BÍ fordæmir dráp á blaðamönnum

Hlúð særðum eftir loftárás Ísraelshers á Gaza 11. október 2023. Mynd: Palestinian News & Information…
Hlúð særðum eftir loftárás Ísraelshers á Gaza 11. október 2023. Mynd: Palestinian News & Information Agency (Wafa) í samvinnu við APAimages.

Blaðamannafélag Íslands fordæmir dráp á blaðamönnum í átökum Ísraelsmanna og Hamas þar sem minnst 39 blaðamenn hafa látið lífið, langflestir í linnulausum loftárásum Ísraelshers á Gaza. Samkvæmt upplýsingum sem Committee to protect journalists, CPJ, hafa tekið saman hafa mun fleiri blaðamenn til viðbótar slasast og margra er saknað. Aldrei hafa svo margir blaðamenn látið lífið í átökum á jafn skömmum tíma. 

Blaðamannafélag Íslands kallar eftir því að alþjóðalög verði virt og öryggi blaðamanna á Gaza tryggt svo blaðamenn geti flutt fréttir af því sem þar er að gerast. 

Störf blaðamanna eru mikilvæg í stríðsástandi þar sem hlutlægar, óháðar og sannreyndar upplýsingar skipta lykilmáli. Sér í lagi í ljósi þess að upplýsingar hafa orðið eitt mikilvægasta vopnið í átökum og stríðum og er falsfréttamiðlun miskunnarlaust beitt í áróðursskyni.