- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Árið hefur einkennst af átökum á mörgum sviðum. Stjórn félagsins hefur lagt sig í frammi við að gæta hagsmuna félaga og stéttarinnar í hvívetna og hefur haldið á lofti mikilvægi blaðamennsku fyrir samfélagið og lýðræðið.
Óvenjumörg tilefni hafa kallað á viðbrögð af hálfu félagsins, ekki síst gagnvart stjórnvöldum, sem hika enn sem áður við að taka afstöðu með fjölmiðlum og blaðamönnum þegar á reynir. Stjórnmálaleiðtogar í lýðræðisríkjum hafa á undanförnu ári verið óþyrmilega minntir á nauðsyn frjálsrar, faglegrar blaðamennsku, á meðan valdamenn í þeim ríkjum sem hneigjast til ólýðræðislegra stjórnarhátta leggja stein í götu frjálsra fjölmiðla, takmarka athafnafrelsi þeirra og ofsækja blaðamenn, meðal annars með hjálp lögreglu.
Íslenskir stjórnmálamenn standa ekki fyrir utan þessi átök. Formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins virðist neita að skilja, líkt og margir kollegar hans, að störf og tjáningarfrelsi blaðamanna njóti ríkrar verndar vegna þess sérstaka hlutverks sem fjölmiðlar gegna með tilliti til opinberrar umræðu í lýðræðisríki. Við sitjum uppi með dómsmálaráðherra, úr sama flokki, sem telur enga ástæðu til að bregðast sérstaklega við þegar blaðamenn eru hindraðir við störf, líkt og gerðist á Keflavíkurflugvelli. Og við þurfum að búa við það að dómarar setji blaðamönnum óásættanlegar og ómálefnalegar skorður hvað varðar fréttaflutning af dómsmálum sem flutt eru fyrir opnum tjöldum.
Stefna stjórnar BÍ í þessum málum er að mótmæla í hvert skipti sem við teljum á félagsmönnum okkar brotið eða vegið sé að faginu eða tjáningarfrelsinu. Við gerum það ígrundað og málefnalega. Einungis þannig eygjum við von um að þau ólýðræðislegu viðhorf sem fengið hafa að enduróma í efstu lögum samfélagsins verði smám saman kaffærð.
Stjórnin hefur sent frá sér fjölda ályktana og bréfa á árinu með aðstoð sérfróðra lögfræðinga á sviði tjáningarfrelsis. Það er okkar mat, að þessi nálgun okkar hafi orðið til þess að vekja athygli á mikilvægi fjölmiðla og hlutverks þeirra í lýðræðissamfélagi, bæði meðal almennings en einnig innan stjórnkerfisins.
Barátta okkar hefur í það minnsta skilað þeim árangri að fulltrúar félagsins hafa átt fundi með lykilaðilum víða í kerfinu þar sem tækifæri hefur gefist til að koma sjónarmiðum okkar á framfæri og koma með tillögur að úrbótum á ýmsum sviðum.
Stjórn mun fylgja þessum fundum markvisst eftir og halda samtalinu áfram, því eitt af því mikilvægasta sem við getum gert til að reyna að knýja fram samstöðu með stéttinni er að miðla og fræða og auka þannig skilning á mikilvægi blaðamennsku. Listi yfir helstu bréf og ályktanir og þá fundi sem fulltrúar stjórnar hafa sótt fyrir hönd félagsins er að finna hér á eftir.
Þó svo að málefnabarátta hafi verið áberandi í starfi félagsins á tímabilinu var stórt hagsmunamál leitt til lykta í lok árs þegar kjarasamningar voru undirritaðir. Líkt og önnur stéttarfélög á vinnumarkaði gerði Blaðamannafélagið skammtímasamning sem var samhljóða samningi SGS og hljóðaði upp á 6,75% hækkun launa yfir 530 þúsundum. Hækkunin var meiri á laun undir 530 þúsundum, mest 8,37%. Samið var um að viðræður vegna næstu samninga hefjist undir eins og þar verður farið yfir kröfugerð BÍ sem lögð var fram fyrir þessar viðræður en SA neitaði að taka til umræðu.
Kröfugerð til grundvallar nýjum viðræðum:
Kröfugerðin byggir á launakönnun sem lögð var fyrir félagsmenn s.l. haust þar sem fram kemur að laun blaðamanna hafi ekki hækkað í samræmi við launavísitölu.
Helstu atriði í kröfugerðinni eru eftirfarandi:
Vinnuhópur blaðamanna hefur undanfarin misseri unnið að endurskoðun siðareglna BÍ og verða tillögur að nýjum reglum lagðar fyrir aðalfund. Tillögurnar eru afrakstur vinnu sem hefur átt langan aðdraganda. Upp úr aldamótum fór að bera á óánægju í stéttinni með tiltekin ákvæði í gildandi siðareglum og var hafist handa við endurskoðun þeirra.
Gagnrýnin laut almennt að því að reglurnar væru ekki nægilega skýrar og vel upp settar og ákvæði þóttu huglæg og matskennd – afstæð – svo sem ákvæði um tillitsemi. Ekki náðist samstaða um breytingarnar og var endurskoðun lögð til hliðar þangað til haustið 2021 þegar nýr formaður hóf þá vinnu að nýju. Öllum starfandi blaðamönnum var boðið að taka þátt í vinnuhópi og voru niðurstöður kynntar í lok síðasta árs.
Friðrik Þór Guðmundsson sérfræðingur var ráðgjafi hópsins. Hann kynnti á fyrsta fundi niðurstöður úr skoðanakönnun meðal blaðamanna um siðareglur sem meðal annars sýndu fram á vilja meirihluta blaðamanna í þá veru að vert væri að einfalda og skýra reglurnar. Var það leiðarljós vinnu hópsins en einnig var markmiðið að undirstrika mikilvægi þeirra fyrir stéttina og samfélagið allt því eins og segir í inngangi er öflug og vönduð blaðamennska forsenda lýðræðis.
Við endurskoðunina var horft til núgildandi siðareglna – en einnig til siðareglna Alþjóðasambands blaðamanna (IFJ), auk siðareglna í löndunum í kringum okkur, svo sem hinna Norðurlandanna, Bretlands, Belgíu og fleiri landa. Þá var horft til breytt umhverfis fjölmiðla og breyttrar stöðu blaðamanna með nýjum miðlunarleiðum. Þá hefur umræða um upplýsingaóreiðu og falsfréttir skapað þörf á að skerpa á ákveðnum hugtökum, gildum og vinnubrögðum til þess að auðvelda blaðamönnum og almenningi að gera greinarmun á blaðamennsku og annarri miðlun hvers kyns upplýsinga.
Siðareglur eiga að vera lifandi og sátt þarf að ríkja meðal þeirra sem starfa í faginu hverju sinni. Það er von þeirra sem unnu þessar tillögur að þær fangi breytt viðhorf og starfsumhverfi en stuðli jafnframt að fagmennsku og legja þær áherslu á gildi á borð við heiðarleika og sanngirni og hið mikilvæga hlutverk blaðamanna í þágu tjáningarfrelsisins og lýðræðis.
Inngangur
Öflug og vönduð blaðamennska, þar sem tjáningarfrelsið er í fyrirrúmi, er forsenda lýðræðis. Hún byggir á faglegum vinnubrögðum sem siðareglum þessum er ætlað að ramma inn. Í þeim er lögð áhersla á að frumskylda blaðamanns er gagnvart almenningi sem á rétt á að fá sannar upplýsingar settar fram á sanngjarnan og heiðarlegan hátt. Blaðamönnum ber að þekkja og fara eftir þessum siðareglum í störfum sínum.
1. grein Blaðamaður hefur sannleikann að leiðarljósi, stendur vörð um tjáningarfrelsið og frjálsa fjölmiðlun og rétt almennings til upplýsinga, svo veita megi nauðsynlegt aðhald í lýðræðisþjóðfélagi.
2. grein Blaðamaður setur fram upplýsingar á heiðarlegan og sanngjarnan hátt samkvæmt bestu vitund hverju sinni, meðal annars með því að leita andstæðra sjónarmiða þegar við á. Blaðamaður hagræðir ekki staðreyndum og setur ekki fram órökstuddar ásakanir.
3. grein Blaðamaður leiðréttir rangfærslur sé þess þörf.
4. grein Blaðamaður lítur svo á að allar upplýsingar sem varða almannahagsmuni eigi að vera aðgengilegar og að hann eigi að hafa fullan rétt til að afla þeirra.
5. grein Blaðamaður beitir hvorki hótunum né hvers konar þvingunum til þess að afla upplýsinga.
6. grein Blaðamaður gerir greinarmun á staðreyndum og skoðunum, gengur úr skugga um áreiðanleika upplýsinga og gætir þess að umfjöllunin sé hlutlæg.
7. grein Blaðamaður gætir þess að þegar hann vitnar til ummæla eða upplýsinga sem birst hafa opinberlega, þar á meðal á samfélagsmiðlum, sé þess getið hvaðan ummælin voru fengin.
8. grein Blaðamaður virðir trúnað við heimildarmenn sína.
9. grein Blaðamaður þiggur ekki mútur, gjafir eða hvers kyns fyrirgreiðslu sem ætlað er að hafa áhrif á umfjöllun hans. Blaðamaður forðast hagsmunaárekstra og gerir grein fyrir tengslum við umfjöllunarefnið ef við á. Blaðamaður tekur ekki þátt í verkefnum sem kynnu að stofna sjálfstæði hans og trúverðugleika í hættu og nýtir ekki upplýsingar í eigin þágu.
10. grein Blaðamaður gerist ekki sekur um ritstuld.
11. grein Blaðamaður blandar ekki saman ritstjórnarlegu efni og auglýsingum í myndum og/eða máli.
12. grein Siðareglur þessar setja ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna. Blaðamaður gætir þess að persónulegar skoðanir hans hafi ekki áhrif á hlutlægni fréttaflutnings.
13. grein Hver sá sem telur að blaðamaður hafi brotið framangreindar reglur og á hagsmuna að gæta, getur kært ætlað brot til Siðanefndar BÍ samkvæmt sérstökum reglum þar um.
BÍ sótti þing IFJ, Alþjóðasambands blaðamanna, sem haldið var í Oman í maí. Þingið er haldið á fjögurra ára fresti og þar er kosið í stjórnir og nefndir IFJ og ákvarðanir teknar um starfsemi samtakanna næstu fjögur árin.
Eins og alltaf á þessum fundum er náið samstarf milli Norrænu félaganna sem höfðu gagnrýnt þá ákvörðun IFJ að halda þingið í Oman þar sem ekki ríkir fjölmiðlafrelsi og mannréttindi eru ekki virt. Norrænu félögin hafa í áraraðir gagnrýnt háttsemi og ólýðræðisleg vinnubrögð IFJ án þess að það hafi miklu skilað. Óskuðu félögin eftir fundi með nýjum forseta IFJ, Dominique Pradalié, til þess að ræða áhyggjur Norrænu félaganna og gefa hennig tækifæri til þess að leggja fram sína framtíðarsýn. Sá fundur var í september og var ekki til þess fallinn að fylla félögin trúnaðartrausti á framtíð IFJ.
Í október tilkynnti síðan Rússneska blaðamannafélagið, sem er aðili að IFJ, að það hefði samþykkt undir sinn hatt, nýstofnuð félög í hernumdu héruðunum í Úkraínu. Úkraínskir blaðamenn mótmæltu því harðlega og fóru Norrænu félögin fram á það við IFJ að Rússum yrði vikið úr IFJ fyrir brot á samþykktum þess. Ekki var orðið við því og ákváðu öll Norrænu félögin, að undanskildum Svíum (af sérstökum ástæðum) að segja sig úr IFJ. Rússum var síðan vikið úr IFJ í febrúar en félögin telja annað og meira þurfa að breytast í stjórnun og starfsemi IFJ áður en þau eru tilbúin að ganga til liðs við þau að nýju.
Líkt og samþykkt var í atkvæðagreiðslu á síðasta aðalfundi voru tvö starfandi fag- og stéttarfélög blaðamanna á Íslandi sameinuð á síðasta ári, Blaðamannafélag Íslands og Félag fréttamanna hjá RÚV.
Það er mikið gæfuspor enda sendir sameiningin sendir sterk skilaboð út í samfélagið um mikilvægi faglegrar blaðamennsku á tímum þar sem sótt er að blaðamennsku og fjölmiðlum, hér sem annars staðar.
Félag fréttamanna er nú sérstök deild innan BÍ, líkt og Blaðaljósmyndarafélag Íslands, og var stofnfundur hennar haldinn fyrir aðalfund þar sem stjórn var kjörin og lög deildarinnar samþykkt.
Þá hefur stjórn tekið ákvörðun, og greidd verða atkvæði um tillögu þess efnis á aðalfundi, að stofna sérstaka deild utan um blaðamenn sem komnir eru á eftirlaun og einnig utan um þá almannatengla sem eru í félaginu, og mun sú deild verða ætluð þeim sem starfa við miðlun og almannatengsl. Það er von stjórnar að ný deild miðlunar og almannatengsla verði til þess að hægt verði að ýta undir faglegt starf í þeirri stétt þar sem megináhersla er á miðlun upplýsinga í þágu almennings.
Helstu verkefni sem bíða félagsins að áframhaldandi öflug hagsmunagæsla fyrir félagsmenn og stéttina í heild. Efna þarf til frekara samtals við helstu hagaðila, jafnt á sviði stjórnmálanna, innan stjórnsýslunnar, sem og í einkageiranum og víðar í samfélaginu með það að markmiði að auka skilning á mikilvægi blaðamennsku og bágrar stöðu fjölmiðla.
Eitt meginverkefnið verður að reyna að tryggja aðgerðir í þágu einkarekinna miðla enda hefur rekstrarstaða fjölmiðla hér á landi aldrei verið alvarlegri. Nýjustu tölur Hagstofunnar sýna að nær helmingur alls auglýsingafjármagns rennur úr landi til erlendra tæknirisa á borð við Google og Facebook, samtals um 12 milljarðar króna.
Til samanburðar nemur styrkur til einkarekinna miðla um 370 milljónum sem er einungis dropi í hafið. Því er mikilvægt að stjórnvöld grípi til frekari aðgerða til stuðnings einkarekinna miðla, svo sem með því að festa styrkjakerfið í sessi og auka fjármagn sem til þess rennur, skoða skattalegt umhverfi fjölmiðlafyrirtækja og auka möguleika þeirra á nýsköpunarstyrkjum.Þá þarf að bæta þann kostnað sem hlýst af textun og talsetningu hjá ljósvakamiðlum.
Einnig hefur BÍ kallað eftir því að settur verði á sérstakur fjölmiðlasjóður til að styðja við rannsóknarblaðamennsku en einnig að skoðað verði að sjálfstætt starfandi blaðamenn geti sótt um blaðamannalaun að fyrirmynd listamannalauna. Það er að minnsta kosti ljóst að félaginu er mikið verk fyrir höndum og því óskandi að sem flestir félagsmenn leggðu hönd á plóg enda hagsmunirnir ærnir.
September 2022
Bjarna svarað aftur
Opið bréf formanns BÍ til Bjarna Benediktssonar vegna færslu hans á Facebook þar sem hann heldur því fram að "getgátur" blaðamanna um að blaðamenn hafi verið kallaðir til yfirheyrslu fyrir það eitt að skrifa fréttir séu rangar.
Nóvember 2022
Umboðsmaður hvattur til frumkvæðisathugunar
Erindi sent til UA þar sem hann er hvattur til að hefja frumkvæðisathugun á embættisfærslum lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra vegna málatilbúnaðar þess gegn fjórum blaðamönnum.
Nóvember 2022
Ríkislögreglustjóri og ISAVIA krafin svara
Bréf sent á Ríkislögreglustjóra og ISAVIA vegna aðgerða til að hindra störf blaðamanna á Keflavíkurflugvelli.
Janúar 2022
Dómsmálaráðherra krafinn svara
Bréf sent á dómsmálaráðherra þar sem hann er spurður hvort hann telji ástæðu til að grípa til aðgerða vegna fljóðljósamálsins.
Febrúar 2023
Formleg kvörtun til UA vegna dómsmálaráðherra
BÍ sendi Umboðsmanni Alþingis kvörtun vegna fullkomins áhuga- og skilningsleysis dómsmálaráðherra á alvarleika þess að stjórnvöld í lýðræðisríki hindri fréttaflutning af eigin aðgerðum umfram það sem heimilt er samkvæmt stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum.
Mars 2023
Bréf til Alþingis, dómsmálaráðherra og Dómstólasýslunnar vegna hindrunar dómara á störfum blaðamanna
BÍ sendi bréf á dómsmálaráðherra, allsherjar-og menntamálanefnd Alþingis og Dómstólasýsluna, þar sem áhyggjum er lýst af ákvörðun dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur að banna fréttaflutning úr dómsal af tilteknu máli í sjö vikur á meðan skýrslutökur fóru fram.
Mars 2023
Ályktun vegna stöðu blaðamanna sem sakborninga
Stjórn Blaðamannafélagsins sendi frá sér ályktun þar sem hún fordæmdi að enn einn blaðamaðurinn, í þetta sinn Ingi Freyr Vilhjálmsson, hljóti stöðu sakbornings í tengslum við Samherjamálið, fyrir það eitt að sinna störfum sínum. Einnig er þess krafist að lögreglan ljúki rannsókn málsins án frekari tafa.
Nóvember 2022 Fundur með Ríkislögreglustjóra um ISAVIA-mál
Nóvember 2022 Fundur með Umboðsmanni Alþingis um Lögregluna á NE
Desember 2022 Fundur með lögregluráði um samskipti blaðamanna og lögreglu
Febrúar 2022 Fundur með Almannavörnum um samskipti blaðamanna og almannavarna
Mars 2022 Fundur með Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis um frumvarp um styrki til einkarekinna miða
Mars 2022 Fundur með Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis um stöðu og hlutverk fjölmiðla
Mars 2022 Fundur með fulltrúum menntamálaráðuneytis um aðgerðir til stuðnings einkareknum fjölmiðlum og fjölmiðlastefnu
Janúar 2022 Fundur með Dómstólasýslu um aðgengi blaðamanna að dómstólum og upplýsingum
F.h. stjórnar, Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður