- Félagið
- Faglegt
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Stjórn Blaðamannafélags Íslands lýsir áhyggjum af stöðu fjölmiðla á Íslandi sem endurspeglast meðal annars í því að Ísland fellur um þrjú sæti á lista yfir fjölmiðlafrelsi í ríkjum heims sem samtökin Blaðamenn án landamæra (RSF) taka saman árlega. Ísland er nú í 18. sæti og er ekki lengur í hópi ríkja þar sem fjölmiðlafrelsi mælist mikið. Til samanburðar raðast hinar Norðurlandaþjóðirnar í efstu fimm sæti listans.
Eitt af því sem skýrir versnandi fjölmiðlafrelsi hér á landi, að mati skýrsluhöfunda, eru átök milli stjórnmálafólks og fjölmiðla, sem er nokkuð sem Blaðamannafélagið hefur ítrekað lýst áhyggjum af á síðustu misserum. Í greiningunni sem fylgir skýrslu RSF um listann í ár segir meðal annars um stöðuna á Íslandi: „Blaðamenn sæta meiri þrýstingi frá yfirvöldum og fyrirtækjum. Á síðustu árum hefur þjóðþingið verið vettvangur harkalegrar gagnrýni á blaðamenn. Margir blaðamenn líta á þessi ummæli stjórnmálamanna sem pólitískan þrýsting á störf sín.“
Stjórn félagsins telur sérstaka ástæðu til þess að benda á þessa alvarlegu þróun og vara við þeim afleiðingum sem hún getur haft. Ekki nokkurt ríki sem byggir samfélag sitt á gildum á borð við lýðræði og mannréttindi ætti að sætta sig við þá stöðu sem hér blasir við.
Stjórn félagsins fagnar því eindregið þeim sjónarmiðum sem fram koma í yfirlýsingu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra og formanns ráðherranefndar Evrópuráðsins, sem birt var á vef ráðsins í tilefni alþjóðadags fjölmiðlafrelsis í gær. Í yfirlýsingunni ráðherra segir meðal annars að grípa þurfi til frekari aðgerða til þess að standa megi vörð um tjáningarfrelsið og frjálsa fjölmiðla sem séu hornsteinn lýðræðis og mannréttinda. Stjórn BÍ treystir því að íslensk stjórnvöld bregðist við hnignandi fjölmiðlafrelsi hér á landi og grípi til aðgerða til stuðnings einkareknum fjölmiðlum í þágu fjölmiðlafrelsis og lýðræðis.
Samþykkt á fundi stjórnar BÍ 4. maí 2023