Stjórnadagurinn 2025

Mynd: BÍ
Mynd: BÍ

Stjórnir Blaðamannafélagsins og sjóða þess hittust á svokölluðum stjórnadegi 26. ágúst sl. og sóttu námskeið um ábyrgð og hlutverk stjórnarmanna auk þess sem haldin var stutt vinnustofa um stefnu félagsins. 

Námskeiðið var hluti af fræðslustefnu félagsins en á því var fjallað um hlutverk, umboð og ábyrgð stjórnarfólks í félögum og vikið að hagnýtum þáttum svo sem skipulagi starfs í því skyni að veita dýpri innsýn í hlutverk stjórna. Jón Gunnar Ásbjörnsson, lögmaður hjá Landslögum kenndi námskeiðið.

Þá tók stjórnarfólk þátt í stuttri vinnustofu um markmið og áherslur Blaðamannafélagsins til styttri og lengri tíma.

Stjórnirnar samanstanda af öflugu, lýðræðislega kjörnu félagsfólki sem á það sameiginlegt að vilja gott af sér leiða í þágu stéttarinnar, blaðamennsku og fjölmiðlafrelsis. 

Hér má glöggva sig á hver eru í stjórnum félagsins á starfsárinu 2025-2026.