- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Verðlaun & viðurkenningar
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Samstarf og samvinna eru lykilþættir í baráttu fyrir upplýsingaheilindum, sem eru grundvöllur heilbrigðra lýðræðissamfélaga. Fagleg blaðamennska og frjálsir, öflugir fjölmiðlar eru grunnurinn að því að almenningur hafi aðgang að sönnum og réttum upplýsingum sem er forsenda fyrir lýðræði. Þetta kom fram á alþjóðlegri ráðstefnu um upplýsingaheilindi sem fulltrúar BÍ og fjögurra stærstu fjölmiðla landsins sóttu í Kaupmannahöfn í síðustu viku. Ráðstefnan var á vegum danska varnarmálaráðuneytisins í samvinnu við the Digital Democracy Initiative sem er á vegum framkvæmdastjórnar ESB, dönsku og norsku ríkisstjórnarinnar og IMS (International Media Support).
Stjórn BÍ tók ákvörðun um að bjóða stjórnendum á fréttastofum fjögurra stærstu fjölmiðla landsins á ráðstefnuna í því skyni að leggja grunn að starfi sérstaks aðgerðahóps BÍ um upplýsingaheilindi. Verkefni hópsins er m.a. að meta getu íslenskra fréttamiðla til að berjast gegn upplýsingaógnum og móta aðgerðir til að efla viðnámsþol íslenskra fjölmiðla, blaðamanna og þar af leiðandi samfélagsins alls, gegn misbeitingu upplýsinga. Í hópnum sem sóttu ráðstefnuna voru: Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, Freyja Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri BÍ, Aðalsteinn Kjartansson, aðstoðarritstjóri Heimildarinnar, Kolbeinn Tumi Daðason, fréttastjóri fréttastofu Sýnar, Skúli Halldórsson, aðstoðarfréttastjóri mbl.is og Valgeir Örn Ragnarsson, varafréttastjóri RÚV.
Ein stærsta ógn við lýðræðið á okkar tímum er kerfisbundin misbeiting hagsmunaafla á upplýsingum. Vestræn lýðræðisríki hafa í auknum mæli þurft að glíma við tilraunir utanaðkomandi afla til að grafa undan lýðræðinu með dreifingu skoðanamótandi falsupplýsinga. Misbeiting upplýsinga er ein hinna svokölluðu fjölþáttaógna - hybrid threats - sem þjóðir leggja æ meiri áherslu á að verjast og eru orðin viðurkenndur mikilvægur þáttur í öryggis- og varnarstefnu ríkja. Blaðamannafélag Íslands hefur á undanförnum mánuðum tekið æ virkari þátt í samtali um þessar ógnir. Fulltrúar félagsins hafa tekið þátt í vinnu með almannavörnum, Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu, Fjölmiðlanefnd og fræðasamfélaginu um viðnám samfélaga gagnvart upplýsingaógnum. Þrátt fyrir þessa umræðu er enn skortur á þekkingu og verkfærum til að þróa lýðræðislegar varnir innan fjölmiðlaumhverfisins.
Fjallað verður nánað um ráðstefnuna í næsta hefti Blaðamannsins sem kemur út í desember.
