Siðareglur Blaðamannafélags Íslands (2023)

Samþykktar á aðalfundi BÍ 23. mars 2023. 

Inngangur
Öflug og vönduð blaðamennska, þar sem tjáningarfrelsið er í fyrirrúmi, er forsenda lýðræðis. Hún byggist á faglegum vinnubrögðum sem siðareglum þessum er ætlað að ramma inn. Í þeim er lögð áhersla á að frumskylda blaðamanns er gagnvart almenningi sem á rétt á að fá sannar upplýsingar settar fram á sanngjarnan og heiðarlegan hátt. Blaðamönnum ber að þekkja og fara eftir þessum siðareglum í störfum sínum.

1. grein
Blaðamaður hefur sannleikann að leiðarljósi, stendur vörð um tjáningarfrelsið og frjálsa fjölmiðlun og rétt almennings til upplýsinga, svo veita megi nauðsynlegt aðhald í lýðræðisþjóðfélagi.

2. grein
Blaðamaður setur fram upplýsingar á heiðarlegan og sanngjarnan hátt samkvæmt bestu vitund hverju sinni, meðal annars með því að leita andstæðra sjónarmiða þegar við á. Blaðamaður hagræðir ekki staðreyndum og setur ekki fram órökstuddar ásakanir.

3. grein
Blaðamaður leiðréttir rangfærslur sé þess þörf.

4. grein
Blaðamaður lítur svo á að allar upplýsingar sem varða almannahagsmuni eigi að vera aðgengilegar og að hann eigi að hafa fullan rétt til að afla þeirra.

5. grein
Blaðamaður beitir hvorki hótunum né þvingunum til þess að afla upplýsinga.

6. grein
Blaðamaður gerir greinarmun á staðreyndum og skoðunum, gengur úr skugga um áreiðanleika upplýsinga og gætir þess að umfjöllunin sé hlutlæg.

7. grein
Blaðamaður gætir þess að þegar hann vitnar til ummæla eða upplýsinga sem birst hafa opinberlega, þar á meðal á samfélagsmiðlum, sé þess getið hvaðan ummælin voru fengin.

8. grein
Blaðamaður virðir trúnað við heimildarmenn sína.

9. grein
Blaðamaður þiggur ekki mútur, gjafir eða fyrirgreiðslu af neinu tagi sem ætlað er að hafa áhrif á umfjöllun hans. Blaðamaður forðast hagsmunaárekstra og gerir grein fyrir tengslum við umfjöllunarefnið ef við á. Blaðamaður tekur ekki þátt í verkefnum sem kynnu að stofna sjálfstæði hans og trúverðugleika í hættu og nýtir ekki upplýsingar í eigin þágu.

10. grein
Blaðamaður gerist ekki sekur um ritstuld.

11. grein
Blaðamaður blandar ekki saman ritstjórnarlegu efni og auglýsingum í myndum og/eða máli.

12. grein
Siðareglur þessar setja ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna. Blaðamaður gætir þess að persónulegar skoðanir hans hafi ekki áhrif á hlutlægni fréttaflutnings.

13. grein
Hver sá sem telur að blaðamaður hafi brotið framangreindar reglur og á hagsmuna að gæta, getur kært ætlað brot til Siðanefndar BÍ samkvæmt sérstökum málsmeðferðarreglum þar um.