Fréttir

Magnús Geir Þórðarson tekur við verðlaununum úr hendi Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfisráðherra.

RÚV fær umhverfisverðlaun

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, veitti í dag í tilefni af Degi íslenskrar náttúru, RÚV – hljóðvarpi og sjónvarpi, fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Við sama tækifæri veitti hann Tómasi J. Knútssyni, Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Tilnefndir til fjölmiðlaverðlaunanna voru: -Gunnþóra Gunnarsdóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu fyrir greinaflokkinn Útivist og afþreying þar sem sjónum var beint að áhugaverðum náttúruperlum í öllum landshlutum á hnitmiðaðan, einfaldan og fallegan hátt. -Just.In.Iceland fyrir að nýta sér Netið og gagnvirkni þess til að kynna sérstöðu Íslands fyrir umheiminum með því að skapa stafrænan vettvang til að birta og deila fagmannlega teknum ljósmyndum af íslenskri náttúru og lífríki. -RÚV, hljóðvarp og sjónvarp fyrir ítarlega og vandaða umfjöllun um almannarétt og gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum á liðnu ári. Í rökstuðningi dómnefndar fjölmiðlaverðlauna segir: Umræða og umfjöllun um almannarétt og gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum hefur verið eins og rauður þráður í upplýsingamiðlun fjölmiðilsins [RÚV] á síðastliðnum tólf mánuðum, mikil að vöxtum, alhliða, upplýsandi og gagnrýnin. Öll mikilvægustu sjónarmið málanna hafa komið fram en ekki verður gert upp á milli einstakra þátta, RÚV er tilnefnt til verðlaunanna í einu lagi. Er það niðurstaða dómnefndar að sú umfjöllun samantekin verðskuldi fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins árið 2014 enda hafi mikilvægum hagsmunum og réttindum almennings hvað snertir náttúruna og umhverfið verið gerð ítarleg skil frá öllum hliðum málanna. Sjá einnig hér
Lesa meira
Pressukvöld um ritstjórnarlegt sjálfstæði - Fjölmiðlanefnd fær erindi vegna DV

Pressukvöld um ritstjórnarlegt sjálfstæði - Fjölmiðlanefnd fær erindi vegna DV

Atli Þór Fanndal, fyrrum blaðamaður á DV, hefur óskað eftir því við Fjölmiðlanefnd að hún kanni hvort fjárhagsleg tengsl Reynis Traustasonar og Guðmundar Kristjánssonar í Brimi brjóti í bága við reglur Fjölmiðlalaga og ritstjórnarreglur DV um ritstjórnarlegt sjálfstæði. Um þetta hefur Atli Þór ritað langt erindi sem hann birtir á Facebook. Eftir því sem næst verður komist er þetta í fyrsta sinn sem formlega er gerð athugasemd til Fjölmiðlanefndar vegna ákvæðis um ritstjórnarlegt sjálftæði í fjölmiðlalögunum. Í þessu sambandi er ástæða til að minna á pressukvöld Blaðamannafélagsins á fimmtudag í Kornhlöðunni þar sem fjallað verður um ritstjórnarlegt sjálfstæði. Lesning á athugasemd Atla Þórs kann að vera fróðlegur undirbúningur fyrir þá umræðu!  Sjá endurrit erindis Atla Þórs hér á Eyjunni
Lesa meira
Málþing - Hvað ógnar ritstjórnarlegu sjálfstæði?

Málþing - Hvað ógnar ritstjórnarlegu sjálfstæði?

Hvers vegna er ritstjórnarlegt sjálfstæði mikilvægt? Fyrir hverja? Hvernig er hægt að tryggja það? Með betra starfsöryggi blaðamanna? Hvað ógnar því? Þetta og fleira verður rætt á málþingi Blaðamannafélags Íslands og fjölmiðlanefndar sem fram fer í Kornhlöðunni fimmtudagskvöldið 18. september. Málþingið hefst kl.  kl. 20:00 og eru allir velkomnir. Í pallborði verða: Þóra Kristín Ásgeirsdóttir blaðamaður og fyrrv. formaður BÍ, Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365, Hallgrímur Thorsteinsson, ritstjóri DV og Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar. Fundarstjóri verður Arna Schram, fyrrv. formaður BÍ. Að loknum framsögum verða fyrirspurnir og almennar umræður. Miðað er við að málþingið standi yfir til kl. 22:30. Í boði verður kaffi og léttar veitingar á hóflegu verði fyrir félagsmenn
Lesa meira
Forustumenn blaðamanna á Gaza í heimsókn

IFj í stuðningsheimsókn á Gaza

Leiðtogar Aljóðasambands blaðamanna (IFJ) hafa verið í tveggja daga stuðningsheimsókn á Gazasvæðinu þar sem þeir hittu forustumenn Blaðamannafélags Palestínu og hóp egypskra blaðamanna. Þetta er fyrsta heimsókn  erlends stéttarfélags eða fagfélags til Gaza frá því að samnið var um vopnahlé þann 26. ágúst. Fram kom hjá Jim Boumelha formanni IFJ í heimsókninni að hann teldi nauðsynlegt að Ísrael yrði látið svara til saka um ólöglegar aðgerðir sínar á Gazasvæðinu og hann sagði ennfremur:  „Þegar Ísraelsher hætti loftárásum sínum var samfélag blaðamanna á svæðinu rétt eins og samfélagið allt í áfalli og sárum. Sautján blaðamenn dóu, 19 særðust,  á annan tug missi heimili sitt og 11 fjölmiðlafyrirtæki voru beinlínis gerð að beinum skotmörkum.“  Þetta var hræðilegur glæpur og það liggja fyrir óyggjandi sannanir fyrir því að stjórnvöld í Ísrael  fylgdi stefnu þar sem fjölmiðlar og blaðamenn voru skilgreind skotmörk.“ Sjá einnig hér
Lesa meira
Stefnuyfirlýsing EFJ

Stefnuyfirlýsing EFJ

 Fyrir Evrópuþingskosningarnar í sumar gekkst Evrópusamband blaðamanna (EFJ) fyrir undirskriftasöfnun meðal frambjóðenda til Evrópuþingsins þar sem farið var fram á stuðning við 10 megin stefnumál sem EFJ telur mikilvæg til að tryggja frjálsa og fjölbreytta fjölmiðlun í álfunni.  Um 200 frambjóðendur skrifuðu undir þessa yfirlýsingu og um 50 þeirra náðu kjöri á Evrópuþingið. EFJ hefur nú birt nöfn þeirra sem undir þeta skrifuðu ásamt stefnumálunum 10  á heimasíðu sinni. Stefnumálin voru þessi:  1. Lýðræði þarf á sjálfstæðri blaðamennsku að halda  2. Evrópa þar fá fjölbreytni í fjölmiðlum að halda  3. Fundafrelsi og frelsi til að semja um eigin kjör á að vera fyrir alla   4. Höfundaréttur – sanngjarnir samningar fyrir alla  5. Vinnuskilyrði hafa áhrif á gæði blaðamennsku  6. Blaðamennska er samfélagsgæði  7. Rannsóknarblaðamennska krefst ffrjáls aðgangs að upplýsingum  8. Fjárfesta ber í framtíð blaðamennsku  9. Vinnuöryggi  10. Bygga á upp traust og ábyrgð með siðlegri blaðamennsku.  Sjá meira hér  
Lesa meira
Hallgrímur Thorsteinsson, ritstjóri DV

Hallgrímur ritstýrir DV

Hallgrímur Thorsteinsson er tekinn við sem nýr ritstjóri á DV en Reynir Traustason hefur verið leystur undan störfum sínum fyrir blaðið. Hallgrímur segist í samtali við RÚV vonast til að deilur í eigendahópi verði settar niður sem fyrst og  að hann sjái „engin skrímsli undir rúminu“  varðandi eignarhaldið og að menn hafi farið fram úr sér í vangaveltum um þöggun á blaðinu. Athygli vekur að Reynir Traustason virðist enn bundin ráðningarböndum við blaðið þó hann hafi þar engar skyldur og  samkvæmt bréfi sem hann birti á Facebook  megi ekki koma inn á ritstjórnina, nota netfang sitt þar eða skrifa í eða hafa afskipti af DV eða dv.is. Þetta á að gilda í jafnvel  fram til mánaðarmóta  til að gefa nýrri stjórn ráðrúm til að „kanna fjárhag félagsins og rekstur á þessu ári“.  Um þetta segir Reynir á Facebook: „Sú aðför sem nú stendur yfir gagnvart mér er sú ógeðslegasta sem ég hef upplifað. Í stað þess að segja mér upp með mannsbrag er mér skipað að fara í frí og gefið til kynna að eitthvað misjafnt sé í pokahorninu.“ Sjá meira hér  
Lesa meira
Nýtt merki og vefslóð EFJ

Nýtt merki og vefslóð EFJ

Evrópusamband blaðamanna (EFJ) hefur á undanförnum mánuðum verið að vinna í upplýsingamálum sínum og hefur vilja gera sig sýnilegra en það hefur verið innan Aljóðasambands blaðamanna (IFJ). Líður í þessu hefur verið vinna í vefsíðu EFJ sem hægt hefur verið að nálgast með því að fara í gegnum vefsíðu Alþjóðasambandsins. Nú hefur verið útbúin sérstök slóð á vefsíðu EFJ sem er http://www.europeanjournalists.org/  og  jafnframt hefur verið kynnt til sögunnar nýtt merki eða logo fyrir samtökin. Nýja merkið má sjá hér að ofan.  
Lesa meira
Bente Klarlund Pedersens

Birti sjálf strax svörin við spurningum blaðamanns

Athyglisverð umræða fer nú fram í hopi danskra blaðamann í kjölfar þess að viðmælandi blaðamanns hjá Jullands Posten sem fékk sendar spurningar frá blaðamanni birti sjálfur opinberlega svör sín við spurningunum og spurningarnar á opinberri vefsíðu. Það var gert til að tryggja „gagnsæi um ferðakostnað viðkomandi“.   Þetta er nokkuð sérstakt þar sem viðkomandi blaðamaður hefur verið að skrifa greinaflokk um ráðstöfun á fjármagni til rannsókna á sjúkrahúsum og ferðakostnað starfsfólks í tengslum við það. Eitt og annað hefur komið fram í þessum greinum og eftir að blaðmaðurinn, Morten Pihl, hafði komist yfir gögn um ferðakostnað voru fyrirspurnirnar sem sendar voru viðkomandi, rannsóknarkonunni Bente Klarlund Pedersens. En um leið og hún svaraði fyrirspurninni birti hún svör sín opinberlega annars staðar.  Morten Pihl segir í samtali við vefsíðu danska Blaðamannsins að hann hafi talið heiðarlegt að gefa viðmælendum tækifæri til að leggjast yfir svör sín og gefa þau skriflega og að þeir fengju sæmilega rúman tíma til að svara. Nú hins vegar velti hann því fyrir sér – í ljosi þess að eðli málsins samkvæmt séu fjölmiðlar í keppni um að koma fram fyrstir með málin og upplýsingar – hvort þessi vinnubrög séu misráðin og eðlilegra væri einfaldleg að hringja í viðkomandi og stytta tímann þannig fram að birtingu. Hann segir að raunar hafi þetta ekki komið verulega að sök í þessu máli því hann hafi ekki metið þetta sem svo að í málinu væri frétt og eðlilegar útskýringar hafi fengist.   Sjá umfjöllun hér  
Lesa meira
Frá flóðunum í Kaupmannahöfn um helgina

Stórir fréttadagar!

Stundum er því haldið fram að fréttnæmir atburðir komi í bylgjum og að suma daga gerist margir mjög fréttnæmir atburðir á meðan ekkert gerist þess á milli. Undanfarin vika á Íslandi hefur verið mjög fréttnæm, eldgos, fjölmiðlafár, og lekamál. Stundum rifja gamalreyndir fréttamenn upp stóra fréttadaga eins og t.d. í janúar 1991 þegar Persaflóastríðið fyrra skall á, Ólafur Noregskonungur dó og Hekla gaus sama daginn.  En um helgina varð einmitt einn af þessum stóru fréttadögum hjá dönskum blaðamönnum og er um það fjallað á vefsíðu Blaðamannafélags Danmerkur. Fréttastjóri TV2, Peter Thorup, talar þar um að þetta hafi verið einn stærsti fréttadagurinn sem hann man eftir, en óvæntar sviptingar urðu í stjórnmálum og í tilnefningum Dana í embætti kommissara hjá ESB sem komu á sama tíma og flóðin urðu í Kaupmannahöfn.  Sjá umfjöllun hér  
Lesa meira
Tilkynning

Höndin sem fæðir og höndin sem skrifar

Miðvikudaginn 3. september kl. 12.00-13.00 flytur Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur, erindið Höndin sem fæðir og höndin sem skrifar: Ritstjórnarlegt sjálfstæði, stjórnmál, sérhagsmunir, fagleg vinnubrögð og hlutleysi fjölmiðla. Birgir er dósent í fjölmiðlafræði við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri. Birgir er stjórnmálafræðingur og sagnfræðingur frá Essex í Bretlandi og lauk framhaldsnámi í stjórnmálafræði frá Manitóba háskóla í Kanada. Hann starfaði við fjölmiðla í um tvo áratugi sem blaðamaður, fréttastjóri og ritstjóri. Birgir hefur m.a. skrifað um og rannsakað samspil stjórnmála og fjölmiðla og þróun fjölmiðla á tíma markaðsmiðlunar. Hann er ritstjóri Blaðamannsins, fagrits Blaðamannafélags Íslands, og hefur á undanförnum árum og misserum unnið ýmis trúnaðarstörf fyrir Blaðamannafélagið. Félagsvísindatorgið verður í stofu M102 og er öllum opið án endurgjalds.
Lesa meira