Söfnun fyrir úkraínska blaðamenn

Úkraína fáni

Blaðamannafélag Íslands stendur fyrir fjársöfnun til stuðnings blaðamönnum í Úkraínu. Mikilvægi fjölmiðla á stríðstímum er óumdeilt og þurfa blaðamenn í Úkraínu aðstoð til þess að geta stuðlað að öryggi sínu á meðan þau miðla til umheimsins fréttum af ástandinu í landinu í kjölfar innrásar Rússa.

Sannleikurinn er eitt það fyrsta sem lætur undan í stríði og því er mikilvægt að styðja við bakið á blaðamönnum til þess að þeir geti haldið áfram að miðla honum. Úkraínskir blaðamenn starfa við stórhættulegar aðstæður og skortir bæði öryggisbúnað og annan búnað sem við getum aðstoðað þau við að komast yfir.

Samkvæmt upplýsingum sem við höfum fengið skortir skortir helst öryggisbúnað á borð við skotheld vesti og hjálma, en einnig hjálpargögn til fyrstuhjálpar. Einnig verður mögulega þörf á fjárstuðningi til þeirra blaðamanna sem þurfa að flýja vettvang og koma sér á öruggari slóðir, innan eða utan Úkraínu.

Blaðamannafélagið hyggst einnig styrkja söfnunina en hvetur félagsmenn, og hvern þann sem vill styrkja þetta verðuga málefni, til þess að leggja inn upphæð að eigin vali inn á reikning í umsjón félagsins:

Kt. 690372-0109
Reikningsnr:  0130-26-001515

BÍ er í samskiptum við hin blaðamannafélögin á Norðurlöndunum, NFJ, og Evrópsku blaðamannasamtökin, EFJ, um hvernig best er að koma fjármagninu sem safnast, þangað sem það nýtist best. Um leið og það skýrist verða veittar upplýsingar um það hér.
 
F.h. BÍ
Sigriður Dögg Auðunsdóttir formaður