Kallarðu þetta jafnrétti? Áskorun til atvinnurekenda

Blaðamannafélag Íslands skorar á atvinnurekendur sýna samstöðu í verki með því að skerða ekki laun þeirra kvenna og kvára sem taka munu þátt í kvennaverkfallinu þann 24. október og leggja þannig sitt af mörkum til baráttunnar fyrir jafnrétti.

Fjölmörg félög kvenna, hinsegin fólks og launafólks hafa boðað til kvennaverkfalls þriðjudaginn 24. október, þar sem konur og kvár leggja niður störf í heilan dag til að mótmæla vanmati á vinnuframlagi kvenna og kynbundnu ofbeldi. Yfirskrift kvennaverkfallsins er Kallarðu þetta jafnrétti?

Konur og kvár, sem það geta, eru hvött til að leggja niður störf, bæði á vinnustað og heima fyrir, og sleppa þá öllu sem gæti talist til starfa, hvort sem er átt við launaða vinnu eða ólaunaða, líkt og umönnun barna, sinna heimilinu eða þriðju vaktina svokölluðu, líkt og segir á vefsíðu skipuleggjenda, kvennafri.is.

Kvennafrídagurinn 24. október var fyrst haldinn árið 1975 en hefur verið haldinn sex sinnum síðan. Hafa konur lagt niður störf ýmist í heilan dag eða hluta úr degi en í ár verður heils dags verkfall til þess að undirstrika mikilvægi framlags kvenna og kvára til samfélagsins alls, í launuðum og ólauðum störfum, ásamt því að krefjast aðgerða vegna faraldur kynbundins ofbeldis.

Útifundir og samstöðufundir verða haldnir víða um land í tilefni dagsins. Fundurinn í Reykjavík verður haldinn á Arnarhóli og hefst kl. 14.

Nánari upplýsingar um kvennaverkfallið má finna hér.