„Það er bara mjög alvarlegt, alvarlegt að valdamenn séu eins og þarna að grafa undan trausti á fjölmiðla, trausti til blaðamanna og þar af leiðandi veikja þessar stoðir sem eiga að vera einmitt að veita þeim aðhald, veita almenningi upplýsingar.“
Ráðherra sé í yfirlýsingu sinni að nota orð sem hann annað hvort skilji ekki eða þá til þess að refsa fjölmiðli fyrir að flytja ekki fréttir með þeim hætti sem honum eru þóknanlegar. „Ég veit ekki hvort er verra en ég vona innilega að þetta sé vanþekking á hlutverki fjölmiðla og hans eigin hlutverki sem ráðherra.“
Það sé sömuleiðis fyrir neðan allar hellur að ráðherra kosti auglýsingar með árásir sínar á fjölmiðil á samfélagsmiðlum, og að hann geri athugasemdir við fyrri umfjallanir Morgunblaðsins sem ekki hafi verið skrifaðar eftir hans þótta.
„Mér finnst þetta bara afhjúpa hættuleg viðhorf til íslenskra fjölmiðla og mér finnst kominn tími til þess að samfélagið og almenningur gagnrýni það hvaða viðhorf þarna koma fram gagnvart fjölmiðlum og blaðamönnum.“