Launa-og ráðningarmál

Þekktu rétt þinn! 

Grunnurinn.   Kjarasamningar BÍ eru grunnurinn að því sem greiða ber fyrir vinnu blaða- og fréttamanna á fjölmiðlum á Íslandi.  Það þýðir að óheimilt er samkvæmt lögum að greiða minna en þeir kveða á um. Engin takmörk er á því hversu mikið meira má greiða. 

Vinnutími . Vikulegur dagvinnutími blaða- og fréttamanna er 35-40 stundir.  Vinnutíminn er styttri á vaktavinnudeildum en á dagvinnudeildum.  Vinna umfram það er ávallt yfirvinna og ber að greiða sérstaklega fyrir hana. 

Yfirvinna . Greitt er fyrir yfirvinnu með 1,0385% af dagvinnulaunum.  Það þýðir til dæmis að yfirvinnutíminn kostar 3.635 kr. fyrir þann sem er á 350 þús. kr. taxtalaunum.   Tíu yfirvinnutímar á viku eða 40 í mánuði kosta þar með 145.400 kr. í vinnulaunum.  Lágmarkslaun í því tilviki eru því 495.400 kr.

Hámarksvinnutími. Ekki er heimilt að vinna meira en 48 klukkustundir á viku að meðaltali á hverju fjögurra mánaða tímabili.  

Rauðir dagar.   Almennir frídagar á ári eru átta: Skírdagur, annar í páskum, sumardagurinn fyrsti,1. maí, uppstingningardagur, annar í hvítasunnu, frídagur verslunarmanna og annar í jólum.   Vinna á þessum dögum er aukavinna og ekki greitt fyrir færri en fjóra tíma.   Ef um vaktavinnu er að ræða kemur frídagur fyrir vinnu á þessum degi.

Stórhátíðardagar.   Stórhátíðardagar á ári  eru einnig átta:  Nýársdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, hvítasunnudagur, 17. júní, aðfangadagur jóla, jóladagur og gamlársdagur. Tvöföld yfirvinna er greidd á þessum dögum, ekki minna en átta tímar vegna fólks í dagvinnu.   Vaktavinnumaður fær frídag og yfirvinnu.

Fastlaunasamningar.   Mjög hefur færst í vöxt að að samið sé um ein laun fyrir starfið. Slíkir launasamningar hafa kallast fastlaunasamningar  Hagkvæmni slíkra samninga fer  algerlega eftir því hversu mikla yfirvinnu starfið innifelur. Það þýðir að þú þarft að fylgjast vel með yfirvinnutímum, svo laun verði ekki undir kjarasamningum. Ekki vinna ókeypis. Það er bannað samkvæmt lögum og kjarasamningum.  Engum er skylt að vera á fastlaunasamningi og allir geta gert kröfu til að á vinna samkvæmt kjarasamningnum og fá greitt fyrir yfirvinnu. 

Fastráðning . Blaðamenn eru fastráðnir eftir fjóra mánuði óháð því hvort gerður er ráðningarsamningur eða ekki.  Ef blaðamaður er fastráðinn strax frá byrjun eða áður en fjögurra mánaða starfstíma er náð er nauðsynlegt að það sé staðfest með sannanlegum hætti. Uppsagnarfrestur fastráðins blaðamanns er að lágmarki þrír mánuðir, en uppsagnafrestur á reynslutíma er ein vika. 

Endurgreiddur kostnaður.   Blaða og fréttamenn fá endurgreiddan kostnað vegna starfs síns frá atvinnurekendum.  Endurgreiddar eru áskriftir dagblaða, tímarita og ljósvakamiðla samtals kr. 10.500 á mánuði, símakostnaður 8.500 kr. á mánuði og nettenging og kostnaður vegna hennar samtals kr. 4.000.  Samtals gera þetta 23.000 kr. en útgefandi getur látið einhver ofangreindra atriða í té á eigin kostnað og fellur þá kostnaðargreiðsla vegna þess niður.