Satt og ósatt

Satt og ósatt. Fullyrðingar Hjálmars Jónssonar um Blaðamannafélagið, forystu þess og starfsfólk

Hjálmar Jónsson, fyrrum framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands, sendi blaðamönnum opið bréf sem birtist á Vísi í gær, 29. ágúst. Þar fer Hjálmar með ýmsar staðlausar staðhæfingar sem leiðréttast hér með. Staðhæfingar hans eru skáletraðar hér að neðan. Stjórn félagsins stendur öll saman að þessari samantekt sem skrifuð er þann 30. ágúst 2024.


Aðförin að mér hefur aldrei snúist um annað en hefnd vegna þess að ég gerði kröfu til þess að formaður félagsins gerði hreint fyrir sínum dyrum opinberlega þegar fjallað var um skattamál hans og meint ítrekuð skattalagabrot á opinberum vettvangi. 

ÓSATT

Rétt er að einróma ákvörðun stjórnar BÍ um starfslok Hjálmars Jónssonar átti sér langan aðdraganda og var vel ígrunduð. Í aðdragandanum hafði verið rætt við Hjálmar um að til stæði að ráða nýjan framkvæmdastjóra, m.a. þar sem hann var sjálfur að nálgast starfslok vegna aldurs. Var honum boðið að halda áfram störfum fyrir félagið, á óbreyttum kjörum en í öðru hlutverki. Hann vildi ekki verða við þeim óskum stjórnar og var það meðal annars vegna þess að hann átti ekki áfram að fara með fjárráð fyrir hönd félagsins. Það virtist hann ekki geta sætt sig við. Varð það þá óhjákvæmileg og einróma niðurstaða stjórnar að Hjálmar þyrfti að ljúka störfum fyrir félagið. Sú ákvörðun kom einnig til vegna tregðu hans við að framfylgja stefnubreytingum og ákvörðunum stjórnar, vanvirðandi framgöngu hans gagnvart stjórnarmönnum og starfsfólki, skorts á upplýsingum um fjármál og rekstur félagsins og höfnun á að formaður félagsins fengi skoðunaraðgang að reikningum félagsins til að rækja mætti eftirlitshlutverk stjórnar.

Núverandi formaður félagsins hefur greint frá því margsinnis, bæði opinberlega og innan félagsins, að hún og eiginmaður hennar sættu endurákvörðun tekjuskatts vegna mistaka við framtalsgerð. Skattyfirvöld sáu sjálf enga ástæðu til að það mál færi í þann farveg að það þyrfti að rannsaka sem sakamál eða skattsvik né heldur þótti málið það alvarlegt að um það þyrfti að gera sérstaka sátt. Núverandi formaður var endurkjörinn á aðalfundi félagsins í apríl síðastliðnum án mótframboðs og hefur óskorað umboð og traust félagsmanna til að gegna formennsku áfram.


Lagabreytingar um félagsréttindi hverfast í kringum meinta aðför að Hjálmari Jónssyni.

ÓSATT

Ýmsar lagabreytingatillögur liggja fyrir framhaldsaðalfundi BÍ og voru þær kynntar á aðalfundi í apríl síðastliðnum. Tillögurnar eru lagðar fram samkvæmt einróma ákvörðun stjórnar félagsins. Ein af þeim snýr að félagsréttindum biðfélaga og lífeyrisþega, þ.e. kjörgengi og atkvæðisrétt. Lengi hefur ríkt óvissa um atkvæðisrétt í félaginu og tímabært að skilgreina betur í lögum félagsins. Meginþorri stéttarfélaga hefur það að reglu að takmarka eða afnema jafnvel félagsréttindi félaga láti þeir af störfum vegna aldurs. Vegna öldrunar þjóðarinnar eykst hlutfall lífeyrisþega af félagsmönnum stöðugt og óeðlilegt að mati stjórnar að hópur sem ekki greiðir til félagsins hafi atkvæðisrétt um málefni félagsins, hver er þar í forsvari og hvernig kjaramálum er háttað, þó sami hópur njóti annarra félagsréttinda. Blaðamannafélag Íslands er bæði stéttarfélag og fagfélag og mat stjórnar að það skuli vera starfandi blaðamenn sem hafi atkvæðisrétt um hvernig félagið beitir sér sem slíkt.


Lífeyrisþegum í Blaðamannafélaginu er er ekki lengur velkomið að nýta félagsaðstöðu Blaðamannafélagsins við Síðumúla.

ÓSATT

Lífeyrisþegar í Blaðamannafélaginu hafa mætt í föstudagskaffi nær því alla föstudaga frá áramótum þótt stór hluti þeirra hafi kosið að hittast annars staðar. Öll eru að sjálfsögðu velkomin áfram í föstudagskaffi í Síðumúlann eins og starfsfólk skrifstofu hefur ítrekað. Þá eiga lífeyrisþegar eins og aðrir félagsmenn kost á að nýta húsnæði félagsins til funda- og veisluhalda.


Það á svo gott sem að reka alla lífeyrisþega úr félaginu og það er óþekkt að lífeyrisþegar hafi ekki atkvæðisrétt á aðalfundum fag- og stéttarfélaga.

ÓSATT

Lög og reglur meginþorra stéttarfélaga gera ráð fyrir því að félagsréttindi fólks skerðist þegar það hættir störfum vegna aldurs. Í mörgum félögum er það jafnvel svo að fólk missir öll félagsréttindi sjálfkrafa við að hætta að greiða í sjóði. Skv. athugun sem gerð var á u.þ.b. fimmtíu félögum halda lífeyrisþegar einvörðungu atkvæðisrétti í örfáum þeirra eftir starfslok. Í þeim félögum sem að lífeyrisþegar halda atkvæðisrétti er iðulega sérstaklega tekið fram í lögum að atkvæðisrétturinn nái þó ekki til kjaramála. Þá er hlutfall lífeyrisþega talsvert lægra hjá þeim félögum sem heimila áframhaldandi atkvæðisrétt, til að mynda 1,5% hjá Eflingu. Til samanburðar er hlutfallið hjá BÍ um 15%. Ekkert stéttarfélag sem BÍ gerði athugun á veitir lífeyrisþegum áframhaldandi sjóðaaðild og styrki úr sjúkrasjóðum eftir að hætt er að greiða iðgjöld í sjóðina.

Samkvæmt lagabreytingartillögu stjórnar BÍ halda þeir félagar sem hafa hætt störfum sökum aldurs tillögurétti sínum og málfrelsi á aðalfundum. Auk þess er fyrirhugað að stofna sérstaka lífeyrisdeild eins og þekkist hjá öðrum stéttarfélögum til að taka málefni eldri félagsmanna fastari tökum.


Skoðanir óháðs bókara á reikningum félagsins til tíu ára leiddu ekkert misjafnt í ljós

ÓSATT

Skoðanir óháðs bókara og athugun KPMG á tilteknum bókhaldsfærslum leiddu verulega misbresti á rekstri félagsins í ljós. Ábendingarnar voru svo alvarlegar að stjórn BÍ taldi nauðsynlegt að leita til lögmannaþjónustu LOGOS til að kanna hvort háttsemi fyrrum framkvæmdastjóra væri jafnvel refsiverð. Niðurstaða minnisblaðs sem lögmaður LOGOS skilaði í kjölfarið var sú að Hjálmar Jónsson gerðist að öllum líkindum sekur um refsiverða háttsemi í starfi sínu fyrir félagið. Meint brot fólust í lánveitingum sem hann veitti sjálfum sér af fjármunum félagsins án samþykkis stjórnar, greiðslu ökutækjastyrks og dagpeninga umfram heimildir og mögulega með kaupum á lausafé umfram ástæður og til persónulegra nota. Meðal þess sem fram kom:

  • Framkvæmdastjóri lánaði sjálfum sér án heimildar tæpar 9,2 m.kr. á 7 árum og lét færa í bókhaldi sem fyrirframgreidd laun. Greiðslurnar koma ekki fram á launaseðlum hjá framkvæmdastjóra þannig að ekki er hægt að rekja í bókhaldi að greiðslurnar tengist fyrirfram greiddum launum. Greiðslurnar voru frá 100 þús kr. til 1,5 m.kr. í hvert sinn og ekki endurgreiddar fyrr en allt að sex mánuðum liðnum. Alls er um að ræða 28 millifærslur.
  • Framkvæmdastjóri greiddi 7,8 m.kr. í styrki án þess að leita samþykkis viðkomandi stjórna. Í mörgum tilvikum var ekki heimild í reglugerðum sjóða fyrir styrkjunum sem framkvæmdastjóri tók einhliða ákvörðun um að greiða.
  • Framkvæmdastjóri hóf að greiða sér árið 2018 ökutækjastyrk umfram það sem samið var um í launakjörum ásamt greiðslu á dagpeningum. Tengist kostnaðurinn ferðum fyrrum framkvæmdastjóra vegna orlofshúsa og funda. Alls voru greiddar 3,2 m.kr. á árunum 2018-2023

Stjórn félagsins kaus að draga lærdóm af ábendingum KPMG og LOGOS og taka rekstur félagsins mun fastari tökum en gert var í tíð fyrri framkvæmdastjóra, m.a. með því að auka eftirlit og setja nýjar verklagsreglur fyrir skrifstofu. Hins vegar var um leið ákveðið að kröftum stjórnar væri best varið í það verkefni og í að efla félagið til framtíðar og því var málinu lokið fremur en að vísa því til lögreglu með kæru. Það er hins vegar fjarri sanni að „ekkert misjafnt hafi komið í ljós“.


Gerðar hafa verið breytingar á úthlutunarreglum félagsins sem svipta lífeyrisþega öllum réttindum til styrkja úr sjúkrasjóði

ÓSATT

Lífeyrisþegar eru ekki sjóðsfélagar í Styrktarsjóði BÍ og hafa ekki átt rétt til styrkja úr honum. Enda helst réttur til styrkja úr sjóðnum í hendur við að í hann sé greitt kjarasamningsbundið iðgjald. Hins vegar veitti Hjálmar Jónsson litlum hópi lífeyrisþega slíka styrki þvert á reglur og án heimildar stjórnar og var það meðal þess sem gerðar voru alvarlegar athugasemdir við í athugun KPMG. Sjóðurinn hefur verið rekinn með alls 60 milljóna króna tapi á síðustu 10 árum með þeim afleiðingum að gengið hafði svo verulega á eigið fé sjóðsins að hann hefði tæmst á árinu 2024 ef ekki hefði verið gripið til ráðstafana. Til að setja þessa upphæð í samhengi eru iðgjöld í sjóðinn um 40 milljónir árlega. Önnur stéttarfélög miða t.a.m. við að styrktar- og sjúkrasjóðir eigi alltaf minnst þrefalt iðgjald ársins í sjóðnum til að mæta óvæntum sveiflum. Stjórn sjóðsins miðar við reglugerð hans, ekki geðþóttaákvarðanir fyrrum framkvæmdastjóra, við úthlutanir úr sjóðnum. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á úthlutunarreglum miða að því að koma rekstri sjóðsins í sjálfbært horf svo hann geti áfram gagnast félagsmönnum BÍ, einkum ef þeir lenda í langvarandi veikindum. Án breytinganna hefði sjóðurinn farið í þrot. Við útfærslu breyttra úthlutunarregla var leitað til tryggingastærðfræðings sem hefur áratuga reynslu af því að meta gjaldþol sambærilegra sjóða og farið að ráðleggingum hans.


Lengd tímabils sjúkradagpeninga til félagsmanna hefur verið skert afturvirkt

ÓSATT

Til að rétta við hallarekstur sem hefur verið á sjóðnum nær sleitulaust frá árinu 2014 þurfti því miður að skerða lengd tímabils sjúkradagpeninga. Hins vegar var það ekki gert afturvirkt eins og haldið hefur verið fram. Stjórn BÍ tók ákvörðun um að styrkja sjóðinn um 25 milljónir úr varasjóði félagsins á þessu ári til þess að koma í veg fyrir að hann færi í þrot, til viðbótar við þær 10 milljónir sem hún lagði sjóðnum til á síðasta ári. Gætt var að því að félagsmenn héldu áþekkum réttindum og þekkist hjá öðrum stéttarfélögum en veikindaréttur blaðamanna er nokkuð rýmri en almennt þekkist á almennum vinnumarkaði. Það ætti að vera öllum ljóst að ekki gengur til lengdar að leggja sjóðnum til tugi milljóna árlega án þess að stefna rekstri félagsins í heild sinni í hættu. Breytingarnar ná einungis til þeirra umsókna sem bárust eftir að reglunum var breytt. Þær eru ekki afturvirkar.


Stéttarfélög eru einfaldlega millifærslukerfi sem ber að hafa sem allra minnsta yfirbyggingu

ÓSATT

Vissulega er mikilvægt að hátt hlutfall af iðgjöldum félagsmanna renni aftur í vasa þeirra í formi ýmissa styrkja. Stór hluti starfsemi stéttarfélaga er hins vegar að semja um kjör félagsmanna og gæta þess að réttindi þeirra séu virt. Þá er Blaðamannafélagið einnig fagfélag blaðamanna sem hefur það mikilvæga hlutverk að standa vörð um tjáningarfrelsi og hagsmuni stéttarinnar gagnvart eigendum fjölmiðla, löggjafarvaldi og stjórnvöldum. Einnig að standa vörð um ritstjórnarlegt frelsi og sjálfstæði fjölmiðla og standa fyrir faglegri umræðu meðal félagsmanna og leitast við að hafa áhrif á opinbera stefnu og samfélagslega umræðu um fjölmiðlun og tjáningarfrelsi. Núverandi forysta BÍ hefur verið skýr um að vilja nýta félagið til að efla umræðu um blaðamennsku og mikilvægi hennar og beita sér með meira afli í þágu fagsins og stéttarinnar. Til að framfylgja þeirri stefnu fékk stjórn og formaður skýrt umboð félagsmanna á aðalfundi í apríl síðastliðnum.


Fimm starfsmenn starfa nú hjá félaginu til að gegna þeim verkefnum sem Hjálmar Jónsson sinnti einn

ÓSATT

Síðastliðinn áratug, í hið minnsta, hafa að meðaltali verið reiknuð 2,5 til 3 stöðugildi á skrifstofu BÍ. Það hefur ekki breyst en þrír starfsmenn starfa nú á skrifstofu BÍ. Formaður, framkvæmdastjóri og skrifstofustjóri sem sinna umfangsmeiri starfsemi en áður. Áður en núverandi formaður tók við árið 2021 voru 1-3 starfsmenn í hlutastarfi eða ráðnir til sérstakra verkefna til viðbótar við skrifstofustjóra og framkvæmdastjóra.


Þrír starfsmenn hafa verið ráðnir til að sjá um orlofshús félagsins

ÓSATT

Til að bæta þjónustu við félagsfólk gerði félagið tímabundinn samning við þrjá umsjónarmenn, sem búsettir eru í nágrenni orlofshúsa félagsins, til að hafa eftirlit með fjórum orlofshúsum í júlí og ágúst líkt og félagið hefur reyndar áður gert. Fyrir það greiðir orlofshúsasjóður um 25.000 krónur á hús á mánuði. Til samanburðar greiddi félagið f.v. framkvæmdastjóra 82.000 krónur í akstur og dagpeninga vegna einnar eftirlitsferðar í eitt orlofshús félagsins á Akureyri í fyrrasumar. Miðað við kostnað vegna akstursgreiðslna og dagpeninga fyrrum framkvæmdastjóra vegna eftirlits með húsunum fjórum felst sparnaður í ráðstöfuninni fyrir félagið, svo ekki sé talað um að tíma framkvæmdastjóra er að mati stjórnar betur varið í önnur störf en akstur og viðhald sumarhúsa.


Sitjandi formaður Blaðamannafélagsins hefur gerst sekur um skattalagabrot

ÓSATT

Formaður Blaðamannafélags Íslands hefur aldrei gerst sekur um skattalagabrot né gert sátt við skattyfirvöld. Ásakanir um annað eru tómur uppspuni og rógburður.


Málefnum félagsins er stefnt í óefni

ÓSATT

Umbreytingum geta fylgt vaxtaverkir en fyrst og fremst er verið að byggja upp og efla félag blaðamanna sem faglegan vettvang, bæta kjör félagsfólks og stuðla að vitundarvakningu meðal almennings og hagaðila um mikilvægi blaðamennsku á Íslandi. Blaðamennska og frjálsir, öflugir fjölmiðlar eru forsenda upplýsts samfélags og lýðræðis og félagi blaðamanna ber að minna á mikilvægi þeirra við að halda almenningi upplýstum og stuðla að opinni, fjölradda umræðu um samfélagsmál þar sem ólík sjónarmið fá að njóta sín. Enn frekari stefnumótunar er þörf og það krefst þátttöku félagsfólks að efla hagsmunagæslu frekar gagnvart stjórnvöldum og hlutverk félagsins sem faglegan vettvang og sameiginlega rödd blaðamanna ef takast á að styrkja stöðu blaðamanna á Íslandi.


Lífeyrisþegar hafa ekki atkvæðisrétt um kjarasamninga, verkföll eða vinnudeilur og hafa aldrei haft. Eðli málsins samkvæmt hafa þeir enga aðkomu að kjaramálum þar sem lífeyrisþegar eru ekki lengur starfandi á almennum vinnumarkaði.

ÓSATT

Samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur greiða „félagsmenn“ almennt atkvæði um kjarasamninga og vinnustöðvanir. Í þeim tilvikum þegar kjarasamningur eða vinnustöðvanir taka aðeins til hluta félagsmanna er þó heimilt að bera sömu ráðstafanir undir þann hóp sem þær taka til. Það er þó undantekning frá meginreglu um almenna atkvæðagreiðslu allra félagsmanna sem á annað borð fara með atkvæðisrétt í félaginu. Því þótti stjórn rétt, m.a. með tilliti til þess sem tíðkast í öðrum stéttarfélögum, að félagsmenn sem ekki eru starfandi sem blaðamenn, svo sem vegna þess að þeir eru hættir störfum vegna aldurs, fari ekki með með slíkan atkvæðisrétt og miðar ein tillaga stjórnar um breytingar á lögum félagsins að því að gera það skýrt


Eignir Blaðamannafélagsins nema nú hátt í einum milljarði króna. Þær tífölduðust raunar að raungildi meðan undirritaður hélt þar um stjórnartaumana.

ÓSATT

Eignir Blaðamannafélagsins og sjóða þess voru 758 milljónir í árslok 2023. Þar á meðal eru fasteignir félagsins, félagsaðstaða í Síðumúla og sumarhús. Það er markmið stjórnar félagsins að bæði félagið sjálft og sjóðir þess séu að jafnaði reknir án halla og án þess að gengið sé á eignir eða varasjóði. Með því væri enda hagsmunum félagsmanna stefnt í hættu til lengri tíma litið.

Eignir félagsins árið 2003, þegar fyrrum framkvæmdastjóri tók við sem formaður voru, uppreiknaðar miðað við verðlag, 420 milljónir samkvæmt ársreikningi. Fullyrðing fyrrum framkvæmdastjóra um að eignir félagsins hafi tífaldast í hans stjórnartíð er því röng.


Heilum 37 mínútum áður en síðasti aðalfundur BÍ hófst fékk ég fyrst upphringingu þar sem lögmaður bauðst til að upplýsa mig um meintar ávirðingar mínar í skýrslu KPMG sem kynna átti á aðalfundinum. 

SATT

KPMG og stjórn BÍ mátu það sem svo að þar sem eingöngu væri verið að skoða færslur í bókhaldi félagsins væri ekki þörf á því að leita á þeim sérstakra skýringa. Hjálmari var hins vegar gefið færi á að gefa skýringar í kjölfar niðurstöðu skoðunar LOGOS á hugsanlegri refsiábyrgð hans, sem Hjálmar nýtti með því að senda stjórn bréf þann 6. júní 2024. LOGOS mat skýringar Hjálmars með þeim hætti að þær breyttu ekki þeirri niðurstöðu lögmannsstofunnar að háttsemi hans í starfi hafi mögulega verið refsiverð og að heimildarlausar lánveitingar hans til sjálfs síns geti mögulega talist fjárdráttur.


Svokölluð skýrsla KPMG er síðan send til allra félagsmanna BÍ í kjölfarið. Þegar ég óskaði eftir því að skýringar mínar væru einnig sendar félagsmönnum var því hafnað alfarið og einnig beiðni minni um að birta þær vefsvæði félagsins.

SATT

Er það eindregin afstaða stjórnar að póstlisti félagsins og vefur skuli eingöngu notaður til tilkynninga frá félaginu sjálfu.


Ég hef aldrei fengið greiddan yfirvinnutíma eða orlofsdag hjá félaginu, hvað þá 10 milljónir, eins og nú virðist tíðkast.

ÓSATT

Félagið hefur greitt Hjálmari út þriggja mánaða orlof hans í samræmi við kjarasamning og óskir Hjálmars þar um. Þá hafði Hjálmar svigrúm og sjálfdæmi um það allan sinn starfstíma að taka sér sumarfrí og önnur orlof. Loks var gert upp við Hjálmar, með síðustu launagreiðslu, allt orlof næstliðins og líðandi orlofsárs, og hann látinn njóta alls vafa um það hvort hann hefði nýtt einhverja orlofsdaga á sama tímabili. Launakjör Hjálmars tóku mið af tilfallandi álagstímum í starfi og hvorki fyrr né síðar hefur hann farið fram á yfirvinnugreiðslur né sýnt fram á að hann hafi unnið meira en hann fékk greitt fyrir með sínum föstu launakjörum.