Um framlög í orlofsheimilasjóð

Eins og vakin var athygli á í fréttabréfi til félagsmanna 17. janúar sl. munu atvinnurekendur hefja innheimtu á ný á 0,25% af samningsbundnum launum í orlofsheimilasjóð BÍ eins og skylt er samkvæmt aðalkjarasamningi félagsins við SA (gr. 8.3). Þetta er skv. ákvörðun stjórnar Orlofsheimilasjóðs og stjórnar BÍ. Atvinnurekendur greiða áfram 0,25% til viðbótar við framlag félagsmanna í sjóðinn.

Blaðamannafélag Íslands á og rekur fjögur orlofshús: tvö í Brekkuskógi, eitt í Stykkishólmi og eitt á Akureyri. Orlofsheimilasjóði er ætlað að standa undir rekstri orlofseigna félagsins og annarrar orlofsþjónustu. Hins vegar hefur Félagssjóður og Menningarsjóður BÍ í gegnum árin þurft að fjármagna ýmsar framkvæmdir og stóran hluta reksturs sem er ekki heimilt skv. endurskoðanda.

Orlofshús félagsins í Brekkuskógi eru á frábærum stað, en þau eru orðin nokkuð lúin og þarfnast talsverðra endurbóta, bæði að innan og utan. Aðalstjórn og stjórn Orlofssjóðs BÍ hafa því ákveðið að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir á árinu. Þær munu fela í sér nauðsynlegt viðhald, svo sem viðgerðir á þaki og pípulögnum, auk endurhönnunar á rýmum að innan með smekklegum og hlýlegum hætti. Þá verður sett upp nýtt kerfi fyrir heitu pottana til að bæta virkni þeirra og flýta fyrir áfyllingu.

Hönnunarferlið er þegar hafið en framkvæmdir eru áætlaðar með haustinu 2025 og á að ljúka snemma vors 2026. Áhersla verður lögð á hagkvæmni, hlýlegt og endingargott yfirbragð, með tengingu við einkenni félagsins. Markmiðið er að bjóða félagsmönnum upp á glæsileg orlofshús þar sem öll aðstaða verður til fyrirmyndar.

Við minnum félagsmenn einnig á að á orlofsvef félagsins er hægt að kaupa veiðikort, ferðaávísanir og gjafabréf hjá Icelandair á sérkjörum.