Ísland færist niður fjölmiðlafrelsislista

Þótt Ísland hafi færst niður WPFI-listann er það þó í hópi ríkja heims þar sem frelsi er mest. Í sjö…
Þótt Ísland hafi færst niður WPFI-listann er það þó í hópi ríkja heims þar sem frelsi er mest. Í sjö af hverjum tíu ríkjum heims telst staðan „slæm“. Mynd af vef RSF.

Á nýjasta lista Blaðamanna án landamæra yfir fjölmiðlafrelsi er Ísland í 18. sæti, þremur neðar en árið áður. Í dag, á Alþjóðadegi fjölmiðlafrelsis, var birtur árlegur alþjóðlegur samanburðarlisti yfir fjölmiðlafrelsi (World Press Freedom Index). Ísland kemur frekar illa út nú – fellur um þrú sæti milli ára, niður í 18. sæti.

Skammt er síðan annar árlegur alþjóðlegur samanburðarlisti var birtur, yfir stöðu lýðræðis (LDI, Liberal Democracy Index). Á þeim lista er Ísland í 29. sæti og þar með langt fyrir neðan hin Norðurlöndin og önnur lönd sem við erum vön að bera okkur saman við. 

Þróun mælds fjölmiðlafrelsis á Íslandi

Fyrst um fjölmiðlafrelsislistann: Fyrir hrun var Ísland jafnan í efstu þremur sætum listans, ósjaldan í því efsta. Við hröpuðum fyrst niður listann árið 2015 vegna pólitískra viðbragða við umfjöllun fjölmiðla um lekamálið svokallaða en náðum okkur upp í 10. sæti árið 2017 en höfum mjakast niður listann síðan. 

Tafla
 
Í greiningunni sem fylgir skýrslu RSF um listann í ár segir meðal annars um stöðuna á Íslandi: 
„Blaðamenn sæta meiri þrýstingi frá yfirvöldum og fyrirtækjum. Á síðustu árum hefur þjóðþingið verið vettvangur harkalegrar gagnrýni á blaðamenn. Margir blaðamenn líta á þessi ummæli stjórnmálamanna sem pólitískan þrýsting á störf sín.
(...)
Sjálfstæðri blaðamennsku er ógnað af sérhagsmunagæslu, þar á meðal frá sjávarútveginum sem gegnir mjög mikilvægu hlutverki í efnahagskerfi landsins. Stórfyrirtæki eiga fjölmiðla, sem vekur upp spurningar um hagsmunaárekstra. Þar að auki hafa síðan árið 2020 blaðamenn sem rannsökuðu Samherjamálið (e. the Fishrot Files scandal), þar sem grunur er um spillingu, mútur og skattaundanskot, sætt óhróðursherferðum af hálfu fyrirtækisins.“ 
 

Eftirbátar samanburðarlanda í lýðræðisviðmiðum 

En það er ekki nóg með að Ísland mjakist niður samanburðarlistann yfir fjölmiðlafrelsi, heldur hangir það í 29. sætinu á alþjóðlegum samanburðarlista sem mælir stöðu lýðræðis í löndum heims (e. Liberal Democracy Index, LDI). Það eru fjölþjóðleg frjáls félagasamtök sem kalla sig Varieties of Democracy (V-Dem), sem heldur þeim lista úti, en ábyrg fyrir rekstri þeirra er V-Dem-stofnunin sem er með skráð varnarþing í Gautaborg í Svíþjóð. Hún gefur árlega út svonefnda Lýðræðisskýrslu, þar sem samanburðarlistinn er birtur, lönd heimsins eru flokkuð í fjóra flokka og rakið hver þeirra eru að þróast í átt til meira lýðræðis og hver þeirra í öfuga átt, þ.e. til aukinnar valdstjórnar. 

Í meðfylgjandi töflu úr skýrslu þessa árs má sjá þá þætti sem gefin er einkunn af sérfræðingum stofnunarinnar, en niðurstaða þess mats stýrir því hvar á listanum hvert og eitt land lendir. Ísland er, eins og áður segir, í 29. sæti að þessu sinni, í hópi með Suður-Kóreu og Taívan. 
 
Lýðræði