- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Starfsáætlun stjórnar 2024-2025
Kjaraviðræður standa yfir eftir að afturvirkir skammtímasamningar, sem giltu til lok janúar 2024, voru samþykktir í janúar í fyrra. Stóra verkefni starfsársins verður því að gera nýja kjarasamninga og verður kröfugerð, sem unnin var fyrir síðustu samningalotu höfð að leiðarljósi í þeirri vinnu með teknu tilliti til breyttra aðstæðna.
Kannaður verður áhugi fyrir því hjá félagsmönnum að BÍ gerist aðili að BHM, svo BÍ geti haft meiri áhrif á mótun kjarasamninga.
Farið verður í stefnumótunarvinnu fyrir félagið í nánu samstarfi við félagsmenn.
Vefur félagsins, press.is, verður uppfærður miðað við þarfagreiningu sem unnin verður.
Haldin verða pressukvöld mánaðarlega þar sem félagsmönnum gefst tækifæri á að hittast og ræða málefni sem varða fagið og stéttina.
Stofnaður verður styrktarsjóður blaðamanna, Glætan, sem verður í formi sjálfseignarstofnunar og rekinn verður af styrktarfé.
Áfram verður unnið að öflugri hagsmunagæslu fyrir félagsmenn og stéttina í heild. Efna þarf til frekara samtals við helstu hagaðila, jafnt á sviði stjórnmálanna, innan stjórnsýslunnar sem og í einkageiranum og víðar í samfélaginu með það að markmiði að auka skilning á mikilvægi blaðamennsku og bágri stöðu fjölmiðla. Eitt meginverkefnið verður að fá stjórnvöld til að veita auknu fjármagni í stuðning til einkarekinna miðla og að fá þau til að grípa til frekari aðgerða til stuðnings fjölmiðlum.
Stofnaður verður samráðsvettvangur fjölmiðla með það fyrir augum að efla slagkraft í baráttu fyrir sameiginlegum hagsmunamálum fjölmiðla og blaðamanna.
Herferð til vitundarvakningar um mikilvægi fjölmiðla verði haldið áfram. Lögð verður áhersla í seinni hluta herferðarinnar að hvetja almenning til þess að gerast áskrifendur að fjölmiðlum.
Málþing eða ráðstefna um mikilvægi fjölmiðla verður haldin að hausti í tengslum við vitundarherferðina.
Hafinn verður undirbúningur að verkefni sem felst í fræðslu um blaðamennsku og fjölmiðlalæsi fyrir ungmenni (9. eða 10. bekk og/eða fyrsta ári í framhaldsskóla).
Félagið stuðli áfram að endur- og símenntun með öllum tiltækum ráðum, m.a. með þátttöku í ráðstefnuhaldi og með því að halda sérstök endurmenntunarnámskeið um tiltekin efni. Þá er til skoðunar að BÍ bjóði reglulega upp á nýliðanámskeið, í samvinnu við fjölmiðlana, fyrir þá blaðamenn sem eru að taka sín fyrstu skref í faginu. Einnig verði skoðað að framleiða sérstök fræðslumyndbönd um hin ýmsu efni tengd faginu sem verða félagsmönnum aðgengileg á vef félagsins – t.a.m. sem liður í nýliðaþjálfun.
Kannaður verði áhugi félagsmanna á því að komið verði upp upptökuaðstöðu til hlaðvarpsgerðar sem félagsmenn geta nýtt sér endurgjaldslaust og jafnframt kannaður áhugi á því að félagið standi fyrir útgáfu á reglulegum hlaðvarpsþáttum til þess að miðla faglegri umræðu og fræðslu.
Deild miðlunar og almannatengsla sem stofnuð var formlega á aðalfundi 2023 verður virkjuð. Markmiðið er að efla faglegt starf almannatengla og upplýsingafulltrúa, móta siðareglur almannatengla og efla innra starf félagsins gagnvart þeim sem sinna almannatengslum og miðlun.
Félagið rækti samstarf á alþjóðavettvangi á vegum Evrópusambands blaðamanna EFJ og Norræns sambands blaðamanna NFJ og verði vakandi fyrir nýjum áherslum í alþjóðsamstarfi.
Lagfæringar verði gerðar á svæði félagsins í Heiðmörk og þar útbúin lágmarksaðstaða fyrir félagsmenn til útiveru.
Samþykkt á stjórnarfundi 6. maí 2024