Högni Torfason(1924-1990)

Högni fæddist 5. mars á Ísafirði. Foreldrar hans voru Torfi Halldór Halldórsson, skipstjóri þar og síðar í Reykjavík, og eiginkona hans, Björg Elín Finnsdóttir. Högni Torfason útskrifaðist sem gagnfræðingur frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1941. Hann var þýðandi við skeytaskoðun Bandaríkjaflota 1942-1944, starfsmaður við sendiráð Bandaríkjanna í Reykjavík 1945-1948, fréttamaður við Ríkisútvarpið 1. apríl 1948 til 30. júní 1962 og fréttaritstjóri dagblaðsins Myndar sumarið 1962. Högni var ráðinn erindreki Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum, með búsetu á Ísafirði, haustið 1962 og ritstjóri blaðsins Vesturland frá vori 1963 og gegndi báðum störfum til 1969. Hann var þá einnig fréttaritari Morgunblaðsins á Ísafirði. Högni Torfason var í stjórn Blaðamannafélags Íslands 1950-1951 og 1960-1961, framkvæmdastjóri Norræna blaðamannamótsins í Reykjavík 1953 og 1958, formaður starfsmannafélags Ríkisútvarpsins 1953-1956, ritstjóri blaðsins Vogar í Kópavogi 1960-1962, og varabæjarfulltrúi í Kópavogi 1961. „Tyrfið málskrúð og torskilið orðagjálfur í ræðu og riti var jafnan eitur í hans beinum. Hann var málræktarmaður; frjór og hugmyndaríkur nýyrðasmiður, ef svo bar undir og finna þurfti hentugt orð sem félli vel að hinu ástkæra, ylhýra máli. Í staðinn fyrir orðskrípið „þrýstiloftsflugvél“ sem tröllreið öllum fréttatímum á sjötta. áratugnum, smíðaði Högni snjallt nýyrði, þota, sem öðlaðist samstundis þegnrétt í móðurmálinu,“ segir frændi hans, Gunnar Finnsson, í minningarorðum um Högna Torfason.