- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Fyrstu málin í þessum málaflokki koma fyrir Hæstarétt árið 1922. Fyrstu áratugina eru öll málin sem um ræðir tengd meiðyrðum og ærumeiðingum og taka til prentmiðla, en 1996 koma til sögunnar fyrstu málin um friðhelgi einkalífs.
Árin 1920 – 1929 koma fimm mál fyrir réttinn og eru þau ýmist sótt af einkaaðilum eða félögum. Þó að ummæli séu dæmd dauð og ómerk er ekki endilega fallist á kröfu um greiðslu fébóta. Í tveimur málum eru mál sótt gegn Tryggva Þórhallssyni, ritstjóra tímans, en hann varð síðar forsætisráðherra Framsóknarflokksins. Önnur mál eru gagnvart ritstjórum blaðanna Verslunarólagið, Vesturlandi og Alþýðublaðinu.
Árin1930 – 1939 koma 3 mál fyrir Hæstarétt. Þar er í tveimur tilvikum ábyrgðarmaður sektaður fyrir ummæli í blaði sem hann ritstýrir, án þess að hafa skrifað ummælin sjálfur. Bæði getur verið um að ræða innsendar greinar án nafns eða greinar eftir blaðamenn. Í tveim málum er Ólafur Thors, alþingismaður Sjálfstæðisflokks sækjandi mála gagnvart ritstjórum Tímans. Í fyrra skiptið er það Gísli Guðmundsson sem er ritstjóri, en Einar Magnússon er tekinn við sem ritstjóri fáeinum árum síðar. Þriðja mál áratugsins er einnig sótt af alþingismanni Sjálfstæðisflokks, Guðmundi Hannessyni, gegn Felix Guðmundssyni, ábyrgðarmanni tímaritsins Sóknar. Dæmd var sekt í öllum málunum.
Engin mál er varða meiðyrði í fjölmiðlum koma til dóms í Hæstarétti árin 1940 – 1949.
Á árunum 1950 – 1959 eru sex mál tekin fyrir. Einu máli er vísað frá en það var höfðað gegn Braga Sigurjónssyni, ritstjóra Alþýðumannsins. Tvö mál eru höfðuð gegn ritstjórum Þjóðviljans, Sigurði Guðmundssyni í fyrra skiptið og Magnúsi Kjartanssyni í síðara skiptið. Öðru málinu er vísað heim í hérað vegna óákveðinnar úrlausnar dómara. Í hinu málinu var dæmd sekt vegna meiðyrða gagnvart Ingvari Ingvasyni, framkvæmdastjóra Glersteypunnar. Þrjú mál voru samtals höfðuð gegn ristjórum Tímans, Helgafells og Mánudagsblaðsins. Dæmd var sekt í öllum málunum og ummælin gerð ómerk. Í máli Helgafells sótti Guðlaugur Rósinkranz, nýsettur þjóðleikhússtjóri og kenndur við Samvinnuhreyfinguna mál gegn ritstjórum blaðsins, þeim Ragnari í Smára og Tómasi Guðmundssyni vegna greinaskrifa um ráðningu hans í starfið.
Árin 1960 – 1969 koma sex mál fyrir dóminn. Eitt þeirra var höfðað af Eyjólfi Konráð Jónssyni, ritstjóra Morgunblaðsins gegn Einari Olgeirssyni, alþingismanni vegna ummæla í Þjóðviljanum. Magnús Thorlacius lögmaður höfðaði tvö mál gegn Einari Braga, ristjóra Frjálsar Þjóðar. Annað máli varðaði ummæli í blaðinu, og í síðara málinu hafði Einar birt greinagerð sem hann lagði fyrir dóminn í fyrra málinu. Þrjú mál voru alls höfðuð gegn Einari braga, það síðasta höfðað af Lárusi Jóhannessyni, alþingismanni Sjálfstæðisflokks. Eitt mál var höfðað gegn ábyrgðarmanni Þjóðviljans, en því var vísað frá. Vegna útgáfu bókar um æviminningar var höfðað mál gegn Setbergi.
Árin 1970 – 1979 koma 18 mál fyrir dóminn, 12 þeirra snúast um hópinn Varið Land við ýmis blöð sem birtu greinar varðandi hann. Sex málanna voru rekin gegn Þjóðviljanum, ýmist ritstjórum eða blaðamönnum þess, þrjú gegn Stúdentablaðinu og eitt vegna ummæla í Ríkisútvarpinu sem var nýmæli, en í því var sýknað. Eitt mál kemur fyrir dóminn þar sem sótt er mál gegn Sigmund Jóhannessyni, teiknara hjá Morgunblaðinu, en ristjórar Morgunblaðsins voru þar dæmdir sekir vegna ónógrar auðkenningar á myndunum. Önnur mál eru sótt af einkaaðilum vegna ýmissa mála.
Árin 1980 – 1989 koma sex mál fyrir dóminn. Þrjú þeirra eru sótt af ákæruvaldinu vegna skrifa um opinbera starfsmenn, annars vegar um lögreglumenn og hins vegar tvö um störf dómkirkjuprestsins, Þóri Stephensen, en bæði þeirra voru felld niður. Frysta málið er varðar sjónvarp kemur til dóms. Það er sótt af Jósafat Arngrímssyni gegn Vilmundi Gylfasyni o.fl. vegna þáttar í sjónvarpinu sem Vilmundur stýrði. Sýknað var í málinu.
Árin 1990 – 1999 koma 12 mál fyrir dóminn, eitt er vegna ummæla í útvarpi en önnur í prentmiðlum. Ákæruvaldið sótti Hall Magnússon til saka í þriðja skiptið, vegna ummæla um Þóri stephenssen, en álíka málferli voru áratuginn á undan. Fyrri málaferlum um sama mál hafði tvisvar verið vísað frá, en nú var Hallur dæmdur sekur. Einu máli var vísað frá dóminum vegna óviðunandi málatilbúnings. Árið 1996 er fyrsta málið sem kemur að friðhelgi einkalífsins tekið fyrir en það var í kjölfar nýrra laga um prentrétt þar sem að tekið var tillit til friðhelgi einkalífs í fyrsta skipti.
Árin 2000- 2009 koma 22 mál fyrir dóminn og eru af ýmsum toga og fjalla bæði um tjáningu á prenti og í sjónvarpi. Árið 2001 er fyrsta og eina málið sem komið hefur fyrir hæstarétt þar sem fjallað er um kynþáttamisrétti, en málið var rekið af hálfu stefnda á þeim rökum að ummælin væru vernduð með tjáningarfrelsi einstaklinga, en dómurinn féllst ekki á það. Tveimur málum er vísað frá vegna ágalla í máltilbúnaði, en annað þeirra höfðað aftur árið eftir. Í nokkrum málum er tekist á um hvar mörk milli friðhelgi einkalífs opinberra persóna, almannahagsmuna og tjáningarfrelsis liggi. Einnig eru áberandi mál þar sem að blaðamenn, ritstjórar og útgáfufyrirtæki eru sótt til saka vegna orða viðmælenda sinna, jafnvel þó þau séu rétt eftir höfð.
Árin 2010 og fram til dagsins í dag. Í fyrsta skipti koma fyrir dóminn mál varðandi netútgáfur fjölmiðla sem einnig eru með
blaðaútgáfu og jafnframt fjölmiðla sem einungis eru með vefútgáfu, Pressuna. Mikið er tekist á um friðhelgi einkalífs folks sem er í opinberri umræðu og og má þar m.a. nefna málaferli Eiðs Smára Guðjohnssen. Nokkur mál eru rekin vegna umfjöllunar í Ríkissjónvarpinu og þar er einkum tekist á um hver sé ábyrgur ummæla, höfundur, flytjandi eða ábyrgðarmaður fjölmiðilsins.