. Fyrir viðtal við Hafdísi Báru Óskarsdóttur sem varð fyrir lífshættulegri líkamsárás af hendi barnsföður síns og fyrrverandi sambýlismanns. Viðmælandinn lýsir því hvernig lögregla brást henni í aðdraganda árásarinnar, en maðurinn hefur nú verið ákærður fyrir tilraun til manndráps og fleiri brot. Viðmælandi dregur ekkert undan svo úr verður sláandi frásögn, auk þess sem blaðamaður nýtir sjónvarpsmiðilinn á áhrifaríkan hátt.
Einnig tilnefnd:
Erla Hlynsdóttir, Heimildinni. Fyrir viðtal við Agnesi M. Sigurðardóttur, fyrrverandi biskup Íslands.
Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Fyrir viðtal við Davíð Viðarsson. Án óþarfa málalenginga er sögu hins upprunalega Davíðs Viðarssonar gerð skil.
Umfjöllun ársins 2024
Berghildur Erla Bernharðsdóttir, fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar. Fyrir sjónvarpsþáttaröðina Vistheimilin. Rannsóknarvinna blaðamannsins skín í gegn í ítarlegum og vönduðum þáttum þar sem viðmælendur stíga fram og ræða þungbæra lífsreynslu, margir hverjir í fyrsta sinn. Fjölmargar aðrar heimildir eru dregnar fram og settar í samhengi. Umfjöllunarefni sem erfitt er að gera myndræn skil en það er leyst á bæði hugmyndaríkan og áhrifamikinn hátt.
Einnig tilnefnd:
Guðrún Hulda Pálsdóttir, Bændablaðinu. Fyrir umfjöllun um einokun á íslenskum markaði með koltvísýring sem er nauðsynlegur í ylrækt.
Pétur Magnússon, RÚV. Fyrir útvarpsþáttaröðina Skaða.
Blaðamannaverðlaun ársins 2024
Freyr Gígja Gunnarsson, RÚV. Fyrir fréttaskýringar í Speglinum. Freyr hefur sýnt einstaka þrautseigju í að krefja stjórnvöld um svör í ýmsum stórum fréttamálum og ítrekað nýtt upplýsingarétt almennings til að draga nýjar upplýsingar fram í dagsljósið og setja þær í samhengi. Kjarnaðist þetta einna helst í umfjöllun Freys um samskipti ráðamanna í aðdraganda þess að brottflutningi Yazan Tamimi var slegið á frest, en málið var síðasti naglinn í líkkistu ríkisstjórnar Framsóknar, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna.
Einnig tilnefnd:
Auður Jónsdóttir, Heimildinni. Fyrir fjölbreytt viðtöl og umfjallanir.
Hólmfríður María Ragnhildardóttir, Morgunblaðið og mbl.is. Fyrir umfjöllun um skólakerfi í vanda.