Kynna lausnir við áskorunum fjölmiðla

Koma ætti á fót samkeppnissjóði fyrir samfélagslega mikilvæga blaðamennsku, takmarka auglýsingasölu RÚV eða láta hluta tekna renna til stuðnings einkarekinna miðla og skilgreina styrki til fjölmiðla sem varnarframlög Íslands til NATO. Þetta er meðal þeirra lausna sem þátttakendur á Lausnamóti um framtíð fjölmiðla og blaðamennsku sem haldið var á vegum Blaðamannafélags Íslands leggja til.

Staða fjölmiðla á Íslandi er ekki einkamál fjölmiðlanna sjálfra heldur varðar samfélagið allt. Blaðamannafélag Íslands boðaði til Lausnamóts þann 12. mars síðastliðinn um framtíð fjölmiðla og blaðamennsku á Íslandi til þess að stofna til breiðs samtals hagaðila og leita lausna við stærstu áskorunum sem blasa við. Niðurstöðurnar eru grunnur að lausnavísi sem mun nýtast sem hagnýtt tæki til að móta framtíð íslenskra fjölmiðla og blaðamennsku.

Verkefnið hlaut tveggja milljón króna styrk úr Hvata - styrktarsjóð á málefnasviði menningar- og viðskiptaráðherra í desember 2024.

Viðburðurinn var vettvangur öflugrar hugmyndavinnu blaðamanna, stjórnenda fjölmiðla, stjórnmálafólks, embættismanna, forsvarsfólks hagsmunasamtaka, ýmissa sérfræðinga til að mynda á sviði markaðsmála, fjölmiðla og nýsköpunar, fulltrúa atvinnulífsins og fræðasamfélagsins svo eitthvað sé nefnt. Unnið var í sjö hópum, þar sem hver hópur tók fyrir ákveðið viðfangsefni tengt sameiginlegum hagsmunum fjölmiðla, blaðamanna og almennings:

  • Rekstrargrundvöllur íslenskra fjölmiðla
  • Aðhalds- og lýðræðishlutverk fjölmiðla
  • Aðgengi að upplýsingum og hlutverk fjölmiðla á áfallatímum
  • Framþróun og nýsköpun á fjölmiðlamarkaði
  • Samfélagslega mikilvæg blaðamennska
  • Aðgerðir hins opinbera í þágu fjölmiðla og blaðamennska
  • Staða og tækifæri fréttamiðla í heimi samfélagsmiðla, hlaðvarpa og áhrifavalda

Blaðamannafélag Íslands hefur gefið út skýrslu með niðurstöðum mótsins og svokallaðan Lausnavísi með þeim aðgerðum sem nutu forgangs hjá þátttakendum. Skýrslan var kynnt fyrir félagsfólki BÍ á félagsfundi þriðjudaginn 28. maí.

Lausnavísir 2025

Skýrsla um Lausnamót