Starfsáætlun stjórnar

 •  Starfstímabil stjórnar að þessu sinni er óvenju stutt vegna frestunar aðalfundar vegna covid faraldursins í upphafi árs og markast starfsáætlunin af því.
 • Farið verði yfir félagaskrá BÍ og kannað hvaða félagar uppfylla skilyrði fyrir veitingu gullmerkis félagsins, en það var síðast gert árið 2017 og horft til þess að sæma þá merkinu á næsta aðalfundi félagsins.
 • Þriðja bókin með viðtölum við blaðamenn verði gefin út í tilefni af 125 ára afmæli félagsins árið 2022.  Ekki verði farið eftir númeraröð í félaginu heldur rætt við þá sem af einhverjum ástæðum hafa fallið út af félagaskrá, en hafa komið að blaðamennsku og fjölmiðlum með afgerandi hætti.
 • Farið verði yfir fjárfestingarstefnu félagsins í ljósi lágra vaxta og lítillar ávöxtunar peningalegra eigna. Meðal annars verði kannaður fýsileiki þess að fjárfesta í fasteignum.  Áfram verði öryggi og lágmarks áhætta í fyrirrúmi í fjárfestingarstefnu félagsins.
 • Lagfæringar verði gerðar á svæði félagsins í Heiðmörk og þar útbúin lágmarksaðstaða fyrir félagsmenn til útiveru.
 • Kjarasamningar félagsins verði gefnir út ásamt lögum félagsins og reglugerðum sjóða þess.
 • Haldið verði áfram skráningu á einstökum þáttum í sögu félagsins og fram haldið skráningu minja og mynda í eigu þess.
 • Blaðamannaminni, sem er vísir að blaðamannatali hefur verið birt á vef félagsins. Það nær fram til ársins 1960 og verður haldið áfram við skráningu blaðamanna sem hófu störf á tímabilinu 1960-1970.  Kannaður verði grundvöllur fyrir útgáfu stéttatalsins.
 • Kannað verði með útgáfu á úrvali mynda úr þeim bókum sem komnar eru út af Myndum ársins, en fyrsta bókin var gefin út 2004. 
 • Útgáfa blaðamannaskírteina með rafrænum hætti verði fest í sessi og verði hún meginleiðin í útgáfu blaðamannaskírteina.
 • Fréttaumfjöllun á heimasíðu félagsins verði áfram aukin um það sem hæst ber í blaðamennsku hér á landi og erlendis.  Heimasíðan bjóði upp á allar nýjustu aðferðir sem ný samskiptatækni býður upp á til þess að koma sjónarmiðum félagsins á framfæri út á við og gagnvart félagsmönnum sínum.
 • Félagið stuðli áfram að endurmenntun með öllum tiltækum ráðum, m.a. með þáttöku í ráðstefnuhaldi og með því að halda sérstök endurmenntunarnámskeið um tiltekin efni. 
 • Félagið rækti samstarf á alþjóðavettvangi á vegum Alþjóðasambands blaðamanna IFJ, Evrópusambands blaðamanna EFJ og Norræns sambands blaðamanna NFJ og verði vakandi fyrir nýjum áherslum í alþjóðsamstarfi.
 • Lokið verði við að taka saman skrá yfir meiðyrðamál og meiðyrðadóma síðustu 20-25 ára og hún notuð sem grunnur að áframhaldandi starfi félagsins að því að tryggja með öllum ráðum raunverulegt tjáningarfrelsi í landinu. Skráin og dómarnir verði aðgengilegir á heimasíðu félagsins.
 • Lokið verði við frágang á palli í kringum nýtt gestahús, saunahús  og geymslu í Stóru-Brekku.
 • Gólfhiti verði settur í bústaðinn í Litlu-Brekku og bústaðurinn verði endurnýjaður að innan að verulegu leyti í samræmi við fyrirliggjandi tillögur þar að lútandi.
 • Köld geymsla verði byggð við sumarhús félagsins í Stykkishólmi undir útihúsgögn og grill.
 • Tekin verði saman skrá yfir fræðilegar ritgerðir sem fjalla um fjölmiðla og blaðamennsku og efni sem skiptir þá starfsemi máli svo sem hvað varðar meiðyrði og friðhelgi einkalífs.
 • Kannað verði með stofnun pressuklúbbs, sem geti nýtt sér félagsaðstöðu Blaðamannafélagsins og hittist með reglubundnum hætti.
 • Áfram verði unnið að eflingu félagsstarfsemi fyrir eldri félagsmenn sem hittast alla föstudaga í húsnæði félagsins nema yfir hásumarið. Verði meðal annars horft til þematengdra utanlandsferða og ferða innanlands í sama skyni.
 • Kannað verði með að setja fé inn í Minningarsjóð Vilhjálms Finsen og fela sjóðnum það hlutverk að veita veglega starfsstyrki til blaðamanna til að efla rannsóknarblaðamennsku í landinu.
 • Skoðaðir verði möguleikar á að gefa út upplýsingabækling um meginatriði lífeyriskerfisins og samspil þess við séreignasparnað, vinnutekjur og tekjur frá Tryggingastofnun.  Grein um sama efni verði birt í Blaðamanninum.

                                                                                                      Samþykkt á stjórnarfundi 10. des. 2020 en endanlega á stjórnarfundi 19. feb. 2021