Fræðsludagur trúnaðarmanna 2025

Frá Fræðsludegi trúnaðarmanna 2025
Frá Fræðsludegi trúnaðarmanna 2025

Trúnaðarmenn Blaðamannafélags Íslands komu saman á Fræðsludegi trúnaðarmanna 2025 þann 12. júní sl. Trúnaðarmenn BÍ eru ómissandi fyrir starfsemi félagsins og öryggi félagsmanna. Þeir stuðla að faglegum og sanngjörnum samskiptum á vinnustað og tryggja að réttindi blaðamanna séu virt í samstarfi við skrifstofu félagsins.

Á Fræðsludegi trúnaðarmanna 2025 var áhersla lögð á samskipti, sjálfstyrka hegðun og mörk en sálfræðingur frá Líf og sál hélt námskeið fyrir hópinn. Þá var einnig farið yfir algeng réttindamál sem koma upp á hverjum vinnustað svo sem fjölmiðlagreiðslur, þriggja mánaða leyfi, yfirvinnu o.fl. Trúnaðarmenn fengu auk þess kynningu á hagsmunagæslu BÍ í þágu blaðamennsku og aðra lykilstarfsemi félagsins sem tengist kjarasamningsbundnum réttindum ekki með beinum hætti.

Hlutverk trúnaðarmanna er að vera tengiliður milli starfsfólks og atvinnurekenda annars vegar og milli atvinnurekanda og stéttarfélags (BÍ) hins vegar. Trúnaðarmaður er því fulltrúi BÍ á hverjum vinnustað. BÍ styður trúnaðarmenn sína með ráðgjöf og fræðslu til að þeir geti sinnt störfum sínum af fagmennsku.

Meðal verkefna trúnaðarmanna er að:

  • Fylgjast með því að atvinnurekandi fari að kjarasamningum, lögum og reglum sem varða starfskjör og réttindi starfsmanna.
  • Greina hvaða ákvæði kjarasamninga og reglna mætti breyta til að bæta starfskjör eða einfalda framkvæmd þeirra og koma tillögum þess efnis á framfæri við BÍ, m.a. í tengslum við undirbúning kröfugerða fyrir kjarasamninga.
  • Taka við kvörtunum starfsmanna og vera málsvari þeirra gagnvart atvinnurekanda.
  • Starfa sem tengiliður stéttarfélagsins á vinnustað, miðla upplýsingum milli félagsins og starfsmanna, kynna stefnu BÍ og verkefni þess.
  • Veita nýjum starfsmönnum upplýsingar um starfskjör, réttindi og starfsemi stéttarfélagsins og aðstoða þá við að átta sig á aðstæðum.

Trúnaðarmenn BÍ:

Morgunblaðið: Sólrún Lilja Ragnarsdóttir og Silja Björk Huldudóttir
DV: Erla Dóra Magnúsdóttir
Sýn: Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir
Birtingur: Nanna Ósk Jónsdóttir
Viðskiptablaðið: Guðjón Guðmundsson
RÚV: Anna Lilja Þórisdóttir og Ragnar Santos
Félag fréttamanna á RÚV: Hallgrímur Indriðason
Bændablaðið: Sigurður Már Harðarson