- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Verðlaun & viðurkenningar
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, sagði í erindi sínu á Lagadeginum 2025 að þótt það væri ekkert nýtt að valdafólk gagnrýni blaðamenn - enda sé mikilvægt að blaðamönnum sé veitt aðhald - sé gagnrýnin orðin rætnari en áður og sett fram með þeim hætti að hún skaðar trúverðugleika blaðamanna og fjölmiðla. Slíkt geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fjölmiðlafrelsið og þar með lýðræðið.
Tilefni erindisins var málstofa um fjölmiðla á tímum upplýsingaóreiðu og fjölþáttaógna. Aðrir þátttakendur í málstofunni voru Logi Einarsson, Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, Geir Gestsson, hæstaréttarlögmaður og Halldóra Þorsteinsdóttir, héraðsdómari.
Erindið má lesa í heild sinni hér að neðan.
--
Komið þið sæl.
Ein stærsta ógn við lýðræðið á okkar tímum er kerfisbundin misbeiting hagsmunaafla á upplýsingum. Lýðræðisríki hafa í auknum mæli þurft að glíma við tilraunir utanaðkomandi afla til að grafa undan lýðræðinu með dreifingu falsupplýsinga sem ætlað er að hafa áhrif á skoðanir fólks. Misbeiting upplýsinga er ein hinna svokölluðu fjölþáttaógna - hybrid threats - sem þjóðir leggja æ meiri áherslu á að verjast. Þar gegna fjölmiðlar lykilhlutverki - sem samfélagið treystir.
Hinar Norðurlandaþjóðirnar raða sér efst á lista yfir fjölmiðlafrelsi þjóða. Þar ríkir þverpólitísk og samfélagsleg sátt um mikilvægi fjölmiðla og stjórnvöld, fyrirtæki og almenningur gera það að verkum að fjölbreytt flóra fjölmiðla geti þrifist.
Hér er hins vegar annað uppi á teningnum - enda er Ísland í 17. sæti á fyrrnefndum lista. Ekki einungis hafa stjórnmálaöfl stundað valdbeitingu gegn blaðamönnum og fjölmiðlum, t.a.m. með kerfisbundinni sniðgöngu og ómálefnalegri opinberri gagnrýni - heldur hafa stórfyrirtæki og eigendur þeirra í auknum mæli misbeitt þeim áhrifum sem þeir hafa í krafti auðs í samfélaginu.
Sótt er að blaðamennsku og fjölmiðlum um allan heim. Það er ekki að ástæðulausu að Evrópuráðið hefur ráðist í sérstakt átak til verndar blaðamönnum og varar við auknum hótunum í garð blaðamanna,áreiti og tilefnislausum málsóknum, jafnvel í þroskuðum lýðræðisríkjum.
Það er ekkert nýtt að valdafólk gagnrýni blaðamenn - enda er mikilvægt að blaðamönnum sé veitt aðhald. Gagnrýnin er hins vegar rætnari og ómálefnalegri en áður og sett fram með þeim hætti að hún skaðar trúverðugleika blaðamanna og fjölmiðla, sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir fjölmiðlafrelsið og þar með lýðræðið.
Orðræða valdhafa gegn fjölmiðlum hefur smitast um allt samfélagið. Hvaða áhrif haldið þið að það hafi þegar formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins, sem þá var ráðherra í ríkisstjórn, segir að blaðamenn séu bara ekkert of góðir til þess að mæta í yfirheyrslu hjá lögreglu rétt eins og almennir borgarar? Þáverandi þingmaður kallaði blaðamenn viðkvæma, sjálfhverfa aumingja þegar þeir risu upp til varnar tjáningarfrelsinu.
Þessi viðhorf varpa ljósi á þann vanda sem íslenskt samfélag glímir við - sem er einhvers konar grundvallarskilningsleysi á hlutverki og mikilvægi blaðamennsku og fjölmiðla í lýðræðissamfélagi. Ég get nefnt nokkur dæmi.
Blaðamannafélagið þurfti að stefna ríkinu til þess að tryggja aðgengi blaðamanna að vettvangi eldsumbrotanna við Grindavík.
Kollegar okkar á Norðurlöndunum horfa á okkur skilningsvana þegar við spyrjum hvers vegna það þurfi ekki sérstakt ákvæði í almannavarnalögum þeirra landa til að tryggja aðgengi blaðamanna að vettvangi. Blaðamenn þar fá að sjálfsögðu óheftan aðgang.
Og svo það, að lögregla skuli hafa kallað blaðamenn til yfirheyrslu fyrir að vinna vinnuna sína - og að þeir skuli hafa haft réttarstöðu sakbornings svo árum skiptir er háalvarlegt inngrip í störf blaðamanna og þar með tjáningarfrelsið og í algjöru ósamræmi við þá vernd sem þeir njóta samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.
Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu leggur áherslu á að blaðamenn sæti ekki rannsókn vegna gruns um refsiverða háttsemi vegna starfa sinna - sem er það sem hér gerðist. Þá hefur nefnd til verndar blaðamönnum, CPJ, bent á að blaðamenn og fjölmiðlar eru í auknum mæli fórnarlömb skipulagðra ófrægingaherferða sem miðast ósjaldan við að birta netfærslur sem dreifa röngum upplýsingum um blaðamenn eða verk þeirra. Markmiðið er að grafa undan trúverðugleika blaðamanna og fjölmiðla og veikja þannig traust almennings á þeim.
En hvers vegna geta blaðamenn ekki mætt og svarað spurningum lögreglu eins og aðrir borgarar? spurði fyrrnefndur ráðherra.
Enginn hefur haldið því fram að blaðamenn séu sem einstaklingar ekki jafnir öðrum að lögum. En um störf þeirra gilda hins vegar aðrar reglur og lög - rétt eins og þið þekkið sjálf um ykkar störf. Og það er ekki að ástæðulausu.
Í fyrsta lagi hafa afskipti lögreglu af blaðamönnum vegna starfa þeirra kælingaráhrif - sem er takmörkun á tjáningarfrelsi þeirra. Kælingaráhrif valda því meðal annars að blaðamenn eru líklegri til að stunda ómeðvitaða sjálfsritskoðun og forðast jafnvel að fjalla um tiltekin viðfangsefni.
Í öðru lagi ná kælingaráhrifin til annarra blaðamanna. Skilaboðin eru þau að hvaða blaðamaður sem er getur átt von á því að verða kallaður til skýrslutöku og hljóta réttarstöðu sakbornings fyrir það eitt að vinna vinnuna sína.
Í þriðja lagi grefur tilefnislaust inngrip lögreglu í störf blaðamanna og umræðan í kring um það, undan trausti almennings til fjölmiðla, trúverðugleika ekki aðeins þeirra blaðamanna sem um ræðir, heldur allrar stéttarinnar, sem veikir þessa mikilvægu lýðræðisstoð.
Í fjórða lagi sýndi það sig að fyrrnefnd lögreglurannsókn og samfélagsumræðan varð til þess að beina athyglinni frá þeim staðreyndum málsins sem upprunalegi fréttaflutningurinn svipti hulunni af.
Og þá erum við komin að dómstólunum því Landsréttur dæmdi nýverið að það teldist ekki meiðyrði að bloggari nokkur héldi úti að því er virðist skipulagðri ófrægingarherferð gegn þeim blaðamönnum sem sviptu hulinni af meintum stórfelldum lögbrotum sjávarútvegsrisa. Ófrægingarherferð sem er reyndar óhugnanlega samhljóma þeirri sem stórfyrirtækið sjálft varð uppvíst að því að stunda gegn blaðamönnum og baðst síðan afsökunar á.
Dómstólar hafa í meiðyrðamálum gert miklar kröfur á fjölmiðla um nákvæm og vönduð vinnubrögð og talið mikilvægt að fjölmiðlar miðli réttum upplýsingum en ekki röngum.
Í fyrrnefndum dómum Landsréttar felst hins vegar að vegna þessa hlutverks síns megi aðrir hafa í frammi falsupplýsingar og tilhæfulausar ásakanir um alvarlega refsiverða háttsemi blaðamanna, sem ætlað er að draga úr trúverðugleika þeirra. Blaðamenn verði að þola það bara vegna þess að það er hlutverk þeirra að miðla réttum upplýsingum til almennings. Rökin fyrir þessari niðurstöðu eru vandséð og hún getur ekki leitt til annars en að grafið sé undan trausti almennings á fjölmiðlum og getu þeirra til að sinna því hlutverki sínu að miðla réttum upplýsingum til almennings, upplýsingum sem almenningur á að geta treyst.
Að endingu vil ég segja þetta:
Það er ástæða fyrir því að blaðamenn njóta sérstakrar verndar.
Ófrægingarherferðir virka. Þess vegna er þeim beitt.
Samfélagið allt þarf að taka höndum saman og skapa umhverfi þar sem blaðamenn geta sinnt störfum sínum í þágu almennings og lýðræðis.