Samfélagssátt um að efla blaðamennsku

Sigríður Dögg Auðunsdóttir á Lausnamóti BÍ 12. mars. Mynd: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Sigríður Dögg Auðunsdóttir á Lausnamóti BÍ 12. mars. Mynd: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Erindi formanns Blaðamannafélags Íslands á Lausnamóti um framtíð blaðamennsku

Komið þið sæl, ágætu þátttakendur, og velkomin á lausnamót Blaðamannafélags Íslands um framtíð blaðamennsku og fjölmiðla. Ég vil byrja á því að þakka ykkur fyrir að gefa af tíma ykkar í þetta mikilvæga samfélagslega verkefni. Hvert eitt og einasta ykkar er handvalið hér inn í þennan hóp þar sem við teljum ykkar reynslu, þekkingu og framlag mikilvægt þegar við ræðum þær áskoranir sem blasa við blaðamennsku og fjölmiðlum nú um stundir - og finnum vonandi lausnir á þeim.

Þar sem fyrsta verkefnið í borðavinnunni er að greina áskoranir ætla ég ekki að dvelja við þær hér í þessu innleggi. Þið þekkið öll stöðuna og hver þróunin hefur verið. Ég vil forðast að leggja ykkur orð í munn - það er mun dýrmætara fyrir samfélagið, fyrir stéttina og fyrir félagið - að fá ykkar sýn.

Ég ætla hins vegar að leyfa mér að tala örstutt um hvers vegna við erum komin saman hér í dag. Hvers vegna við þurfum að ræða aðgerðir til varnar blaðamennsku - til eflingar fjölmiðlum. Og í raun hvers vegna við þurfum yfir höfuð blaðamennsku eða fjölmiðla.

Við þekkjum öll frasan um mikilvægi blaðamennsku í lýðræðissamfélagi. Blaðamennska er hornsteinn lýðræðis - fjórða lýðræðisstoðin. Blaðamennska veitir almenningi nauðsynlegar upplýsingar svo hann geti tekið upplýstar, lýðræðislegar ákvarðanir. Blaðamennska veitir valdhöfum aðhald, setur mál í samhengi og lýsir samfélaginu. Fjölmiðlar - og þá erum við sérstaklega að tala um fréttamiðla í þessu samhengi - þjónusta almenning með því að veita þetta aðhald með vandaðri blaðamennsku.

Við kunnum öll að segja frá þessu. En hvað þýðir þetta í raun og veru - og hvað þýðir þetta í samfélagi nútímans, þar sem upplýsingamiðlun fer fram í gjörbreyttu umhverfi samfélagsmiðla, falsfréttamiðla og upplýsingaóreiðu?

Er kannski ekki lengur þörf fyrir fjölmiðla? Til hvers þarf almenningur upplýsingar í gegnum fréttamiðla þegar valdhafar geta miðlað þeim milliliðalaust til fólksins í gegnum samfélagsmiðla?

Þegar rætt er um mikilvægi blaðamennsku í samfélaginu verð ég oft vör við mjög alvarlegar ranghugmyndir um fjölmiðla. Ein þeirra kristallast í setningu sem þáverandi þingmaður lét út úr sér í viðtali fyrir ekki svo ýkja löngu: „Við erum öll blaðamenn“ - um leið og hann benti á að við værum nú öll með síma á lofti öllum stundum og gætum miðlað upplýsingum í gegnum samfélagsmiðla. Þessi setning endurspeglar fullkomið skilningsleysi á því sem svo mikilvægt er að halda á lofti í umhverfi upplýsingaóreiðu og falsfrétta: Hvað er fjölmiðill og hvað ekki - hvað er blaðamennska og hvað ekki?

Óljós skil milli hagsmuna-miðlara og blaðamanna

Flestir geta miðlað upplýsingum og það er ekkert nýtt. Sá sem stendur á torgi og predikar er ekki blaðamaður á eins manns fréttamiðli, jafnvel þótt þúsundir séu að hlusta. Hann er samt að miðla upplýsingum. Þau sem taka við upplýsingunum frá prédikaranum og meðhöndla þær samkvæmt viðurkenndum vinnubrögðum blaðamennskunnar: sannreyna þær, setja þær í samhengi, leita viðbragða og skýra - áður en þau birta upplýsingarnar fyrir almenningi - þau eru blaðamenn. Og miðillinn sem birtir fréttina er fréttamiðill. Jafnvel þótt miklu færri lesi fréttina en hlustuðu á prédikarann á torginu. Það er ekki stærð áheyrendahópsins, lesendahópsins, fjöldi áhorfenda eða fylgjenda sem ræður því hvort upplýsingamiðlun sé blaðamennska. Það eru vinnubrögðin, fréttamatið, siðareglurnar, sannleikskrafan og hlutlægnin.

Samfélagsmiðlar og blogg eru ekki fréttamiðlar - heldur stafræn torg með milljónum prédikara. Sem bera allt aðra ábyrgð á þeim upplýsingum sem þar eru settar fram heldur en blaðamenn og fréttamiðlar. Prédikararnir starfa þar að auki oftast ekki í þágu almennings - heldur mun frekar í eigin þágu eða þágu hagsmunaafla.

Og þegar skilin milli hagsmuna-miðlaranna, prédikaranna, annars vegar - og blaðamanna hins vegar eru orðin jafn óljós og nú virðist vera - þá þarf samfélagið að bregðast við. Við þurfum að grípa til aðgerða til varnar blaðamennsku - til varnar fréttamiðlum - til varnar lýðræðislega mikilvægri upplýsingamiðlun. Sem við erum öll sammála um að sé svo nauðsynleg.

Níutíu prósent telja íslenska blaðamennsku og fréttamiðla skipta máli

Í könnun sem Gallup vann fyrir Blaðamannafélagið í fyrra um viðhorf almennings til blaðamennsku og fréttamiðla kom fram að níutíu prósent Íslendinga telja að íslensk blaðamennska og íslenskir fréttamiðlar skipti miklu máli fyrir íslenskt samfélag.

Íslenskur almenningur er ekki einn þessarar skoðunar. Í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga tók Blaðamannafélagið viðtal við formenn stjórnmálaflokkanna sem voru á einu máli um það að blaðamennska sé ekki aðeins samfélagslega mikilvæg heldur lífsnauðsynleg fyrir lýðræðið. Formennirnir sögðu að fjölmiðlar séu mikilvægari en nokkru sinni fyrr og þurfi að hafa bolmagn til að geta fjallað með óháðum hætti um stór og mikilvæg málefni og veitt aðhald. Alls staðar þar sem vegið er að fjölmiðlum er lýðræði skert og lífsgæði dvína, bentu þeir jafnframt á.

Við stöndum nefnilega einmitt frammi fyrir því - ekki bara hér á landi heldur heimurinn allur - að alvarlega er vegið að fjölmiðlum og blaðamennsku með grímulausum árásum og undirróðursstarfsemi valdamanna víða um heim. Um leið hefur rekstrargrundvelli verið kippt undan fjölmiðlum með því að tæknirisar á borð við Google og Facebook, sem ókleift er að keppa við, soga til sín allt auglýsingafjármagn.

Blaðamennska og fréttamiðlar hafa aldrei verið mikilvægari sögðu formennirnir líka - sem er nánast samhljóma herferð sem þið munið eflaust eftir sem Blaðamannafélagið réðst í fyrir ári með það að markmiði að efla vitund meðal almennings um mikilvægi blaðamennsku - herferð sem er enn í gangi og þessi viðburður er hluti af.

Við erum hér því það skiptir okkur máli að hér fái starfað öflugir, frjálsir fréttamiðlar sem halda úti vandaðri blaðamennsku sem veitir valdhöfum aðhald og almenningi nauðsynlegar upplýsingar.

Blaðamennska ekki eins og hver önnur vara

Við erum hér því sú tegund blaðamennsku sem við viljum að hér sé stunduð er mannfrek - hún kostar tíma og peninga - reynslu, úthald, kjark og þor. Fjölmiðlarekstur er ekki hefðbundinn fyrirtækjarekstur. Blaðamennska er ekki eins og hver önnur vara - hún er nauðsynleg lýðræðisstoð. Fjölmiðlar eru ósjálfbærir í rekstri, að minnsta kosti tímabundið - og við þurfum samfélagssátt um það hvernig við getum tryggt framtíð þeirra.

Hinar Norðurlandaþjóðirnar eru okkur ljósárum fremri í viðhorfum til blaðamennsku og fjölmiðla. Ekki aðeins ríkir víðast samfélagsleg sátt um mikilvægi þeirra heldur er beinn og óbeinn stuðningur við þá úr ríkissjóði mun meiri en hér þekkist og um það ríkir þverpólitísk sátt. Beinir styrkir til einkarekinna miðla eru skilgreindir sem nauðsynleg markaðsleiðrétting vegna smæðar tungumálsins og fjölmiðlamarkaðarins. Þetta eru samt sem áður þjóðir með á bilinu fimm til tíu milljónir íbúa. Smæð hvað?!

Þetta eru líka þjóðirnar þar sem fjölmiðlafrelsi mælist mest í heiminum samkvæmt árlegri skýrslu samtakanna Blaðamenn án landamæra. Því miður fylgjum við ekki Norðurlöndunum á þeim lista heldur stöndum þeim langt að baki - og úr því þarf að bæta.

Samfélagssáttin sem við köllum eftir til eflingar blaðamennsku getur þó ekki byggst á því einu að ríkissjóður setji aukið fjármagn í samfélagslega mikilvæga fréttamiðla með beinum styrkjum eða skattaívilnunum. Atvinnulífið þarf að taka samfélagslega ábyrgð og styrkja við rekstur fjölmiðla með auglýsingakaupum, áskriftakaupum eða styrkjum til sjóða til eflingar blaðamennsku. Hið opinbera þarf að setja sér reglur um að kaupa auglýsingar af innlendum miðlum í stað þess að styrkja tæknirisa í síauknum mæli. Almenningur þarf líka að sýna stuðning í verki með því að kaupa áskriftir að fréttamiðlum og annarri samfélagslega mikilvægri blaðamennsku.

En nú verð ég að stoppa mig - því þótt mig langi óstjórnlega að deila með ykkur öllum þeim tillögum sem Blaðamannafélagið hefur lagt fram til eflingar blaðamennsku og fjölmiðlum þá langar mig miklu frekar að heyra hvaða tillögur að lausnum þið hafið fram að færa eftir vinnu dagsins.

Mig langar enn og aftur að þakka ykkur fyrir þátttökuna. Mig langar líka að þakka menningarmálaráðuneytinu fyrir stuðninginn - við sóttum um og fengum styrk úr Hvata-sjóði til að geta haldið þetta lausnamót með jafn veglegum hætti og raun ber vitni.

Mig langar líka að þakka Freyju Steingrímsdóttur framkvæmdastjóra Blaðamannafélagsins sem á hugmyndina að þessum viðburði og bar hitann og þungann af allri skipulagningu hans.

Ég vil að lokum bjóða ykkur öllum að vera viðstödd afhendingu Blaðamannaverðlaunanna sem fram fer að loknu þessu lausnamóti - og ég vona sannarlega að þið sjáið ykkur flest fært að þiggja það boð.

Ég hlakka til að sjá afrakstur ykkar vinnu hér í dag og heiti ykkur því að ég mun leggja mig alla fram við að fylgja eftir ykkar hugmyndum að lausnum við þeim áskorunum sem við okkur blasa. Gangi ykkur vel og góða skemmtun.