- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Blaðamannafélag Íslands er stofnað 19. nóvember 1897 á Hótel Borg í Reykjavík. Til fundarins var boðað af Jóni Ólafssyni sem þá var ritstjóri Nýju aldarinnar. Vilhjálmur Þ. Gíslason segir þó í grein í Blaðamannabókinni frá 1948 að Bríet Bjarnahéðinsdóttir hafi átt hugmyndina að stofnun félagsins. Nafn hennar er meðal sjö stofnfélaga í fyrstu fundargerðum, en allt eru þetta ritstjórar og útgefendur. Tilgangur félagsins var að styðja við blaðamennskuna sem starfsgrein og auka viðkynningu milli félagsmanna og "styðja heiðvirðleik og ráðvendni í blaðamennsku", auk þess að vinna að öðrum sameiginlegum hagsmunamálum. Meðal mála sem félagið lét til sín taka var tungumálið. Þannig var gerð tilraun til að samhæfa stafsetningu í blöðunum og gefin út sérstök stafsetningarorðabók í því skyni, sem Björn Jónsson skrifaði. Ekki voru menn þó á eitt sáttir í þeim efnum og mun stafsetningarmálið hafa orðið til þess að Þorsteinn Gíslason var rekinn úr félaginu. Greinilegt er þó af skrifum ýmissa stofnfélaga misserin áður en félagið er stofnað, að einn megintilgangur félagins hafi verið að koma böndum á þá oðræðu sem í gangi var milli blaða og ristjóranna. Þetta birtist m.a. í mikilli reglusmíð félagsmanna um hvað mátti segja og hvað ekki í umræðunni og skuldbundu félagar sig til að leita ekki til dómstóla með meiðyrði hver gegn öðrum. Hins vegar setti félagið sjálft upp úrskurðarkerfi og reglur, sem áttu að skera úr um ágreining þeirra í milli. Segja má að þetta hafi veri eins konar vísir að siðareglum sem sagðar voru nauðsynlegar vegna þess að löggjöfin um prentmál sem þá gilti var svo ófullkomin. Fundir voru haldnir viku eða hálfsmánaðarlega í herbergi í Iðnaðarmannahúsinu og var þar fyrst og fremst rætt um landsins gagn og nauðsynjar. Á þessum tíma var félagið í raun fyrst og fremst klúbbur og samræðuvettvangur starfandi ritstjóra og útgefenda.
Lítið er vitað um stafsemi Blaðamannafélagsins fram eftir 20. öldinni og líklegt að það hafi um einhvern tíma lagst í dvala. Fundargerðarbækur hafa ekki fundist en þó má greina á frásögnum manna eins og Vilhjálms Þ. Gíslasonar í Blaðamannabókinni 1948 að félagið var starfandi sem eins konar klúbbur. Vilhjálmur nefnir t.d. að það hafi verið fyrir milligögnu Blaðamannafélagsins, sem landkynningarstarfsemi fyrir erlenda fréttamenn var unnin upp fyrir Alþingishátíðina 1930 og telur hann að félagið hafi átt drjúgan þátt í því að umfjöllun um land og þjóð erlendis hafi almennt verið góð og upplýst.
En séu fundargerðarbækur skoðaðar þá er ljóst að talin var ástæða til að endurreisa félagið á sérstökum fundi á Hótel Borg í október 1934 og er tilganginum þá lýst þannig að félagið eigi "að vinna að sameiginlegum áhugamálum blaðamanna og bæta aðstæður þeirra til að vinna störf sín." ( Þröstur Haraldsson, 1987) Þarna voru líka komin ákvæði um að félagsmenn skuli vera blaðamenn í aðalstarfi. Hagsmunabarátta blaðamanna var augljóslega að fá stærri sess hjá félaginu eins og sést t.d. á umræðum úr fundargerðarbókum um nauðsyn þess að fá betri aðstöðu í þinghúsinu.
Þessi endurstofnun virðist þó ekki hafa lífgað félagið við varanlega, því aðeins þremur árum seinna er félagið endurreist í annað sinn samkvæmt samantekt Þrastar Haraldssonar á fundargerðum í afmælisútgáfu Blaðamannsins árið 1987. Enn verður hlé á formlegu félagsstarfi fram til 1942 þegar þráðurinn er tekinn upp að nýju, en síðan hefur verið samfella í starfi félagsins. Alltént er ljóst að félagið hefur verið með einhverju lífsmarki þann tíma er fundargerðir skortir, en virkni þess þó e.t.v. verið mest ef og þegar íslenskir blaðamenn sem stétt þurftu að eiga samskipti við útlönd og erlend félög.
Fyrstu árin eftir endurreisnina 1942 virðist félagið fyrst og fremst hafa verið " svona heldur fínn klúbbur ritstjóra og málsmetandi manna í samfélaginu," svo notað sé orðalag Þrastar Haraldssonar í afmælisblaði Blaðamannsins árið 1987. Baráttumálin snerust um að afla fríðinda fyrir blaðamennina og jafnvel að greiða fyrir aðtriðum sem tengdust rekstri s.s. að lækka símakostnað. Það var hins vegar í lok seinna stríðsins sem kjaramál blaðamanna komast á dagskrá og Blaðamannafélagið skrifar undir sinn fyrsta kjarasamning árið 1946. Kjaramál hafa verið áberandi í starfi félagsins æ síðan. Meðal mikilvægra mála sem félagið náði fram á þessu tímaskeiði flokksmiðlunar er greiðsla í sérstakan sjóð til að styrkja blaðamenn til utanfarar, að greitt var fyrir eftirvinnu, að blaðamenn fengu greitt hálft afnotagjald af síma, ½ % af launum fór í Menningarsjóð og sumarfrí voru lengd um 3 daga og urðu 18 dagar. Launa- og réttindabaráttuhlutverk félagsins hefur síðan verið annað helsta hlutverk þess og félagið hefur byggt upp og staðið vörð um kjör og rétt félagsmanna á ýmsum sviðum, í launabaráttu, í höfundaréttarmálum og í tækifærum til að stunda endurmenntun. Hitt megin hlutverk félagsins kom hins vegar skýrar fram þegar komið var inn á tímabil hinnar hörfandi flokksfjölmiðlunar og þó sérstaklega tímabil markaðsfjölmiðlunar. Þetta var hið faglega hlutverk félagsins.
Árið 1958 var sú regla tekin upp að formennska í Blaðamannaféalginu færðist árlega milli einstaklinga á mismunandi fjölmiðlum. Þessi venja hélst allt til 1978 þegar farið var að kjósa formenn á félagsfundi í almennri kosningu. Sú breyting rímar vel við fleiri breytingar sem voru að verða í félaginu. Vilji var til þess að láta félagið verða öflugra fagfélag samhliða því að efla það sem stéttafélag. Í framhaldinu var svo ráðinn var inn framkvæmdastjóri árið 1980. Áratug áður, eða um miðjan sjöunda áratuginn hafði félagið komið sér upp sérstakri siðanefnd sem úrskurðaði um brot á siðareglum sem félagið kom sér upp samhliða. Siðareglurnar og siðanefndin voru eitt mikilvægasta skrefið í mótun sjálfsmyndar og meðvitundar íslenskra blaðamanna um sig sem fagstétt. Rétt er að benda á að mótun og styrking félagsins sem fagfélags hélst í hendur við aukið sjálfstæði ritstjórna gagnvart stjórnmálaöflunum og áherslu á almannahagsmuni á tímabili hörfandi flokksmiðlunar. Siðareglurnar hafa verið endurskoðaðar og úrvinnslukerfið lagfært nokkrum sinnum, en í grundvallarariðum standa upprunalegu reglurnar enn. (Róbert H. Haraldsson 2006) Útgáfa á Blaðamanninum, fagriti félagsins, fer af stað í kjölfar breytinganna á stjórnarkjöri og starfsháttum félagsins og margvíslegar tilraunir og tilboð komu fram um endurmenntun og samskipti við erlenda kollega, þar sem félagið lagði áherslu á fagfélagslegt hlutverk sitt. Orð Elíasar Snælands Jónssonar þáverandi ritstjóra DV í afmælisútgáfu Blaðamannsins 1987 lýsa vel hugmyndum og áherslum félagsins á síðustu tveimur áratugum síðustu aldar. Elías sagði þar: "Félagið á að efla faglegan metnað blaðamanna, halda uppi umræðum um starfið og ýmis "prinsippmál" okkar. Þetta hlutverk verður æ mikilvægara eftir því sem samkeppnin harnðar. Hún hefur það að í för með sér að blaðamenn þurfa að taka erfiðar ákvarðanir á æ skemmri tíma. Samtímis hafa árásir á fjölmiðlamenn farið vaxandi og því haldið frram að þeir séu ekki vandanum vaxnir. Þetta á félagið að taka til umræðu." ( Elías Snæland Jónsson, 1987)
Fjöldi þeirra sem vinnur við fjölmiðlun hefur margfaldast á tíma markaðsfjölmiðlunar. Félagið sem stofnað var af sjö manns á Hótel Borg telur nú næstum hundraðfalda tölu stofnenda, eða á sjöunda hundrað manns. Hröðust hefur fjölgunin verið á síðustu árum. Þetta endurspeglar breytt þjóðfélag og nýjar áskoranir fyrir Blaðamannafélagið. Markaðsvæðingin og hreyfanleiki á vinnumarkaði fjölmiðlanna hefur kallað á aukna hagsmuna- og réttindagæslu fyrir þá sem starfa í faginu – hvort sem það er á sviði launa, starfsréttinda eða höfundaréttar. Stéttarfélagsþátturinn í starfsemi félagsins hefur því öðlast nýtt mikilvægi. Að þessu leyti á Blaðamannafélagið algera samleið með sambærilegum félögum í nágrannalöndunum sem starfa í sams konar umhverfi. Hinn meginþátturinn, hin faglega áhersla í starfsemi félagsins, hefur ekki síður vaxið í mikilvægi á tímaskeiði markaðsfjölmiðlunarinnar. Mikið hefur verið lagt í það atriði af hálfu félagsins. Þannig hefur verið stofnað til Blaðamannaverðlauna til að draga athygli að því sem vel er gert og auka almennan faglegan metnað. Vefsíðu- og útgáfustarfsemi stefnir að sama marki sem og fjölmargar ráðstefnur og pressukvöld um álitamál líðandi stundar.
(-BG)