Vinnureglur siðanefndar

  1. Hlutverk siðanefndar er að úrskurða um kærur sem henni berast um brot á siðareglum Blaðamannafélags Íslands eins og þær eru á hverjum tíma.
  2. Siðanefnd skal halda gjörðabók.
  3. Kærur til siðanefndar skulu vera skriflegar og berast skrifstofu Blaðamannafélags Íslands. Kæruefni skal vera afmarkað með augljósum hætti. Ljósrit af kærðri blaðagrein eða eftirrit kærðs efnis í útvarpi og sjónvarpi skal fylgja kæru.
  4. Skrifstofa Blaðamannafélags Íslands sendir afrit kæru og meðfylgjandi gagna til allra siðanefndarmanna og afrit kærunnar til þess blaðamanns eða fjölmiðils sem kærður er.
  5. Siðanefnd tekur mál fyrir í þeirri röð sem þau berast. Ef mál berast samtímis ræður dagsetning.
  6. Siðanefnd kannar hvort einhver nefndarmanna sé vanhæfur að fjalla um kærumálið vegna tengsla við kæranda eða kærða. Úrskurður nefndarinnar er endanlegur.
  7. Við upphaf málsmeðferðar kannar siðanefnd hvort þeim kröfum, sem siðareglur gera til kærenda, hafi verið fullnægt. Sé svo ekki skal kæru vísað frá og kæranda skýrt skriflega frá orsökum frávísunar.
  8. Siðanefnd skal óska eftir skriflegri greinargerð frá kærðu og getur leitað nánari skriflegra viðbragða frá aðilum máls eða boðið þeim að skýra mál sitt á fundum nefndarinnar, telji hún þess þörf.
  9. Siðanefnd ákveður hverjir aðrir skulu koma fyrir nefndina, og hvaða viðbótargagna skuli aflað.
  10. Kæranda er heimilt að draga kæru sína til baka hvenær sem er áður en siðanefnd hefur undirritað úrskurð sinn.
  11. Siðanefnd kveður upp rökstuddan, skriflegan úrskurð. Þegar um er að ræða brot á siðareglum skal viðkomandi grein tilgreind.
  12. Siðanefnd ritar fullskipuð undir úrskurði. Sératkvæði skulu birt með úrskurði meirihlutans.
  13. Siðanefnd nafngreinir ekki í úrskurði sínum kæranda eða aðra aðila máls sem eiga um sárt að binda ef hún telur að nafnbirting valdi þeim auknum sársauka.
  14. Siðanefnd úrskurðar í kærumálum eftir ákvæðum siðareglna eins og þær eru á hverjum tíma og hefur eftir því sem við á hliðsjón af fordæmum í eldri úrskurðum.
  15. Siðanefnd fer með gögn mála, önnur en kæru og úrskurð nefndarinnar, sem trúnaðarmál og fjallar ekki um einstök mál opinberlega.
  16. Sé óafgreiddu kærumáli fyrir siðanefnd skotið til dómsstóls, vísar nefndin málinu samstundis frá, á hvaða stigi sem málið kann að vera innan siðanefndar.