- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Samstaða, uppbygging og stór verkefni hafa einkennt tímabil þessarar stjórnar Blaðamannafélags Íslands sem nú kynnir skýrslu sína fyrir starfsárið 2023 til 2024.
Stjórn félagsins var kjörin á aðalfundi félagsins þann 23. mars. Í stjórn síðastliðið starfsár ár hafa setið Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður, Aðalsteinn Kjartansson varaformaður, Stígur Helgason gjaldkeri, Lovísa Arnardóttir ritari og meðstjórnendurnir Bára Huld Beck, Kristín Ólafsdóttir og Sólrún Lilja Ragnarsdóttir. Auk þess hafa Elísabet Inga Sigurðardóttir og Ragna Gestsdóttir tekið þátt í starfi stjórnar sem varamenn og Tryggvi Aðalbjörnsson formaður Félags fréttamanna og Vilhelm Gunnarsson formaður Blaðaljósmyndarafélagsins sem áheyrnarfulltrúar.
Auk stjórnar hefur á fjórða tug félagsmanna tekið virkan þátt í starfi félagsins með setu í stjórnum og nefndum.
Stjórn félagsins var kjörin á aðalfundi félagsins þann 23. mars. Í stjórn síðastliðið starfsár ár hafa setið Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður, Aðalsteinn Kjartansson varaformaður, Stígur Helgason gjaldkeri, Lovísa Arnardóttir ritari og meðstjórnendurnir Bára Huld Beck, Kristín Ólafsdóttir og Sólrún Lilja Ragnarsdóttir. Auk þess hafa Elísabet Inga Sigurðardóttir og Ragna Gestsdóttir tekið þátt í starfi stjórnar sem varamenn og Tryggvi Aðalbjörnsson formaður Félags fréttamanna og Vilhelm Gunnarsson formaður Blaðaljósmyndarafélagsins sem áheyrnarfulltrúar.
Auk stjórnar hefur á fjórða tug félagsmanna tekið virkan þátt í starfi félagsins með setu í stjórnum og nefndum.
Blaðamannafélagið réðst í vitundarherferð í mars og apríl. Blaðamennska hefur aldrei verið mikilvægari - en á sama tíma er hart sótt að blaðamönnum og blaðamennsku, jafnt hér á landi sem víða um heim. Eitt af markmiðum herferðarinnar var að veita almenningi innsýn í störf blaðamanna og vinnubrögð með það fyrir augum að auka skilning fólks á því hvers vegna blaðamennska og frjálsir fjölmiðlar eru forsenda upplýsts samfélags og lýðræðis. Annar hluti herferðarinnar er áætlaður í haust, og þá verður áherslan á að hvetja fólk til að gerast áskrifendur að fjölmiðlum, auglýsendur til að auglýsa í innlendum miðlum og stjórnvöld til að styðja betur við fjölmiðla og blaðamenn.
Við, blaðamenn þurfum að vera ófeimin við að tala um blaðamennsku og mikilvægi hennar, því ef við gerum það ekki sjálf, gerir það enginn. Við í stjórn hvetjum ykkur til að halda áfram að deila myndböndunum með viðtölunum við blaðamenn og auglýsingunni okkar á samfélagsmiðlum, en líka að deila ykkar sögum og reynslu af starfinu.
Blaðamannaverðlaunin 2023 voru haldin með breyttu sniði að þessu sinni. Verðlaunin voru afhent á Kjarvalsstöðum og sýnd í beinu streymi bæði á Vísi og Mbl.is. Fyrirlesarinn dr. Richard Fletcher rannsóknarstjóri hjá Reuters Institute var fenginn til að flytja erindi um stöðu blaðamennsku í breyttum heimi áður en afhending verðlauna hófst.
Metmæting var á verðlaunaafhendinguna og voru yfir hundrað manns þegar mest var auk þess sem um 2500 horfðu í gegnum streymi. Bryddað var upp á þeirri nýbreytni að verðlaunahafar héldu stutta ræðu um leið og þeir veittu verðlaunum viðtöku.
Viðburðurinn var vel heppnaður og lýstu félagsmenn mikilli ánægju með verðlaunakvöldið, þar sem vitundarherferð BÍ var einnig hleypt af stokkunum. Undanfarin ár hefur tilnefndum verið boðið út að borða, en í ár var boðið upp á veitingar fyrir alla viðstadda í staðinn.
Hjálmari Jónssyni fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins var sagt upp störfum þann 10. janúar síðastliðinn, eftir ályktun stjórnar á fundi sínum þann 9. janúar sem hljóðaði svo:
Stjórn ályktar að ekki verði lengra komist í samstarfi stjórnar við núverandi framkvæmdastjóra. Upp sé kominn óbrúanlegur trúnaðarbrestur og því sé nauðsynlegt að hann hætti störfum svo tryggja megi viðunandi starfsskilyrði á skrifstofu félagsins. Þá geti stjórn ekki unnið áfram þau verkefni hún hefur sett sér í starfsáætlun við óbreyttar aðstæður. Formanni og varaformanni er því falið að bjóða núverandi framkvæmdastjóra starfslokasamning en ella segja honum upp störfum og afþakka frekara vinnuframlag hans.
Aðdragandi þessarar ákvörðunar stjórnar var töluvert langur. Allt frá vori 2023 þegar unnar voru starfslýsingar fyrir skrifstofu félagsins hafði verið rætt um það óformlega að Hjálmar Jónsson myndi hætta sem framkvæmdastjóri og staðan yrði auglýst. Núverandi formaður hafði reyndar skýrt frá því á framboðsfundi árið 2021, í aðdraganda kjörs hennar, að til stæði að auglýsa stöðu framkvæmdastjóra, en afráðið var að bíða með þau áform þar til framkvæmdastjóri var orðinn 67 ára. Í aðdraganda þeirra tímamóta áttu formaður félagsins og framkvæmdastjóri félagsins samtöl um þessar breytingar.
Á fundi stjórnar þann 31. ágúst 2023 voru starfslýsingar framkvæmdastjóra, skrifstofustjóra og verkefnastjóra lagðar fram og ræddar. Stjórn BÍ samþykkti svo einróma á fundi sínum þann 19. september að auglýsa stöðu framkvæmdastjóra innan tveggja vikna og að gera nýjan ráðningarsamning við Hjálmar Jónsson á grundvelli gildandi samnings, en með breyttri starfslýsingu og titli.
Stjórn fundaði að nýju 5. október og var eina mál á dagskrá þess fundar fyrirhuguð ráðning nýs framkvæmdastjóra og viðræður við Hjálmar um áframhaldandi störf fyrir félagið.
Þann 2. október sendi Hjálmar bréf til stjórnar þar sem hann lýsir því að stjórnarkreppa sé í félaginu. Á fundi stjórnar þann 18. október dreifði Hjálmar bréfi sínu og opnar á samtal um innihald bréfsins.
Til að gera langa sögu stutta þá voru málefni skrifstofu, starfslýsing Hjálmars og óánægja hans með ráðningu nýs framkvæmdastjóra aðalumfjöllunarefni alls níu stjórnarfunda frá því í september og fram í janúar, þar til gengið var frá starfslokum Hjálmars.
Líkt og lesa má út úr fundargerðum, sem birtar eru undir mínum síðum á vef félagsins, reyndi stjórn sitt ítrasta til að ná samningum við Hjálmar um að taka að sér nýtt starf með breyttri starfslýsingu en sömu kjör. Þær umleitanir gengur ekki eftir og því sá stjórn ekki aðra leið en að bjóða honum starfslokasamning, sem hann hafnaði. Úr varð að fyrrverandi framkvæmdastjóra var sagt upp störfum, eftir að hann hafnaði starfslokasamningi og allar tilraunir stjórnar til samtals við hann um framhald starfa hans fyrir félagið, höfðu runnið út í sandinn.
Hjálmar vann óeigingjarnt starf í þágu blaðamanna og félagsins í áratugi og félagsmenn eiga honum margt að þakka. Hann var ávallt reiðubúinn að aðstoða félagsmenn í stóru sem smáu og reyndist mörgum vel í erfiðum málum, ekki síst í málum sem varða réttindi blaðamanna gagnvart atvinnurekendum. Við þökkum honum framlag hans til félagsins.
Í ljósi þess hve illa hefur gengið fyrir stjórn að fá upplýsingar um rekstur og fjárreiður félagsins er lagt til að láta fara fram sjálfstæða skoðun þrjú ár aftur í tímann og að óháður sérfræðingur verði fenginn í verkið.
Svona hljóðar tillaga sem var lögð fram og samþykkt einróma á fundi stjórnar þann 12. janúar sl.
Eftir að óháður bókari sem fenginn var til verksins hafði rýnt í bókhald síðustu þriggja ára var ákveðið, skv. ráðgjöf bókara, að lengja tímabilið sem skoðunin tók til og fara áratug aftur í tímann. Að lokinni þeirri yfirferð var niðurstöðum skilað til endurskoðunarfyrirtækisins KPMG sem skilaði svo skýrslu til stjórnar skömmu fyrir aðalfund og gert verður grein fyrir á aðalfundi.
Á starfsárinu voru tveir starfsmenn í fullu starfi hjá félaginu, Hjálmar Jónsson framkvæmdastjóri og Jóna Th. Viðarsdóttir skrifstofustjóri. Auk þess var Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður í 30% starfi fram til 1. júní, þegar stjórn samþykkti að auka starfshlutfall hennar í 50% vegna aukinna verkefna félagsins. Eftir brotthvarf framkvæmdastjóra ákvað stjórn að semja við formann um að gegna 100% starfi hjá félaginu tímabundið fram að aðalfundi. Þá var Auðunn Arnórsson verkefnastjóri á launum hjá félaginu fram í maí og Eyrún Magnúsdóttir hefur verið verkefnastjóri frá því stjórn samþykkti að fá hana til starfa í október, en hún er með tímabundinn verktakasamning við félagið fram að aðalfundi.
Auglýst var eftir nýjum framkvæmdastjóra Blaðamannafélagsins í febrúar síðastliðnum. Lögð var áhersla á faglegt ráðningarferli og var fyrirtækið Góð samskipti fengið til að sjá um ráðninguna. Áður hafði verið ráðist í gerð starfslýsingar fyrir starf framkvæmdastjóra.
Umsækjendur um starf framkvæmdastjóra voru tæplega 30 talsins. Af þeim voru 11 kallaðir í viðtal, sex fóru áfram í aðra umferð og þrír einstaklingar voru kallaðir í þriðja viðtal. Að loknu vönduðu ferli þar sem umsækjendur þurftu að leysa ákveðin verkefni og kynna sína sýn fyrir félagið var ákveðið að bjóða Freyju Steingrímsdóttur starf framkvæmdastjóra. Hún kemur til starfa á skrifstofu félagsins í lok maí næstkomandi.
Gagnger endurskoðun hefur farið fram á umgjörð og regluverki í kringum starfsemi félagsins. Stjórn BÍ hefur samþykkt að leggja fyrir aðalfund tillögur að breytingum að lögum félagsins. Þá hafa stjórnir sjóða félagsins einnig endurskoðað reglugerðir og úthlutunarreglur til að auka skýrleika og gagnsæi í því hvernig fjármunum sjóðanna er úthlutað og tryggja að samræmis og sanngirni sé gætt við úthlutanir.
Starfsreglur hafa verið settar um starfsemi skrifstofu BÍ. Reglurnar eru settar í þeim tilgangi að búa til skýrari ramma utan um starf félagsins og tryggja að farið sé eftir lögum og reglum félagsins og að hagsmuna félagsmanna sé gætt í hvívetna.
Á fundi stjórnar þann 4. maí 2023 fór fram umræða um fjármál styrktarsjóðs og spurt um réttindi lífeyrisþegar, sem ekki greiða í sjóði félagsins. Framkvæmdastjóri skýrði frá því að stjórn styrktarsjóðs hefði nýverið ákveðið að allir félagsmenn haldi réttindum í 5 ár eftir að viðkomandi hætti að greiða félagsgjöld. Telja skuli frá 1. janúar 2023 fyrir þá sem þegar eru í þessari stöðu. Stjórn styrktarsjóðs hafi samþykkt þessa tilhögun. Við nánari athugun hjá stjórn styrktarsjóðs kom í ljós að núgildandi reglur sjóðsins heimila ekki greiðslur til þeirra sem ekki greiða í sjóðinn.
Það voru mikil vonbrigði fyrir félagið þegar lögreglustjórinn á Suðurnesjum hindraði aðgengi blaðamanna að Grindavík sl haust. Félagið ákvað því að leita réttar síns og höfða mál á hendur ríkinu til að fá rétt blaðamanna til aðgengis að hættusvæðum viðurkenndum. Málinu lauk með sátt sem undirrituð var í byrjun apríl. Í millitíðinni hafði Blaðamannafélagið boðið lögreglustjóranum til samtals á fundi í húsakynnum félagsins þann 28. febrúar. Þar fengu félagsmenn tækifæri til að spyrja út í aðgengishindranir og lýsa skoðunum sínum milliliðalaust. Í framhaldi af fundinum tók félagið saman minnisblað með tillögum að útfærslu á auknu aðgengi félagsmanna að hættusvæðum. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum og Blaðamannafélag Íslands gerðu með sér samkomulag um að félagið gefi út sérstaka blaðamannapassa sem nýtast þegar farið er inn á hættusvæði. Gefnir voru út 50 passar og dreift á þá miðla sem mest hafa farið á vettvang eldgosa auk þess sem félagið er með passa til að deila út til sjálfstætt starfandi félagsmanna.
Samkomulagið var unnið í nánu samstarfi við fréttastjóra allra stærstu fjölmiðla landins, blaðamenn og ljósmyndara. Almenn ánægja ríkir með samkomulagið sem hefur orðið til þess að blaðamenn hafa nú nær óheft aðgengi að hættusvæðinu gegn framvísun sérstakra passa sem BÍ gefur út og heldur utan um. Stærsti sigurinn í þessu máli - sem félagið vonar að verði fyrirmynd að því hvernig aðgengi blaðamanna að vettvangi verður háttað í framtíðinni - er að í því er blaðamönnum tryggt að minnsta kosti jafnmikið aðgengi og öðrum viðbragðsaðilum. Í samkomulaginu felst því ákveðin viðurkenning á hlutverki blaðamanna og fréttamiðla í neyðarástandi eða hættuástandi - sem við teljum ákveðið grundvallaratriði.
Samningaráð BÍ ákvað þann 22. mars að vísa kjaradeilu til embættis Ríkissáttasemjara svo ljúka megi gerð kjarasamnings við Samtök atvinnulífsins svo fljótt sem verða má. Stór hluti vinnumarkaðarins hefur lokið gerð kjarasamninga þar sem launastefna fyrir almennan vinnumarkað var mörkuð. Samkvæmt þeim samningum hækka laun almennt frá 1. febrúar afturvirkt um 3,25%, þó að lágmarki kr. 23.750. Laun munu hækka um 3,5% til viðbótar þann 1. janúar 2025, 2026 og 2027. Samningarnir eru gerðir til fjögurra ára. Í þeim var einnig samið um aukinn orlofsrétt og hækkun á desember- og orlofsuppbót.
Samningaráð BÍ er sammála um að leggja áherslu á í kjaraviðræðum að ná að minnsta kosti sambærilegum hækkunum. Samningaráð sér ennfremur sóknarfæri í því að ná fram frekari kjarabótum í þessari lotu en fundalota er hafin hjá ríkissáttasemjara. Vegna vensla lögmanns BÍ félagsins við ríkissáttasemjara var skipaður sérstakur ríkissáttasemjari í deilunni, Aðalsteinn Leifsson.
Strax á fyrsta fundi nýrrar stjórnar var rætt um að hefja undirbúning að stofnun samfélagssjóðs fyrir blaðamenn, sem unnið hefur verið að í tíð þessarar stjórnar. Sjóðurinn ber nafnið Glætan og er hlutverk hans að styrkja samfélagslega mikilvæga blaðamennsku. Mikil vinna hefur farið fram við að undirbúa stofnun sjóðsins, félag um hann hefur formlega verið stofnað, skipulagsskrá verið samþykkt og reglur sjóðsins og handbók fyrir úthlutun hafa verið unnar. Vonir standa til þess að sjóðnum verði komið af stað síðar á þessu ári.
Hér hefur ekki eingöngu verið tekið til í regluverki og umgjörð um starfsemi félagsins heldur hefur einnig verið farið í bókstaflega tiltekt og endurskipulagningu skrifstofu og salar. Ný húsgögn hafa verið keypt í sal félagsins, sem verður vonandi til þess að skapa notalegt rými fyrir félagsmenn, hvort sem er þegar þeir koma í heimsókn (öll alltaf velkomin), sækja viðburði á vegum félagsins eða nýta salinn til eigin viðburða eða veisluhalda. Salurinn var málaður í mildari lit og einnig gamla salinn, sem nú er nýttur undir skrifstofurými. Viðbrögð félagsmanna hafa verið mjög ánægjuleg og gaman að sjá að félagsmenn staldra mun lengur við og spjalla saman að loknum skipulögðum viðburðum en áður, sem er akkúrat það sem við vorum að vonast eftir.
Þá hefur fulltrúi Blaðaljósmyndarafélagsins tekið að sér að setja upp nýja ljósmyndasýningu í húsnæði félagsins, með ágripi af myndum úr sögu blaðaljósmyndunar á Íslandi. Vonast er til þess að því verkefni verði lokið fyrir sumarið.
Einnig er ánægjulegt að segja frá því að Þjóðskjalasafn Íslands hefur samþykkt að taka gögn félagsins til skráningar og varðveislu. Undirbúningur afhendingu skjalasafns BÍ stendur nú yfir og verður tilkynnt um nánari útfærslu þess verkefnis þegar efni standa til.
Loks er rétt að minnast á helstu viðburði og fundi sem félagið hefur staðið fyrir frá áramótum:
Janúarlok: Heimsóknir á vinnustaði. Formaður og lögmaður BÍ, Oddur Ástráðsson, heimsóttu stærstu ritstjórnir og kynntu stöðuna í kjaraviðræðum og ræddu málefni félagsins
5. feb: Minningarstund um þá fjölmörgu blaðamenn og starfsmenn fjölmiðla sem fallið hafa í átökunum á Gaza.
5. feb: Hvernig blaðamannafélag vilt þú? Félagsfundur og vinnustofur um málefni félagsins og stefnumótun.
28. feb: Fundur blaðamanna með lögreglustjóranum á Suðurnesjum
1. mars: Hádegisverðarfundur með Anya Schiffrin, forstöðumanns tækni, fjölmiðla- og samskiptadeildar Columbia University‘s School of International and Public Affairs í New York, um stöðu og framtíð blaðamennsku.
15. mars: Afhending blaðamannaverðlaunanna 2023. Gestafyrirlesari var Richard Fletcher, rannsóknarstjóri Reuters Institute for the Study of Journalism, sem hélt stutt erindi um breytingar á fréttaneyslu og áhrif þeirra á blaðamennsku og lýðræðið.
Ályktanir sem félagið hefur gefið út eru einnig þónokkrar og hér er birt yfirlit yfir þær.
https://www.press.is/is/um-felagid/utgefid-efni/frettir/alyktun-bi-vegna-gjaldthrots-torgs
https://www.press.is/is/um-felagid/utgefid-efni/frettir/island-faerist-nidur-fjolmidlafrelsislista
https://www.press.is/is/um-felagid/utgefid-efni/frettir/kallardu-thetta-jafnretti
https://www.press.is/is/um-felagid/utgefid-efni/frettir/bi-fordaemir-drap-a-bladamonnum
https://www.press.is/is/um-felagid/utgefid-efni/frettir/dronabanni-motmaelt
F.h. stjórnar,
Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður