BÍ tilnefnir ekki í stjórn Fjölmiðlanefndar og vill lagabreytingu

Stjórn Blaðamannafélags Íslands hefur ákveðið að tilnefna ekki fulltrúa í stjórn Fjölmiðlanefndar en menningarmálaráðherra óskaði eftir tilnefningu frá félaginu þar sem nýtt skipunartímabil er að hefjast. Í bréfi sem formaður BÍ sendi menningarmálaráðherra fyrir hönd stjórnar segir að ákvörðun stjórnar sé tekin að vandlega ígrunduðu máli og byggist á sömu sjónarmiðum og þegar stjórn BÍ ákvað að draga fulltrúa sinn úr starfi fjölmiðlanefndar í mars 2019.

Í bréfinu segir ennfremur að  stjórn BÍ telji að valdheimildir og verkefni fjölmiðlanefndar, eins og þau eru ákveðin í lögum um fjölmiðla og eins og fjölmiðlanefnd sjálf hefur skýrt sitt valdsvið, samræmist ekki grundvallarreglum um þrígreiningu ríkisvalds. Fjölmiðlanefnd líti sjálf svo á að samkvæmt lögum sé henni falið að fjalla um og hafa eftirlit með ritstjórnarlegum ákvörðunum blaðamanna og fjölmiðla. Á þessum skilningi byggir nefndin jafnvel þó svo fram sé tekið í greinargerð með frumvarpi til laganna að ekki sé um að ræða „ákvæði sem unnt er að framfylgja með skírskotun til nákvæmra viðmiða“ og að í nefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar hafi verið áréttað að reglu 26. gr. beri að skýra „sem stefnuyfirlýsingu um grundvallarreglur í fjölmiðlun en ekki sé með því ætlunin að setja tjáningarfrelsi íslenskra fjölmiðla auknar skorður“. Stjórn BÍ telur að nefndin hafi því tekið sér of víðtækt vald til að skera úr um mörk mannréttinda. Nefndin hefur til dæmis á síðustu árum veitt álit sitt um hvort fjölmiðlaumfjöllun hafi brotið gegn rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs og hvort fjölmiðlar hafi gætt að  því að veita aðilum sem um er fjallað rétt til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Hvort tveggja eru atriði sem ritstjórn fjölmiðils á að mati BÍ að taka ákvörðun um og bera ábyrgð á. Til hliðsjónar má líta til þess að Persónuvernd, sem reglulega berast erindi sem varða umfjöllun fjölmiðla um einstaklinga, hefur gefið út það álit að vinnsla persónuupplýsinga á vegum fjölmiðla og annarra aðila í þágu fréttamennsku falli að mestu utan valdsviðs Persónuverndar og að það falli í hlut dómstóla að meta hvort fjölmiðlar hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns.

Í bréfinu segir jafnframt að staða fjölmiðla sem fjórða valdsins og frelsi þeirra til að meta hvaða umfjöllun eigi erindi við almenning og með hvaða hætti sú umfjöllun er nánar útfærð er varin af tjáningarfrelsisreglum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Það svigrúm sem fjölmiðlar hafa er rúmt og takmarkast almennt aðeins af öðrum mannréttindum að því marki sem nauðsynlegt er í lýðræðislegu samfélagi. Í samræmi við viðtekin viðhorf fellur það í hlut dómstóla að skera úr um hvar markalína ósamrýmanlegra mannréttinda liggur í einstökum tilvikum. Að mati stjórnar BÍ er því ótækt að fjölmiðlanefnd, sem framkvæmdavaldshafi, fjalli um hvort að gengið hafi verið of langt í nýtingu rúms svigrúms fjölmiðla og blaðamanna til að ákveða hvaða umfjöllun eigi erindi við almenning og hvernig sú umfjöllun er nánar unnin; aðeins dómstólar séu bærir til að fjalla um hvar mörk tjáningarfrelsis fjölmiðla liggja að þessu leyti og hvort fjölmiðlar eða blaðamenn skuli látnir sæta ábyrgð vegna slíkra ákvarðana.

 Í ljósi framangreinds mun BÍ ekki tilnefna fulltrúa og varafulltrúa í fjölmiðlanefnd til næstu fjögurra ára. Um leið hvetur stjórn BÍ menningar- og viðskiptaráðherra til að ljúka margboðaðri endurskoðun laga um fjölmiðla og taka ofangreind sjónarmið til ítarlegrar athugunar við þá endurskoðun, segir ennfremur í bréfinu.