Málsmeðferðarreglur siðanefndar

Málsmeðferðarreglur

Hver sá sem telur að blaðamaður hafi brotið framangreindar reglur og á hagsmuna að gæta, getur kært ætlað brot til Siðanefndar BÍ innan 2ja mánaða frá birtingu enda sé mál vegna birtingarinnar ekki rekið fyrir almennum dómstólum á sama tíma. Áður skal hann þó leita leiðréttingar mála sinna hjá viðkomandi fjölmiðli. Þó getur Siðanefnd úrskurðað um undanþágur frá leiðréttingarkröfum vegna annarra aðstæðna.

Kærur til Siðanefndar skulu vera skriflegar og berast skrifstofu Blaðamannafélags Íslands. Kæruefni skal vera afmarkað með augljósum hætti. Afrit af kærðri umfjöllun prentmiðils eða eftirrit kærðs efnis (eða virk vefslóð) í útvarpi, sjónvarpi eða vefmiðli skal fylgja kæru.

Siðanefndin tekur kæruna fyrir á fundi innan tveggja vikna

Taki Siðanefnd kærumál til efnislegrar athugunar skal hún kanna heildarumfjöllun um málið í hinum kærða fjölmiðli. Kærða skal gefinn kostur á að gera grein fyrir sjónarmiði sínu.

Siðanefnd kveður upp rökstuddan úrskurð svo fljótt sem kostur er.

Siðanefnd greinir brot í flokka eftir eðli þeirra:

a) ámælisvert

b) alvarlegt

c) mjög alvarlegt

Úrskurði Siðanefndar verður ekki áfrýjað. Úrskurð Siðanefndar ásamt rökstuðningi skal birta í heild á vef Blaðamannafélagsins svo fljótt sem verða má. Úrskurð Siðanefndar skal senda viðkomandi fjölmiðli við fyrsta hentugleika og með ósk um birtingu ef um brot samkv. skilgreiningu b) og c) er að ræða. Þremur dögum seinna skal senda úrskurðinn öðrum fjölmiðlum.

Meginniðurstaða nefndarinnar skal birt orðrétt. Við framsetningu frétta af úrskurðum Siðanefndar sýna blaðamenn alla þá aðgát sem siðareglur BÍ ætlast til.

Nú telur stjórn BÍ að gengnum úrskurði Siðanefndar að brot sé svo alvarlegt að frekari ráðstafana sé þörf og getur hún þá borið undir félagsfund tillögu um vítur á viðkomandi blaðamann enda sé þeirrar ætlunar getið í fundarboði.

Nú bera ummæli ekki með sér hver sé höfundur þeirra eða viðkomandi blaðamaður er utan BÍ og gengur þá úrskurður svo sem ritstjóri og/eða ábyrgðarmaður eigi beina aðild að. Þótt enginn þessara aðila sé í BÍ getur Siðanefnd allt að einu lagt fram rökstutt álit um kæruefni.

Samþykkt á aðalfundi BÍ 23. mars 2023 

Kærueyðublað