- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
„Ég myndi vilja sjá ákveðnar kröfur um nýsköpun og ótroðnar slóðir innan blaðamennsku því fjölmiðlaheimurinn hefur gott af nýsköpun eins og önnur svið í samfélaginu, svo ég myndi vilja sjá styrkingu og eflingu á því sviði,” segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Hún segir vöntun á nýsköpunarstyrkjum tengdum blaðamennsku, sér í lagi rannsóknarblaðamennsku. Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, ræddi við hana í kjölfar þess að henni var afhent áskorun stjórnar félagsins til eflingar blaðamennsku og fjölmiðla.
Þorgerður vill horfa til hinna Norðurlandanna þegar kemur að stefnumótun í málaflokki fjölmiðla og telur nauðsynlegt að halda áfram með ríkisstyrki til einkarekinna fjölmiðla, a.m.k. tímabundið. „Norðurlöndin eru búin að feta sig svolítið áfram í þessu og við eigum að fara svipaðar slóðir. Að mínu mati þurfum við halda áfram tímabundið með ríkisstyrki og svo sjáum við hvernig það er að gefast. Við þurfum flóru af fjölmiðlum, við þurfum ólíka fjölmiðla og við þurfum óháða fjölmiðla,“ segir Þorgerður. „Viðreisn vill einnig skoða Ríkisútvarpið þegar kemur að auglýsingahlut þess, ekki til þess að veikja Ríkisútvarpið, bara þannig að við höfum það á hreinu, en það er til þess að styrkja líka lýðræðishlutverk sjálfstæðra, óháðra fjölmiðla,“ heldur hún áfram.
Þorgerður segir blaðamenn gegna lykilhlutverki í lýðræðissamfélagi, „Við sjáum það að síðustu misseri og ár að fjölmiðlar, ekki síst sjálfstæðir óháðir fjölmiðlar, hafa verið að fletta ofan af ýmsum málum sem ellegar hefðu legið í þagnargildi. Slíkt er alveg ómetanlegt.”
Hér má horfa á viðtalið í heild sinni
Hér má lesa áskorun Blaðamannafélags Íslands til stjórnmálaflokka 2024