- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
§ 1 Til viðurkenningar fyrir framúrskarandi frammistöðu og gott fordæmi í íslenskri fjölmiðlun veitir Blaðamannafélag Íslands Blaðamannaverðlaun ársins á hverju ári. Verðlaunin greinast í fernt og eru hverju sinni kennd við viðkomandi ár: - Rannsóknarblaðamennska ársins - Besta umfjöllun ársins - Blaðamannaverðlaun ársins - Viðtal ársins. Veitt eru heiðursskjöl fyrir hvern flokk, minjagripur og vegleg peningaverðlaun sem stjórn Blaðamannafélags Íslands ákveður. Viðurkenningarnar eru veittar á hverju ári í öllum flokkum, svo fremi dómnefnd telji að tilnefningarnar séu þess virði.
§ 2 Dómnefnd úthlutar ekki síðar en 1. maí ár hvert viðurkenningum Blaðamannafélags Íslands fyrir bestu umfjöllunina og bestu rannsóknarblaðamennskuna á árinu á undan. Blaðamannaverðlaun ársins eru veitt fyrir eftirtektarverða framgöngu á sviði íslenskrar fjölmiðlunar. Dómnefnd má úthluta viðurkenningum til einstaklings eða skilgreinds starfshóps (ritstjórnar eða samstarfshóps), eftir því sem henni þykir við eiga. Verðlaunahæf blaðamennska fjallar um aðkallandi málefni, er góð að efni og formi, sanngjörn og traust. Dómnefndarfulltrúar geta ekki sjálfir þegið viðurkenningar Blaðamannafélags Íslands. Dómnefndinni ber að hafa sérstaka aðgát við mat á fjölmiðlaefni sem sætir kæru sem ekki hefur verið til lykta leidd.
§ 3 Stjórn Blaðamannafélags Íslands skipar fimm fulltrúa í dómnefnd, þar á meðal formann hennar, til að veita viðurkenningar Blaðamannafélags Íslands fyrir árið 2003 en upp frá því er dómnefndin kosin á venjulegum aðalfundi félagsins einu sinni á ári. Formaður hennar skal sérstaklega kosinn.
§ 4 Hver sem er má tilnefna fjölmiðlaumfjöllun og fjölmiðlamann/menn til Blaðamannaverðlauna ársins. Tillögur (dómnefndarmanna eða annarra) skulu hafa borist dómnefndinni ekki síðar en mánuði áður en viðurkenningarnar eru veittar. Blaðamannafélag Íslands skal með tryggilegum hætti auglýsa þann frest með hæfilegum fyrirvara. Tilnefningarnar skulu sendar skrifstofu Blaðamannafélags Íslands skriflega, sem jafnframt, þegar þörf krefur, aflar upplýsinga og gagna um hið tilnefnda, þar á meðal hver eða hverjir séu höfundar þess. Dómnefnd eru kynntar tillögurnar en ekki hverjir tilnefndu. Dómnefnd ákveður hvernig tilnefningarnar eru flokkaðar. Hún kýs þrjár bestu tilnefningarnar í hverjum flokki sem endanlega verður valið á milli. Þessar tilnefningar verða gerðar opinberar. Niðurstaða dómnefndar er trúnaðarmál þangað til verðlaunin eru veitt. Dómnefndin skal rökstyðja val sitt skriflega en þarf ekki að rökstyðja hvers vegna tilnefningum var hafnað. Dómnefndin skal hafa ríkt í huga þá hvatningu sem verðlaunin eiga að veita og taka eftir föngum tillit til starfsaðstæðna hinna tilnefndu.
§ 5 Tilnefningar, sem ekki verða gerðar opinberar skv. grein 4, sem og umræður á fundum dómnefndarinnar, eru trúnaðarmál. Í fundargerðum skulu eingöngu ákvarðanir skráðar.
§ 6 Við endanlegt val á verðlaunahöfum hafa atkvæðisrétt eingöngu þeir dómnefndarfulltrúar sem mættir eru. Í fyrstu umferð atkvæðagreiðslu skal einn hinna þriggja tilnefndu í hverjum flokki felldur út og í annarri umferð skal kosið milli hinna tveggja sem eftir eru. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður en verði jafntefli ræður atkvæði formanns.
§ 7 Val dómnefndar er endanlegt og verður ekki áfrýjað.